Tímarit Máls og menningar - 01.06.2013, Side 3
TMM 2013 · 2 3
Vésteinn Lúðvíksson
Lagarfljótsormurinn og ég
Ég var talinn rétti maðurinn til að finna hann;
sjálfur taldi ég mig líka þann rétta. Ekki aðeins
var ég alinn upp í grenndinni, frá barnæsku hafði
ég borið mig eftir vitnisburðum, munnlegum
sem skriflegum, að ógleymdum teikningum,
ljósmyndum, hljóðupptökum og myndböndum.
Það var ég sem átti mest af þessu sjálfur, og
afganginn þekkti ég til hlítar.
Það kom því engum á óvart þegar mér var
boðið til könnunardvalar við fljótið árið um
kring. Þolinmóður, árvökull og úthaldsgóður
var ég búinn öllum nauðsynlegum tækjum, og
aðstoð fengi ég á nálægum bæjum hvenær sem á
þyrfti að halda.
Hann er vissulega til. Mitt var einungis að
sanna, endanlega, að hann væri það.
Og það sver ég: ég var að því kominn þegar ég
hvarf.
Ég svaraði hvorki síma né netpósti, lét hvergi
sjá mig, skildi engin skilaboð eftir; svo auðvitað
var farið að grennslast um mig.
Ljósmynd tekin um kvöld á Egilsstöðum benti
til þess að ég væri lífs, spor í snjóföl að stórstígur
hefði ég hraðað mér upp með gruggugum
Leg inum, og fjarskyldur ættingi taldi sig sjá mig
frakkaklæddan á Keflavíkurflugvelli um miðjan
dag – svo aðeins fátt eitt sé nefnt.
Þannig er nú það. Sá sem átti að finna hann,
hann finnst ekki heldur.
En vissulega erum við til, báðir tveir. Það
er bara ekki okkar hlutverk, einsog málum er
komið, að leggja fram órækar sannanir fyrir
tilvist hans og minni.