Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2016, Blaðsíða 16
16 TÍMARIT HJÚKRUNARFRÆÐINGA
Verkjamat fólks með heilabilun með matstækinu PAINAD
RANNSÓKNIR HAFA sýnt að aldraðir eru almennt verr
verkjastilltir en þeir sem eru yngri. Í Bandaríkjunum hefur
verið áætlað að 60% aldraðra hafi fundið til langvinnra
verkja (Watkins o.fl., 2008). Samkvæmt ýmsum yfirlits-
greinum er áætlað að 49%-83% aldraðra sjúklinga með
fulla vitræna getu á hjúkrunarheimilum séu með verki.
Auk þess benda rannsóknir til þess að verkir hjá þeim
sem búa við vitræna skerðingu séu vangreindir og því enn
algengari en hjá öðrum. (Jordan o.fl., 2012). Nýleg íslensk
rannsókn sýndi að 69% íbúa á hjúkrunarheimilum eru með
verki og hjá þeim sem eru með minni lífslíkur en 6 mánuði
er hlutfallið orðið 87% (Jóhanna Ósk Eiríksdóttir, 2014).
Stór rannsókn á langlegusjúklingum í Finnlandi, Ítalíu og
Hollandi, sem birt var árið 2010, sýndi að um helmingur
íbúanna var með verki (Achterberg o.fl., 2010).
Erfitt er að fullyrða um algengi verkja meðal einstak-
linga með vitræna skerðingu þar sem hefðbundin verkja-
matstæki ná ekki nægilega vel til hópsins. Hins vegar er
ljóst að meirihluti íbúa á íslenskum hjúkrunarheimilum er
með heilabilun á einhverju stigi eða um 70% og því mik-
ilvægt að geta metið verki hjá þessum hópi (Hjaltadóttir
o.fl., 2011).
Heilabilun og verkir
Í erlendum rannsóknum mælast verkir iðulega minni
hjá einstaklingum með heilabilun heldur en hjá öðrum
(Achterberg o.fl., 2010; Jordan o.fl., 2012). Chen og
félagar (2010) gerðu rannsókn á sex heilabilunardeildum
í Taívan og komust að því að tíðni verkja var á bilinu
18-30% eftir því hver mat verkina. Sjálfsmatskvarðar voru
notaðir í öllum tilfellum en 13-28% þátttakenda gátu ekki
svarað. Í nýlegri danskri rannsókn á fólki með heilabilun
sögðust 33% þátttakenda vera með verki og 52% um-
önnunaraðila sögðu aðstandanda sinn vera með verki
(Jensen-Dahm o.fl., 2012).
Margt bendir til þess að verkir séu síður meðhöndlaðir
hjá fólki með heilabilun en öðrum. Í finnskri heilsufars-
rannsókn greindust mun sjaldnar verkir hjá einstaklingum
með heilabilun en öðrum öldruðum, 23% þeirra sem
voru með heilabilun sögðust finna verki daglega á móti
40% hinna. Einnig kom í ljós að þriðjungur einstaklinga
með heilabilun tók verkjalyf á móti helmingi þeirra sem
höfðu óskerta vitsmuni (Mäntyselkä o.fl., 2004). Horgas
og Tsai (1998) komust að því í rannsókn á nokkrum
bandarískum hjúkrunarheimilum að íbúar með heilabilun
fengu bæði minni og færri skammta af verkjalyfjum en
aðrir íbúar þrátt fyrir að svipaðar sjúkdómsgreiningar
væru til staðar. Að endingu skal bent á sláandi niðurstöður
rannsóknar sem gerð var árið 2000 en þar kom í ljós að
þegar einstaklingar með langt gengna heilabilun gengust
undir mjaðmaraðgerð fengu þeir einungis þriðjung af þeim
skammti ópíóíða sem fólk með enga vitræna skerðingu
fékk (Morrison og Siu, 2000). Höfundar rannsóknarinnar
drógu þá ályktun að taka þyrfti verkjameðferð einstaklinga
með heilabilun til gagngerrar endurskoðunar.
Verkjamat
Til að meðhöndla verki á áhrifaríkan hátt þarf að vera
hægt að meta verkinn og hefur sjálfsmat sjúklings verið
það sem þykir áreiðanlegasti mælikvarðinn eða hinn
gullni staðall (AGS, 2002). Til eru margar flóknar og
formlegar skilgreiningar á verkjum en þegar upp er staðið
er hjálplegasta skilgreiningin ein sú elsta: „Verkur er það
sem sjúklingurinn segir að sé verkur og er til staðar þegar
hann segir að svo sé“ (McCaffery, 1967). Verkur er huglæg
reynsla og tilfinning fyrir verk er einstaklingsbundin.
Sumir finna meira fyrir verkjum en aðrir og sumir sætta
sig við meiri verki en aðrir. Verkjaupplifun markast af
menningu, reynslu og líkamsbyggingu hvers einstaklings
(Jett, 2010).
Þekktasti og virtasti verkjamatskvarðinn er hinn
svokallaði „numerical rating scale“( NRS), þar sem sjúk-
lingur er beðinn að meta verk sinn á kvarðanum 0-10, þar
sem „0“ táknar engan verk en „10“ versta mögulega verk
að mati sjúklings (Hjermstad o.fl., 2011). Til að sjúklingur
geti notað NRS-kvarðann þarf hann að hafa sæmileg tök
VERKJAMAT FÓLKS MEÐ HEILABILUN
MEÐ MATSTÆKINU PAINAD
Elfa Þöll Grétarsdóttir, Helgi Egilsson og Ingibjörg Hjaltadóttir