Náttúrufræðingurinn - 2016, Qupperneq 74
Náttúrufræðingurinn
146
sm á ári í 10–15° halla.a Ekki þarf
nema fárra gráðu halla til þess að
eitthert jarðsil verði. Í lítt grónum
brekkum myndar jarðsilið oft sepa
með grónum, bröttum framkanti,
en í vel grónum, bröttum brekkum
getur jarðvegurinn hrukkast svo
vegna jarðsilsins, að brekkan verður
sem hallandi þvottabretti. Hvergi
hérlendis er meira af slíkum brekkum
en í Vestur-Skaftafellssýslu. Góð
dæmi um slíkar þvottabrettisbrekkur
er víða að sjá undir hömrum í Mýrdal
og á Síðu. En hvergi hérlendis hefi ég
séð eins myndarlega jarðsilsbrekku,
eða með eins stórum og reglulegum
fellingum, og brekku sunnan í
Pétursey, eða Eynni há, eins og hún
heitir í Sturlungu (2. mynd). Þessi
brekka er gegnt Eyjarhól (Nikhól),
sem er gígtappi úr basalti, um 35
m hár, sunnan vegar. Grasbrekkan
er um 75 m há, halli neðst í henni
um 20° og fellingarnar þar orðnar
óglöggar vegna túnræktar. Ofar í
brekkunni er hallinn sumsstaðar allt
að 40°, en meðalhalli brekkunnar
í heild 35–36°. Í þessari brekku
höfum við talið 112 fellingastalla, en
sumsstaðar er álitamál hvað telja
skuli einn stall, því hér og þar greinist
einn stallur í tvo (sbr. mynd). Meðal
hæðarmunur milli stalla er um 65
sm, en hæð frambrúnar að meðaltali
um 20 sm. Meðalbreidd milli stalla
er nálægt 1 m, fremri hlutinn, 20–30
sm, nokkurnveginn láréttur, en efri
hlutinn með svipuðum halla og
brekkan í heild. Í jarðsilsbrekkum af
þessu tagi má oft sjá sauðkindur ganga
eftir stöllunum, og eiga þær líklega
einhvern þátt, þó alls ekki afgerandi, í
að skerpa þá. Brekkan gegnt Eyjarhól
er nú komin á náttúruverndarskrá
og verður væntanlega friðlýst sem
náttúruvætti.4
Helgi Torfason jarðfræðingur
birti smágrein í Náttúrufræðingnum
1984 sem hann kallar „Jarðsil í
Pétursey“ og fylgir henni mynd
af hópskoðun stallabrekkunnar,
líklega úr einni af kennsluferðum
Sigurður Þórarinssonar. Þar ritar
Helgi:
Jarðsil er það nefnt þegar
vatnsmettaður jarðvegur sígur af
þunga sínum undan halla, stundum
á frosnu undirlagi. Þá myndast
jarðsilþrep, sem eru eins og breiðar
tröppur í hlíðum fjalla. Mjög algengt
er að sjá jarðsilþrep í hlíðum fjallanna
í Mýrdal og undir Eyjafjöllum. Þrepin
eru um 1 metri á breidd og hæð
þeirra 50–60 cm. Hraði jarðsils hefur
ekki verið mældur hérlendis svo mér
sé kunnugt, en fróðlegt væri að sjá
mælingar á silhraðanum í Pétursey.5
Síðan getur Helgi um annars-
konar myndanir af völdum jarðsils,
svo sem öldur eða tungur sem oft
séu 5–10 m breiðar og allt að metri
á þykkt. Þær eru algengar ofantil í
hlíðum fjalla með ruðningsjarðvegi,
oftast berar að ofan en grónar að
framan. Þær eru óreglulegar og
mynda mjög sjaldan reglulega stalla.
2. mynd. Stallabrekkan fræga sunnan í Pétursey. Ljósm. Snorri Baldursson, ágúst 2016.
a Ólafur Arnalds bendir í athugasemdum sínum við þessa grein á að hér hafi e.t.v. misritast „sm“ fyrir „mm“.