Tímarit Máls og menningar - 01.06.2013, Page 106
S o f f í a B j a r n a d ó t t i r
106 TMM 2013 · 2
ekkert að gera annað en að skrifa undir hér á tveimur stöðum, þá er lífi þínu
borgið, ef svo má segja.“
Af hverju ætli maðurinn kalli mig elsku? hugsaði ég með mér og datt í hug
hvort þetta væri sófanum mínum að kenna. Ég gat ekki með nokkru móti
munað þetta símtal. „Fyrirgefðu, ég er ekki alveg með á nótunum, hvaða
símtal ertu að vísa í?“ spurði ég ringluð.
„Nú, þú hringdir sjálf og baðst um líftryggingu. Þú baðst sérstaklega um
að fá tryggingasölumann heim til þín að ári og það varð að vera nákvæm
dagsetning, 21. nóvember. Enda stöndum við hjá tryggingarfélaginu Líf þitt
er mitt, ávallt við gefin loforð.“
Ég starði á hann í smástund en greip svo pennann og skrifaði undir líf-
tryggingarskjölin í snarheitum og nánast henti manngreyinu út, dauðhrædd
um að antíksófinn færi að bæra á sér aftur.
Það varð ekkert af vesturferðinni þetta árið og nóvember liðaðist áfram
slitinn milli heima.
*
Mér varð hugsað til Klapparstígs 16 og vetrar ánamaðkanna nú um nítján
árum síðar þegar ég rakst á minningargrein í blaðinu einn morguninn.
Hann hét Gunnar Helgason og það var ekki minnst einu orði á starf hans við
tryggingarfélög en hins vegar staglast á því alla greinina hversu ómissandi
hann hefði verið fyrir áhugamannaleikfélag í Hafnarfirði sem bar nafnið
Sárabót. Ljósmyndin af honum í blaðinu var greinilega komin til ára sinna
en á henni er hann í teinóttum jakka, með ferköntuð gleraugu og brosir sölu-
mannslega til mín.
„Klapparstígur 16 og vetur ánamaðkanna“ er brot úr skáldsögunni Segulskekkju
sem er í vinnslu.