Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2016, Side 13

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2016, Side 13
13 TÍMARIT HJÚKRUNARFRÆÐINGA „Komið nær og lítið á mig“: Hjúkrun fólks með heilabilun og hegðunartruflanir með því að endurtaka af þolinmæði, fullvissa viðkomandi að allt sé í lagi með hann sjálfan og fjölskyldu hans og leiðbeina honum við aðstæður sem hann ræður ekki við. Nauðsynlegt er líka að viðhalda virkni eins og hægt er, t.d. með samverustundum, tónlist eða öðru skemmtilegu (Sadowsky, 2012). Geðhjúkrunarfræðingurinn Ingelin Testad gerði rannsókn í Noregi á vandamálahegðun og beitingu valds eða þvingunarúrræða. Niðurstöður hennar sýna að þar sem starfsfólk fékk fræðslu um heilabilun, sjúkdómsferlið, sjúkdómseinkenni og meðferð dró verulega úr valdbeitingu eða þvingunum og minnkaði vandamálahegðun að sama skapi til muna. Þetta sýnir hversu mikilvæg fræðsla er fyrir þá sem sinna fólki með heilabilunarsjúkdóma enda getur umönnunin oft og tíðum verið krefjandi og reynt mjög á bæði faglega og persónulega. Umönnunaraðlinn þarf að vita hvernig nálgast beri einstakling með heilabilun enda oft vel hægt að draga úr hegðunartruflunum með réttri aðferð þrátt fyrir takmarkaða tjáningarmöguleika (Testad, 2009). Umönnunaraðilar Til að starfsmenn geti sinnt umönnunarhlutverki sínu eins vel og kostur er verða þeir sjálfir að vera í góðu jafn- vægi og ekki undir of miklu álagi. Rannsóknir á óformleg- um umönnunaraðilum sýna að þeir eru í verulegri hættu á sálrænum erfiðleikum og jafnvel líkamlegum vandamálum en því hefur verið haldið fram að það eigi einnig við um starfsfólk sem sinnir umönnun heilabilaðs fólks. Rannsókn á hjúkrunarfræðingum á hjúkrunarheimili í Svíþjóð sýndi að um 36,8% þeirra voru við það að brenna út í starfi. Þá kom fram í sömu rannsókn að þó sálrænt álag hafi verið mikið hjá fagmenntuðum starfsmönnum var það enn meira hjá óformlegum umönnunaraðilum. Höfundarnir benda á að ekki sé hægt horfa fram hjá þeirri staðreynd að mikil starfsmannavelta sé í þessum geira og megi því ætla að starfsmenn, sem þola illa álagið, endist stutt (Pitfield o.fl., 2011). Starfsfólk, sem annast fólk með heilabilun, þarf að geta veitt hinum aldraða skilyrðislausa athygli auðsýnt honum samkennd og skilning, verið til staðar og þegið hverja þá vinsemd sem hinn veiki veitir svo að honum finnist hann ekki bara þiggjandi heldur einnig veitandi. Til að starfsmenn geti veitt góða umönnun er mikilvægt að hlúa vel að þeim með góðu starfsumhverfi og reglulegri fræðslu. Einnig er eitt af grundvallaratriðum í góðri umönnun og meðferð að á milli ólíkra starfsstétta ríki góð samvinna þar sem mið er tekið af hagsmunum skjólstæðinganna með faglegri og samhæfðri þjónustu. Til að þörfum skjólstæðingsins sé sinnt sem best er ákjósanlegast að hafa teymi sem sinnir viðkomandi og fjölskyldu hans enda getur fjölskyldan einnig þurft á stuðningi og ráðgjöf að halda vegna breyttra aðstæðna (Sigurveig H. Sigurðardóttir, 2006). Mismunandi aðferðir Á síðustu árum hafa ýmsir frumkvöðlar mótað nýjar leiðir til að koma til móts við aldraða einstaklinga á hjúkr- unarheimilum. Þessar nýju aðferðir eiga að auðvelda bæði þeim sem eru með skerta vitræna getu eða annan heilsu- brest að njóta hins daglega lífs. Þetta er meðal annars Edenstefnan og Namastestefnan en báðar þessar stefnur hafa verið innleiddar á íslenskum hjúkrunarheimilum. Þær eiga að hjálpa til við að standa vörð um það að persóna hins aldraða fái notið sín og að allt umhverfi sem hinn aldraði býr í á hjúkrunarheimilinu sé hið heimilislegasta. Edenstefnan Edenstefnan á rætur að rekja til Bandaríkjanna um 1994 (Eden Alternative, e.d.). Upphafsmaður hennar er dr. William Thomas en hann starfaði sem yfirlæknir á hjúkr- unarheimili í Bandaríkjunum. Hann reyndi á sjálfum sér hvernig það væri að vera heimilismaður á hjúkrunarheimili fyrir aldraða og komst að því að það sem helst amaði að fólkinu fyrir utan líkamleg veikindi var einmanaleiki, leiði og vanmáttarkennd. Edenstefnan, sem hefur þróast í tvo áratugi, gengur út á það að heimilismenn haldi sjálfræði sínu þegar þeir flytja á hjúkrunarheimilið. Aðstandendur þeirra eru ávallt velkomnir og hvattir til að koma sem oft- ast en þeir geta tekið virkan þátt í daglegu lífi heimilisins. Reynt er að átta sig á siðum og venjum hins aldraða áður en hann flutti á hjúkrunarheimilið og viðhalda þeim eins og mögulegt er. Með þessu er horfið frá hjúkrunarheimil- inu sem stofnun og frekar litið á það sem heimili fólksins sem þar býr. Áhersla er lögð á að hver og einn hafi sitt eigið rými þar sem hann geti haft sína persónulegu muni en einnig er boðið upp á slíkt í sameiginlegu rými. Það hefur sýnt sig að Eden-hugmyndafræðin bætir umönnun fólks með heilabilun (Burgess, 2015). Á Edenhjúkrunarheimilum eru börn, dýr og plöntur talin hjálparhellur. Hver eining er höfð lítil og heimilisleg og er ávallt talað um heimili en ekki deild eins og tíðkast um stofnanir. Mikið er lagt upp úr því að fólk geti ræktað blóm og aðrar plöntur og er gjarnan sett niður grænmeti og kartöflur á vorin og tekur hver og einn þátt í því eins og heilsan leyfir. Áhersla er lögð á virðingu fyrir persónu hvers og eins, lífssögu viðkomandi og mikilvægi þess að horfa á manneskjuna en ekki bara sjúkdómsgreininguna. Reynt er að nota önnur úrræði en lyf meðan þess er kostur og er umhverfið haft eins rólegt og notalegt og kostur er þannig að hver og einn viðhaldi sínum háttum og fari á fætur þegar hentar (Burgess, 2015). Unnið er eftir hug- myndafræði Eden bæði hjá öldrunarheimilum Akureyrar (Öldrunarheimili Akureyrar, 2016) og á hjúkrunarheimil- inu Mörk (Mörk hjúkrunarheimili, e.d.). Namastestefnan Namastestefnan er ný aðferð í þjónustu við einstaklinga með heilabilun sem stuðlar að auknum lífsgæðum þessara einstaklinga. Hugmyndsmiður hennar, Joyce Simard, er

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.