Árbók Nemendasambands Samvinnuskólans - 01.06.1979, Blaðsíða 29
Grundvöllur þessarar kröfu var sá skilningur forráða-
manna á hlutverki skólans, að hann ætti að búa fólk undir
störf, sem eftir væri tekið, og því fylgdi skylda um ákveðna
sjálfsvirðingu í sambandi við klæðnað og snyrtimennsku,
ekki síst þar sem reikna mætti með, að þessir starfsmenn
væru með vissum hætti andlit þeirrar stofnunar, sem unnið
var hjá og verið í forsvari fyrir. Þróun tíðarandans, jafnt
hjá hinu unga fólki og úti i þjóðfélaginu, gekk þarna í aðra
átt og því náðist ekki, a. m. k. ekki í bili, sá árangur, sem
stefnt var að. Svipað þessu fór um þá viðleitni að reyna að
skapa kyrrlátt og heimilislegt andrúmsloft við máltíðir.
Nemendur þjónuðu sjálfir í borðsal, báru á borð og af borð-
um og klæddust við það starf sérstökum klæðnaði. Fór það
að flestu vel fram, en sú hugsjón, að máltíðir yrðu rólegar
hvíldarstundir, rættist ekki. Hitt mun nær lagi, að þróunin
hafi orðið sú, að meðaltímalengd máltíða hafi staðið í öf-
ugu hlutfalli við þann árafjölda, er skólinn hafði starfað.
Þarna var róið gegn sterkum straumi, sem meðal annars
átti upptök sín í skólunum, sem til þess að spara kostnað
hafa horfið að sjálfsafgreiðslufyrirkomulagi í mötuneyt-
um, sem veldur því, að fólk gefur sér ekki lengur tíma til
að sitja saman við matborðið, uns allir hafa matast, heldur
rýkur á fætur um leið og diskar eru tæmdir. Þessi vani
flyst síðan inn á heimilin og um leið fækkar enn þeim fáu
stundum, sem fjölskyldan á sameiginlega í kyrrð og ró.
Ekki er hægt að skilja svo við umfjöllun um félags- og
tómstundastörf í skólanum, að ekki sé getið um þann mikla
fjölda gesta, er miðluðu heimafólki fróðleik og skemmtun.
Þegar á öðru starfsári skólans hélt Sinfóníuhljómsveit Is-
lands tónleika þar. Sama ár var haldin málverkasýning á
verkum úr Listasafni Islands. Þriðja starfsárið var fyrsta
Nobelskynningin haldin. Þar var nobelsskáld ársins kynnt
og varð slík kynning árviss viðburður í skólalífinu.
Á hverju ári komu listamenn og fyrirlesarar til að kynna
verk sín og fjalla um efni, sem forvitnileg þóttu og nem-
endur höfðu áhuga á. Fengu þeir þannig kynni af nýjum
skoðunum og ólíkum viðhorfum á ýmsum sviðum þjóðfé-
25