Tímarit Máls og menningar - 01.06.2013, Page 11
B r o s t i n f r a m t í ð – 2 0 á r u m s í ð a r
TMM 2013 · 2 11
og endurskipulagt sig – að vissu marki. Hún er ekki sá lokaði heimur eða
það utansögulega svarthol sem sumir höfundar hafa viljað gera úr henni.
Á áratugnum eftir dauða Stalíns var stjórnarfari í Sovétríkjunum breytt úr
einveldi (autokrati) í fáveldi, fjöldaterror var lagður niður, svo og mann-
fórnir af því tagi sem Stalín hafði tekið upp og kallað réttarhöld. Allt voru
þetta takmarkaðar breytingar, en þar með er ekki sagt að þær hafi verið
þýðingarlausar. Þær ýttu líka undir tilraunir til róttækari umbóta í Austur-
Evrópu. Tékkneska umbótahreyfingin var auðvitað að miklu leyti sprottin
af viðbrögðum við efnahagsörðugleikum eftir 1960 en hún fékk afgerandi
styrkingu frá 22. flokksþinginu í Moskvu í árslok 1961, þar sem gengið var
lengra í gagnrýni á Stalín en verið hafði 1956.“
Ber að líta svo á að íslenskir kommúnistar hafi stutt alræðishugmynd um
stjórnarfarið sem þeir vildu koma á?
„Sögunni er ekki hægt að lýsa þannig að íslenskir íslenskir vinstri menn hafi
einfaldlega verið blekktir af klíku í Moskvu – það stenst ekki frekar en að
hrunið á Íslandi sé bara verk óreiðumanna. Ef menn vilja teljast hugsandi
verur verða þeir að taka einhverja ábyrgð á skoðunum sínum. En hversu
hallir voru íslenskir kommúnistar eða sósíalistar undir alræðishugmyndir?
Auðvitað var gengið til móts við þær með því að viðurkenna Sovétríkin sem
„stórveldi alþýðunnar“ en eins og ég reyndi að útskýra hér að ofan, fól það
ekki í sér skilyrðislausa hollustu við sovétmódelið, né heldur við lenínskar
flokkshugmyndir. Auðvitað gætti slíkra viðhorfa, en eftir 1938 voru þau
ekki skyldubundinn rétttrúnaður. Þetta verður þá spurning um viðhorf ein-
staklinga – þar með talinna forystumanna – og skoðanahópa.
Því má svo kannski bæta við að í sögu kommúnismans á Íslandi eru engir
glæpir; og það verður ekki sagt um alla þá kommúnistaflokka sem ekki náðu
völdum. Í nýlegri bók um íslenska kommúnista (ef bók skyldi kalla; þetta
er lítið annað en myndskreyttur svartur listi) segir Hannes Hólmsteinn
Gissurarson að þeir hafi hvorki verið betri né verri en aðrir kommúnistar.
Með öðrum orðum: Einar Olgeirsson var hvorki betri né verri en Stalín; það
þarf varla að hugsa þá hugsun til enda til þess að sjá hvers konar fjarstæða
þetta er.
Í ljósi þessarar forsögu verður skiljanlegt að staða róttækra vinstri manna
á Íslandi gagnvart umskiptunum miklu í Austur-Evrópu var önnur en
kommúnistaflokka á meginlandinu. Þar með er ég ekki að neita því að
Sósíalistaflokkurinn fjarlægðist Sovétríkin ekki eins hratt og rækilega og
hann hefði átt að gera. Reynsla tuttugustu aldarinnar hefur sýnt svo að ekki
verður um villst að vinstri pólitík sem ekki byggir á lýðræði og réttarríki er
á leið til glötunar. Það vafðist of lengi fyrir íslenskum vinstri mönnum að
viðurkenna þetta án fyrirvara.“