Breiðfirðingur - 01.04.1986, Blaðsíða 117
BREIÐFIRÐINGUR
115
Mannstu þennan mjúka brag,
mildan, bláan sunnudag,
sóley, angan, erlu, flag,
allir hlógu og tóku lag.
Hyggjan í þeim hýra bæ
hafði við sig einhvern blæ,
sem ég aldrei oftar fæ
upplifað um jörð og sæ.
Þegar í brjóstið beljar hríð,
byltingar og dauðastríð,
ljúfan þyt í hugans hlíð
heyri ég frá þeirri tíð.
Hér er á svo fagran hátt lýst andrúmsloftinu á æskuheimili
Sigríðar, að ekki þarf um að bæta. Þetta sérstaka andrúms-
loft fylgdi henni á langri ævi.
Hjá Sigríði og Guðmundi á Leiðólfsstöðum dóu að
minnsta kosti þrjú gamalmenni eftir langa dvöl þar.
Margrétar, tengdamóður Sigríðar hefur áður verið getið, en
hún lést að vísu að Saurum háöldruð, eða 84 ára gömul.
Seinni maður Margrétar, Bjarni Hallgrímsson, lést þar 1931,
þá kominn um sjötugt. Á fyrstu búskaparárum Guðmundar
og Sigríðar átti þar síðast athvarf faðir Bjarna, Hallgrímur
Bjarnason frá Laxárdal í Hrútafirði Hann andaðist á Leið-
ólfsstöðum hálfníræður árið 1917. Sólveig kona hans andað-
ist líka á Leiðólfsstöðum.
Margrét Guðmundsdóttir og Bjarni Hallgrímsson eignuð-
ust einn son, Jóhann, er getið var hér að framan. Hann var
um langt skeið verslunarmaður hjá Kaupfélagi Hvamms-
fjarðar í Búðardal. Síðar vann hann við bréfaskóla S.Í.S. í
Reykjavík. Jóhann ólst upp á Leiðólfsstöðum, dvaldi í
Hjarðarholtsskóla, auk framhaldsnáms. Hann stundaði
barnakennslu um hríð í sinni heimasveit, þekktur og vinsæll
félagsmálamaður í Dölum um langt skeið.