Jökull - 01.01.2013, Blaðsíða 142
Magnús Tumi Guðmundsson
Horft vestur til gosketilsins af brún Grímsfjalls þann 30. maí. – View towards the craters from the rim of
Grímsfjall. Ljósm./Photo. MTG.
umhverfis gjána en að sunnanverðu voru þær algerlega
huldar miklum gjóskubing sem mælingar leiddu í ljós
að var allt að 50 metra þykkur. Langstærsta verkefni
ferðarinnar var að kortleggja þykkt gjóskunnar. Tveir
til þrír hópar voru að staðaldri úti að mæla þykktir og
taka sýni. Mælingar náðust á um 100 stöðum víðs-
vegar um vestanverðan Vatnajökul. Megin þykktarás-
inn lá aðeins vestan við suður, vestan í Háabungu og
austan Þórðarhyrnu. Í mæliferðunum var m.a. farið
langt niður eftir Skeiðarárjökli, mæld lína milli Þórð-
arhyrnu og Háubungu og önnur sunnan Þórðarhyrnu
og Geirvartna. Ljóst var af bráðabirgðaniðurstöðum
að magn gjósku í þessu gosi var miklu meira en í Eyja-
fjallajökulsgosinu árið áður. Sem dæmi má nefna að
gjóskan var um hálfur annar metri á þykkt vestanhallt í
Háubungu, í 7 kílómetra fjarlægð frá gígnum. Ef mið-
að er við magn loftborinnar gjósku virðist þetta gos
hliðstætt við Kötlugosið 1918. Það er jafnframt um
tífalt stærra en Grímsvatnagosið 2004. Auk gjósku-
þykkta var safnað gassýnum, bæði við gosstöðvarnar
og á Saltaranum.
Þegar okkur varð ljóst hve mikið þetta gos í raun
hafði verið, varð ýmsum hugsað til þess hver útkom-
an hefði orðið ef sterkur vindur hefði verið af vestri
en ekki úr norðri eins og raunin varð. Skálar félags-
ins á Eystri Svíahnjúk standa um 6 kílómetrum austan
gígsins. Hætt er við að hús hefðu sligast ef 1.5 m af
gjósku hefðu lagst yfir þau. Jafnframt kom í hugann
hve heppilegt það er að Grímsvötn, virkasta eldstöð
landsins, sé staðsett inni í miðjum Vatnajökli, fjarri
öllum mannabyggðum. Hefði gjóskufall í Eyjafjalla-
jökulsgosinu orðið jafn mikið eins og í Grímsvötnum
nú, er hætt við að Eyjafjallasveit væri nú sandborin
eyðimörk, en um 7 kílómetrar eru úr gíg Eyjafjalla-
jökuls að Seljavöllum, þeim bæ sem næst stendur gos-
stöðvunum 2010.
142 JÖKULL No. 63, 2013