Tímarit Máls og menningar - 01.06.2013, Qupperneq 129
F i ð r i l d i
TMM 2013 · 2 129
gleymdi sér einu sinni og það var hringt í mömmu frá leikskólanum. Enginn
hafði sótt Kristján og Kötlu.
Alda hafði aldrei séð mömmu svona reiða. Hún sló hana og allt. Svo sá
mamma eftir öllu saman og grét svolítið í fanginu á Öldu og Alda sagði að
þetta væri allt í lagi, hún skildi þetta vel. Eftir þetta var henni bannað að
fara á bókasafnið. Ég get ekki treyst því að þú gleymir þér ekki aftur, sagði
mamma.
Sumar nætur dreymir Öldu að hún sofni með höfuðið á fílnum eða
froskn um og þegar hún vaknar er komið kvöld og einhver ókunnugur maður
hefur sótt Kristján og Kötlu á leikskólann og stolið þeim. Mamma grætur
og öskrar og slær. Þá hrekkur Alda upp, ýmist í svitabaði eða skjálfandi á
beinunum, og heitir sjálfri sér því að fara aldrei aftur á bókasafnið. En þegar
til kemur getur hún ekki stillt sig. Bókasafnið er uppáhaldsstaðurinn hennar
í öllum heiminum.
Mamma hættir að hamast með uppþvottaburstann og snýr sér að Öldu.
Hún endurtekur spurninguna, en að þessu sinni er meira en óþolinmæði
í röddinni. Tónninn er hvass og spenntur: Ætlarðu ekki að borða neitt,
krakki?
Ég er ekki svöng, muldrar Alda. Hún gýtur augunum að glugganum og
horfir á fiðrildið fljúga í burtu. Andartak óskar hún þess að hún geti farið
með því. Flogið eitthvað út í frelsi og áhyggjuleysi. En svo hugsar hún um
Kristján og Kötlu og hún veit að hún mun ekki fljúga neitt. Ekki án þeirra
allavega.
Mamma hverfur fram í þvottahús og Alda heyrir skáphurðir opnast og
lokast með skelli og vatn renna úr krana. Hún stendur hljóðlega upp og
gengur að vaskinum með diskinn sinn. Maturinn á honum er næstum
ósnertur. Kannski tekst henni að losa sig við plokkfiskinn í ruslið áður en
mamma kemur aftur fram.
Ekki draga lappirnar svona, krakki, segir mamma hvössum rómi fyrir
aftan hana. Alda hrekkur í kút, hún heyrði hana ekki koma. Hún flýtir sér
að skafa matarleifarnar af disknum í ruslið og skolar diskinn undir heitri
vatnsbunu.
Fjandinn hafi það, ég var að enda við að þrífa vaskinn, hvæsir mamma.
Hún er nú vopnuð skúringarmoppu og fötu, fullri af sápuvatni. Gulir
gúmmíhanskarnir eru í kuðli við úlnliðina.
Fyrirgefðu, segir Alda hæglátlega og stingur disknum í uppþvottavélina.
Þegar mamma er í þessum ham er best að segja sem minnst. Hún lokar
uppþvottavélinni, vindur borðtusku, setur smávegis uppþvottalög í hana
og strýkur yfir eldhúsbekkina og borðið. Svo nuddar hún vaskinn að innan
með uppþvottaburstanum og sápu og gætir þess vel að skilja ekki eftir nein
ummerki um plokkfiskinn.
Þegar hún gengur út úr eldhúsinu kemur mamma á eftir henni og grípur
utan um hana.