Náttúrufræðingurinn - 2016, Qupperneq 54
Náttúrufræðingurinn
126
Hallasan-fjall, hæsti hluti dyngjunnar, móbergsklettar,
fleiri jarðminjar og merkir hraunhellar voru tekin
á heimsminjaskrá UNESCO árið 2007. Unnið er að
því að fá fleiri hraunhella og svæði samþykkt á
heimsminjaskrána. Lítill en mikilvægur hluti hellanna
hefur verið gerður aðgengilegur ferðamönnum sem
flestir eru Kóreumenn. Flestir hraunhellar Jejueyju,
tugir kílómetra, eru lokaðir, sumir mjög rammlega, og
umferð um þá óheimil nema í rannsóknarskyni.
3. Hraunasvæði Ástralíu eru á stærð við Ísland
að flatarmáli. Ekki er um hraunlagauppbyggingu
að ræða eins og hér, heldur slettur hér og þar.
Margar eru mjög gamlar, jafnvel hundruð þúsunda
ára, jafnvel milljóna. Helstu svæðin eru í Viktoríuríki
í Suður-Ástralíufylki og í Queensland í norðaustri.
Þekktasta eldstöðin er Undara í Queensland. Menn
gerðu sér grein fyrir alþjóðlegu mikilvægi Undara strax
á áttunda áratugnum. Hafist var handa við að leggja
grunninn að Undara-þjóðgarðinum með samningum
og uppkaupum á landi 1989 og er núverandi stærð
þjóðgarðsins 61.500 ha. Undara-eldstöðin er 180 þúsund
ára gömul, hraunið þekur 1.550 km2 og lengsta
hrauntungan er 160 km á lengd (Þjórsárhraunið er
8.500 ára, 950 km2 að flatarmáli og 140 km langt).
Undara var áður nautgripabúgarður, og tóku fyrri
eigendur, stórfjölskylda, að sér rekstur þjóðgarðsins.
Ríkisstjórn Queenslands hefur styrkt verkefnið og
lagði m.a. sem nemur 270 milljónum króna til gerðar
göngustíga og pallakerfis í ferðamannahluta Undara-
hraunhellakerfisins. Heimsókn í Undara er frekar dýr.
Vel er staðið að rekstri, viðhaldi, varðveislu, eftirliti
og leiðsögn. Ferðir í hellana eru undantekningarlaust
með leiðsögn og eingöngu gengið á afmörkuðum
stígum og/eða göngupöllum. Rannsóknir, aðallega
líffræðirannsóknir, eru eftirsótt háskólaverkefni. Valið
er úr umsóknum og færri komast að en vilja.
4. Galapagoseyjar eru dyngjusvæði á flekaskilum í
Kyrrahafi. Þær liggja á miðbaug, um 1.000 km vestur af
Ekvador sem þær tilheyra. Eyjurnar eru alls um 8.000
km2 að stærð og taka yfir heitan reit. Þær eru misgamlar
og skiptast í 13 stærri eyjar, frá 14 til 4580 km2 að stærð,
6 minni eyjar og nokkurn fjölda smáeyja og skerja.
Virknin er bundin við sex dyngjur á yngstu eyjunum,
Isabella og Fernandina. Galapagoseyjar eru þekktar
fyrir fjölbreytilegt lífríki, þróunarkenningu Darwins
og eldvirkni, og eru á Heimsminjaskrá UNESCO.
Friðunin nær til 97% eyjanna. Heimsóknir á friðuðu
svæðin eru takmarkaðar við ákveðna staði, aðeins
leyfðar að degi til og fylgt er fyrirfram afmörkuðum
stígum undir eftirliti og leiðsögn. Nokkrir hraunhellar
eru á búsetusvæðunum á Santa Cruz og Isabella. Þeir
eru í einkaeign og flestir aðgengilegir almenningi og
ferðamönnum. Stígagerð, mannvirki og leiðsögn eru
takmörkuð og lítið lagt til hellanna vegna fátæktar og
úrræðaleysis. Hellar í einkaeign liggja því undir álagi og
byrjandi skemmdum. Mikill fjöldi annarra hella, tugir
eða hundruð kílómetra, margir hverjir ókannaðir og
aðrir líklega ófundnir, eru á verndarsvæði eyjanna, utan
seilingar almennings og ferðamanna. Ekkert hellafélag
er á Galapagos, en félagar í NSS (Hellasamtökum
Bandaríkjanna) hafa sinnt mælingum og rannsóknum á
tugum kílómetra ósnortinna hellisganga í samvinnu við
jarðfræðinga og aðra umsjónaraðila eyjanna.
5. Hawaiieyjar eru risadyngjur rétt eins og Galapagos
og Jeju, á flekaskilum í miðju Kyrrahafi um 5.000
kílómetrum frá strönd Bandaríkjanna. Mauna Kea
og Mauna Loa eru bæði stærstu eldfjöll veraldar og
hæstu fjöll veraldar miðað við hæð frá sjávarbotni.
Eyjaklasann rekur frá austri til vesturs og eldist eftir
því sem vestar dregur. Eldvirknin er bundin við
yngstu og austustu eyjuna, Hawaii, sem er um 10
þúsund km2 að stærð, yfir heitum reit. Hellisgöng
risadyngnanna fimm, Mauna Loa, Mauna Kea, Kiluea,
Hualalai og Kohala eru mörg hundruð kílómetrar að
lengd. Aðeins um einn þúsundasti hellisganganna er
aðgengilegur almenningi og ferðamönnum án eftirlits
og fylgdar. Þrír hellar eru yfir 60 km að lengd. Kipuka-
Kanohina, lengsti hraunhellir veraldar, 72 km, er að
mestu í eign í Hellaverndarfélags Hawaii (CCH,)
og hellamanna í Ocean View. Kazamura er um 68
km að lengd, í einkaeign allmargra aðila, sem sumir
hverjir selja ferðir. Þriðji hellirinn, eða hellakerfið,
er á landsvæði frumbyggja í Hualalai-dyngjunni
og er það yfir 60 km langt. Þetta hellakerfi, ásamt
nokkrum öðrum hellum á landsvæðum frumbyggja
hefur verið lokað bæði hellamönnum og almenningi í
nokkur ár og eru ekki líkur á að á því verði breyting á
næstunni. Verið er að útbúa Kula Kai-hellana, örlítinn
hluta Kipuka-Kanohina-kerfisins, sem sýningarsvæði.
Um 1/20 hellakerfisins er smám saman að verða
aðgengilegur litlum hópum í fylgd og leiðsögn. Hlutar
Kazamura-hellisins eru aðgengilegir ferðamönnum
í allt að sex manna hópum, yfirleitt í fylgd og
leiðsögn. Hellafélög Hawaii, Hawaii Speleological
Survey, Hawaii Grotto, Cave Conservancy of Hawaii
og Hawaii Conservation Task Force, vinna náið, en í
mismiklum mæli eftir áhugasviði og áherslum, með
ríkisstjórn Hawaii og forsvarsmönnum verndarsvæða
og þjóðgarða. Rekstur og skipulag þjóðgarðsins, Hawaii
Volcanos National Park, er til fyrirmyndar. Enginn,
ekki heldur hellamenn, fær að heimsækja hraunhella
þjóðgarðsins nema með leyfi, og það aðeins að
undangenginni umsókn þar sem rannsóknarmarkmið
og tímalengd rannsókna eru skilgreind. Þessi regla var
nýlega yfirfærð á verndarsvæði og land í ríkiseigu á öllu
Hawaiieyjasvæðinu.
Eftirmáli, frh.