Tímarit Máls og menningar - 01.06.2013, Page 82
82 TMM 2013 · 2
Magnús Bjarnason
Áhrif ESB-aðildar á
íslensk heimili
Inngangur
Í þessari grein verða dregnar fram niðurstöður nokkurra helstu rannsókna
sem unnar hafa verið um áhrif ESB-aðildar á efnahag íslenskra heimila.
Fyrst verður farið stuttlega yfir sögu efnahagssamvinnu Íslands og Evrópu á
lýðveldistímanum; síðan er gerð ítarlegri grein fyrir þeim miklu breytingum
sem áttu sér stað með aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu og áhrifunum
af fjórfrelsinu svokallaða. Meginkaflinn fjallar svo um þær meginbreytingar
sem má vænta ef skrefið inn í ESB er stigið til fulls. Hér er áhersla lögð á þá
þætti sem snerta vinnandi fólk og heimili, en minna fjallað um starfsum-
hverfi fyrirtækja eða tekjur og gjöld ríkisins, sem aðeins er minnst á stuttlega
þar sem það kann að tengjast efnahag heimilanna að einhverju leyti.1
Meginniðurstöðurnar eru að Ísland hafi í reynd orðið aukaaðili að ESB við
aðildina að Evrópska efnahagssvæðinu árið 1994, og full aðild að ESB muni
fyrst og fremst skila sér í lægra matvælaverði við afnám tollahafta. Aðild
að myntbandalagi ESB mun verða mjög jákvæð fyrir vöruverð, kaupmátt
og viðskipti, en aðild að myntbandalaginu er ekki sjálfgefin við ESB-aðild,
heldur krefst þess að efnahagsmálum á Íslandi sé komið í lag fyrst.
Forsaga efnahagssamvinnu Íslands og Evrópu
Efnahagstengsl Íslands við Evrópu hafa þróast í mörgum skrefum eftir
að landið varð sjálfstætt lýðveldi á dögum síðustu heimsstyrjaldar. Ísland
gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum árið 1946, og strax árið 1947 var
efnahagsnefnd Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu komið á fót (e. United
Nations Economic Commission for Europe), sem Ísland er aðili að. Árið
1948 varð Ísland aðili að Efnahagssamvinnustofnun Evrópu, sem varð að
Efnahags- og framfarastofnuninni árið 1961. Fríverslunarsamtök Evrópu
(EFTA, European Free Trade Association) voru stofnuð árið 1960 og Ísland
gerðist aðili þar árið 1970. Ísland varð svo aðili að Evrópska efnahagssvæðinu