Tímarit Máls og menningar - 01.06.2013, Page 17
TMM 2013 · 2 17
Árni Snævarr
Ó, þetta var indælt stríð
Innanstéttarkrónika
Þetta var venjulegur dagur í líkamsræktinni upp úr síðustu aldamótum fyrir
daga útrásar og einkaþota. Sigurður Einarsson, bankastjóri Kaupþings lét sér
enn nægja hlaupabretti í venjulegri líkamsræktarstöð sem reyndar kenndi sig
við heimsmælikvarða, World Class. Mörgum árum síðar blandaði Sigurður
sér í baráttuna um mesta heimsafrekið í risagjaldþroti peningastofnunar.
En þarna voru þeir semsagt fyrir tilviljun við hliðina á mér sótsvörtum
almúgamanninum og óbreyttum fréttamanni á Stöð 2, Sigurður og Gunnar
Steinn Pálsson. Mekkanó þeirra GSP og Einars Karl Haraldssonar sogaði á
þessum tíma til sín alla sem vettlingi gátu valdið í blaðamennsku.
„Árni, þessar myndir af Kaupþingi sem þú ert alltaf að sýna í fréttunum,
þessar þar sem kvöldsólin glampar á lógóið. Geturðu ekki notað einhverjar
aðrar myndir?“
Ég man ekki hverju ég stundi upp við GSP enda farinn að skima eftir lækni
ef vera kynni að hlaupabrettið gerði út af við bankastjórann. „Manstu eftir
fjallalambinu, ha?“ Já. „Manstu eftir fréttunum um dilkakjötið? Skrokk-
arnir héngu þarna bleikir á krókum og frekar ógeðslegir. Ég lét breyta þessu.
Hringdi í strákana uffrá og bauð þeim upp á miklu betri myndir af þessum
elskum spígsporandi og sætum uppi á fjöllum.“
2007 var enn ekki gengið í garð en það var í undirbúningi. Sigurður varð
enn um sinn að gera sér að góðu að almannatengill þjónaði honum sem
einkaþjálfari í hlutastarfi og nokkur ár voru enn í einkaþotuna. Davíð var
nýbúinn taka út 400 þúsund kall til að mótmæla ofurlaunum mannsins á
hlaupabrettinu. Það var löng saga framundan og lauk ekki fyrr en Davíð
lagði inn 500 milljónir Evra hjá Kaupþingi sem enn virðast vera í óskilum
einhvers staðar í skugga pálmatrjáa á Tortola.
Auðvitað notaði ég myndirnar af kvöldsólinni að kyssa Kaupþingsmerkið
í hvert einasta skipti sem ég gerði frétt um Kaupþing – nema hvað.
Stríðsmaður Skífu-Jóns
Ég var semsé á þessum árum illa launaður stríðsmaður í heilögu stríði fyrir
heimsyfirráðum Jóns Ólafssonar í Skífunni ef marka mátti Hannes Hólm-
stein. Og þetta var vissulega oft og tíðum indælt stríð. Lélegu launin á Stöð