Breiðfirðingur - 01.04.1986, Blaðsíða 30
28
BREIÐFIRÐINGUR
Síðast var Pórsglíma háð 23. marz 1929. Þátttakendur
voru sjö, og hlaut Björn Hildimundarson Þórshamarinn.
Skemmtileg tilviljun má það teljast, að sonur þess manns, er
fyrstur hlaut verðlaun „Þórs“ fyrir nær tveim áratugum
skyldi verða til þess að hreppa þau samtímis og sögu félags-
ins var lokið.
Þann 2. ágúst 1908 var haldinn fjölmenn skemmtun að
Skildi í Helgafellssveit. En á hana er minnzt hér af þeirri
ástæðu, að þar var glíma m.a. til skemmtunar, og í henni
tóku einkum þátt menn, sem áttu eftir að koma við sögu í
„Þór“. Jafnir að vinningum urðu Hildimundur Björnsson og
Guðlaugur Jónsson frá Ytri-Tungu í Staðarsveit (Eyfirðing-
ur). Sá síðarnefndi var talinn glíma betur og voru honum því
dæmd verðlaunin.
Hér á eftir verður eins og fyrr einungis getið um fæðingar-
og dánarár þeirra manna, sem mest komu við sögu glímufé-
laga í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu, t.d. sem formenn,
og þeirra er hlutu verðlaun fyrir glímu.
„Glímufélagið Hjaðningar“ í Miklaholtshreppi
Margir menn „sunnan fjalls“, eins og það var kallað, urðu til
þess að taka þátt í sýsluglímunum, svo sem annáll þeirra ber
með sér. Stóð svo löngum meðan þær voru háðar. Ástæðan
til þess var sú, að sama árið og sýsluglíman hófst fyrst, eða
1912, var stofnað sérstakt glímufélag í Miklaholtshreppi og
var nefnt „Hjaðningar“. Forgöngu um stofnun þess hafði
þáverandi kennari í hreppnum, Helgi Guðmundsson frá
Ytri-Knarrartungu í Breiðuvík (f. 1889, d. 1943). „Var
stofnun „Hjaðninga" fyrsti vísir að félagslegri æskulýðs- og
íþróttastarfsemi í hreppnum“, eins og Halldór Erlendsson
frá Hjarðarfelli, nú bóndi í Dal, orðar það. Halldór segir
ennfremur: „Félagið hafði glímuæfingar einu sinni í mánuði,
og voru þær haldnar til skiptis á bæjum tvö fyrstu ár félags-
ins, en eftir að þinghús reis á Fáskrúðarbakka árið 1913 fóru
æfingar fram í því“.