Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2016, Side 12
12 TÍMARIT HJÚKRUNARFRÆÐINGA
„Komið nær og lítið á mig“: Hjúkrun fólks með heilabilun og hegðunartruflanir
rugl, skert dómgreind og áttun, hegðunarbreytingar og
vandamál við tal, kyngingu og göngu (Tabloski, 2014).
Æðavitglöp
Æðavitglöp er næst algengasta orsök heilabilunar.
Undir æðavitglöp flokkast öll þau tilfelli sem rekja má til
sjúkdóma í æðakerfi heilans og minnkandi blóðflæðis til
hans. Eins og í Alzheimers-sjúkdómnum er heilarýrnun
iðulega fylgifiskur æðaskemmda (Tabloski, 2014). Hún
kemur oft skyndilega fram án langs aðdraganda. Hún er
talin orsakast af ýmsum vandamálum í hjarta- og æðakerf-
inu og virðist rýrnunin þróast í þrepum, framtakshæfni
truflast og göngulag breytist. Æðavitglöp ná yfir breytt
svið eða allt frá minniháttar heilablóðföllum yfir í klíníska
sjúkdómsmynd sem líkist Alzheimers-sjúkdómnum. Allt
sem hefur áhrif á æðakerfi og sjúkdóma tengda þeim, t.d.
hár blóðþrýstingur, blóðfita, hár blóðsykur, ofþyngd og
vannæring, telst til helstu áhættuþátta (Tabloski 2014).
Lewy-sjúkdómur
Lewy-sjúkdómur er taugahrörnunarsjúkdómur með
breytingum í heila en undir hann falla bæði parkinsonsveiki
með heilabilunareinkennum sem einkennast af því að
parkinsonseinkenni koma fram í 2 ár eða lengur áður en
einkenna um heilabilun verður vart og heilabilun með
„Lewy bodies“. Heilabilun með „Lewy bodies“ einkennist
af því að einstaklingurinn fær parkinsonseinkenni einu
ári eða skemur áður en heilabilunareinkenni koma fram.
Meinafræði þessa sjúkdóms einkennist af skemmdum á
ákveðnum svæðum í heilanum sem orsakast af svokölluðum
„Lewy bodies“ sem eru ákveðnar próteinúrfellingar í heila.
Einkenni Lewy-sjúkdóms geta m.a. verið ofskynjanir,
ranghugmyndir og utanstrýtukvillar, eins og skjálfti, stífni
og óstöðugleiki. Lewy-sjúkdómi er oft ruglað saman við óráð
enda eru einkenni hans áberandi miklar sveiflur í árverkni
og athygli og ofskynjanir þar sem fólk sér viðbótarliti og
skugga og jafnvel fólk sem er ekki á staðnum (Gealogo,
2013).).
Framheilabilun
Framheilabilun er um 20% af öllum greiningum um
heilabilun. Þessi gerð af heilabilun kemur oftast fram
snemma eða við 45-65 ára aldur (Snowden o.fl., 2002).
Undir framheilabilun fellur t.d. Picks-sjúkdómur sem
einkennist af persónuleikabreytingum og rýrnun á fram-
heila. Helstu einkenni framheilabilunar eru persónuleika-
breytingar og eru það þær auk sjáanlegrar minnkunar
á framheila í tölvusneiðmyndatöku eða segulómun sem
staðfestir greiningu. Persónuleikabreytingarnar, sem verða
við framheilabilun, eru svipaðar og hjá fólki eftir slys eða
blæðingu á framheila. Framheilabilun kemur sjaldnar fram
hjá háöldruðum en er algengari hjá fólki á miðjum aldri.
Ólíkt hinum flokkum heilabilunar kemur minnisleysi ekki
fram við framheilabilun fyrr en á seinni stigum sjúkdóms-
ins (Tabloski, 2014).
Hegðunartruflanir
Að sögn bandarísku Alzheimers-samtakanna eru um
68% af íbúum hjúkrunarheimila með heilabilun og af
þeim sýna um 87% hegðunartruflanir á borð við æsing,
árásargirni, ráp og svefntruflanir. (Alzheimer’s Association,
2016). Ofsjónir og ofskynjanir eru algengar á öllum stigum
Alzheimers-sjúkdómsins og fylgir flestum heilabilunarsjúk-
dómum en þær leiða til þess að viðkomandi missir tengsl
við raunveruleikann og sýnir gjarnan af sér óviðeigandi
hegðun (Tabloski, 2014).
Eins og fram hefur komið fylgja tjáningarerfiðleikar
iðulega á seinni stigum heilabilunarsjúkdóms. Því má
spyrja hvort hegðunarvandkvæði stafi að einhverju leyti
af tjáningarerfiðleikum fremur en skemmdum í heila.
Þegar á þetta stig sjúkdómsins er komið er sem einstak-
lingarnir séu fastir í framandi veröld, þeim finnst það sem
er endurtekið vera nýtt og flestar ef ekki allar athafnir
daglegs lífs vefjast fyrir þeim og reynast þeim jafnvel
ofviða. Hæfileikinn til að tjá sig og skilja mælt mál skerðist
eða hverfur. Því má leiða líkum að því að sum hegðunar-
vandamál séu tilraun til að fá viðtakandann, oftar en
ekki umönnunaraðilann, til að skilja hvað það er sem
þeim liggur á hjarta og eru að reyna að óska eftir (Svava
Aradóttir, 2003). Þegar hæfni einstaklingsins til að tjá sig
með orðum skerðist reynir hann oft að tjá sig um það sem
hann vanhagar um með hegðun sem oft er skilgreind sem
hegðunartruflanir. Samkvæmt NDB-hugmyndafræðinni
(need-driven, dementia-compromised behavior model)
grípur fólk með langt gengna heilabilun iðulega til óeðli-
legrar hegðunar til að gefa til kynna að þörfum þess sé
ekki fullnægt. Er þá sérhvert atferli tilraun til að fullnægja
ákveðnum þörfum, til dæmis getur hægðatregða, svengd
eða verkir birst sem ráf, árásarhneigð eða hróp (Kovach
o.fl. 2005).
Ljóst er að í mannlegum samskiptum skiptir tjáningar-
formið aðalmáli. Hjá einstaklingum með heilabilun er
tjáningargetan skert, skilningur þeirra á töluðu máli hefur
minnkað og túlkun skilaboða er brengluð en allt slíkt
veldur hæglega samskiptaörðugleikum (Svava Aradóttir,
2003). Því er svo mikilvægt að huga að fleiru en bara
hvaða orð eru valin enda skiptir öllu máli að umönnunar-
aðilar reyni að skilja óyrta tjáningu einstaklinga, svo sem
raddblæ og fas.
Viðbrögð við hegðunartruflunum
Mikilvægt er fyrir starfsmann að reyna að finna rót
hegðunartruflananna, hvort eitthvað er við aðstæður
skjólstæðingsins eða umhverfi hans sem hefur áhrif á
hegðunina eða hvort hann er í raun að reyna að biðja um
eitthvað sem hann finnur ekki orð fyrir. Mikið getur reynt
á starfsfólk við þessar aðstæður og er því mikilvægt að það
fái fræðslu og stuðning til að gera raunhæfar kröfur og
ætlist ekki til of mikils af einstaklingnum á seinni stigum
sjúkdómsins. Hægt er að kenna starfsfólki aðferðir til að
draga úr æsingi og kvíða hjá fólki með heilabilun, t.d.