Tímarit Máls og menningar - 01.06.2013, Qupperneq 27
Ó , þ e t t a va r i n d æ l t s t r í ð
TMM 2013 · 2 27
gengið nyti ég ekki lengur trausts stjórnenda fyrirtækisins, þ.e.a.s. Sigurðar
G., stjórnarformannsins Jóns Ólafssonar og Sigurjóns Sighvatssonar.
Síðar sama dag sagði Karl fjölmiðlum og samstarfsmönnum sínum án
þess að depla auga að ég hefði verið látinn fara út af „skipulagsbreytingum“.
Það var og.
Að segja að ég hafi kvatt Stöð 2 dapur í bragði væri „understatement of
the year“. Ég var algjörlega bugaður, ég sat í tíu ára gamalli druslunni minni
rúmlega fertugur, atvinnulaus auminginn og grét. Allt sem ég hafði byggt
upp og lifað fyrir frá því ég veiktist af bakteríunni á DV hjá sómamönn-
unum Ellert B. Schram og Jónasi Kristjánssyni, var hrunið til grunna. Ég
hafði lagt mig allan fram og lagt allt í sölurnar fyrir þetta starf og nú hafði
mér verið kastað á dyr. Ég gat ekki hugsað mér neinn annan starfsvettvang
en þennan.
Flestir sýndu mér vináttu og nærgætni og er mér sérstaklega minnis-
stætt að Kári Stefánsson af öllum mönnum hringdi í mig til að stappa í mig
stálinu. Það gerðu líka vinir, ættingjar og langflestir vinnufélagar.
„Blaðamannafélagið snýst ekki um rassgatið á þér“
Ef til vill var ég barnalegur að búast við því að Blaðamannafélag Íslands
myndi, þó ekki væri nema til málamynda, mótmæla því að blaðamaður
væri rekinn úr starfi í kjölfar harðrar baráttu um sjálfstæði ritstjórnar sem
er lykilatriði í því að tjáningarfrelsi þrífist. Einu máli má gilda um hver lak
í frettir.com. Hefðu fréttamenn Stöðvar 2 átt að þegja yfir fréttum og láta
Sigurð G. Guðjónsson og Karl Garðarsson grafa fréttina um laxveiðar Geirs
H. Haarde? Gat Blaðamannafélag Íslands látið það viðgangast að fréttamenn
(þar á meðal formaðurinn) væru niðurlægðir og látnir ganga gegnum
svipugöng til að reyna að knýja þá til sagna um hver hefði lekið fréttinni um
þöggunina í frettir.com?
Því miður hafði Blaðamannafélagið og sérstaklega formaðurinn, Róbert
Marshall, hvorki bein í nefinu né nægilegt faglegt stolt til þess að bregðast við
og því var brottrekstri mínum ekki mótmælt og eftirmál laxveiðiferðarinnar
komu aldrei til kasta stéttarfélags blaðamanna.
Sjálfur reyndi ég hvað ég gat til þess að fá Blaðamannafélagið til að hreyfa
við málinu en uppskar tölvupósta frá formanninum þar sem hann sagði að
þar sem brottrekstri kvennanna fjögurra hefði ekki verið mótmælt, væri
engin ástæða til að mótmæla mínum: „Blaðamannafélagið snýst ekki um
rassgatið á þér“.
Það er óhugnanleg lógík í þessu; lógík sem best verður útskýrð með því
sem kallað er Stokkhólms-heilkennið, þegar gíslarnir festa ást á ofsækjend-
um sínum. Nokkrum mánuðum síðar sagði ég mig úr Blaðamannafélagi
Íslands, en svo þrotinn var ég sjálfstrausti að ég gerði það ekki opinbert.