Íslenskt mál og almenn málfræði - 2014, Síða 111
stuðlað hv-orð á móti h- þótt hitt komi líka fyrir. Þetta þarf svo sem ekki
að koma á óvart því að blandaður framburður er vel þekktur á Íslandi eins
og Björn Guðfinnsson (1946) var manna fyrstur til að lýsa í smáatriðum.
Eins og Eysteinn bendir á gæti það þá verið mismunandi eftir orðum
hvort menn hafa hv- eða kv-framburð í þeim. Breytilega stuðlun hv-orða
þyrfti þá að skoða með það í huga.24
Nú myndi Haukur kannski segja að þessi tilbrigði í stuðlun væru ein-
mitt það sem búast mætti við ef stuðlunin réðist að verulegu leyti af hefð
sem menn gætu að einhverju leyti ráðið hvort þeir fylgdu (sjá t.d. umræðu
hans 2013a:73–74). En ef þeir kjósa að fylgja henni ekki, eftir hverju fara
þeir þá? Hlýtur það ekki að vera brageyrað? Og erum við þá ekki að segja
að brageyrað sé til og hljóti að byggjast á hljóðkerfinu?25
Í öðru lagi segir Haukur (2013a:73):
Hins vegar veit ég ekki til að neitt skáld hafi tekið upp á að stuðla <hl>
aðeins við <hl>, <hj> aðeins við <hj> og svo framvegis. Hvers vegna breyt-
ist ein hefð í takt við hljóðfræðilegar breytingar en önnur ekki?
Þessi klausa er ekki alveg auðskilin svona án samhengis, en í því sem á
undan fer gengur Haukur út frá því sem vísu að orð sem eru rituð með hl-,
Stuðlar, hefðarreglur, hljóðkerfi 111
24 Ragnar Ingi Aðalsteinsson ræðir hv-stuðlun Jónasar Hallgrímssonar nokkuð (2010:
61–63). Þar segir hann að Jónas stuðli hv- „í örfá skipti“ á móti k- en annars á móti h-.
Ragnar túlkar þetta þannig Jónas hafi í raun haft kv-framburð (uppalinn í Öxnadal
snemma á 19. öld) en samt oftast stuðlað hv- á móti h- „til að fylgja hefðinni ... eða til að
ganga ekki gegn málvitund þess hluta þjóðarinnar sem ekki hafði kv-framburð“. Mér sýnist
aftur á móti alveg eins líklegt að Jónas hafi haft blandaðan hv-/kv-framburð og þá e.t.v.
þannig að kv-framburðurinn hafi verið bundinn við tiltekin orð. Í því sambandi er athyglis -
vert að einu dæmin sem Ragnar nefnir til stuðnings því að Jónas hafi haft kv-framburð
innihalda orðmyndirnar hvur, hver og hvurt. Eysteinn Sigurðsson (1986:18–21) nefnir
nokk ur fleiri dæmi um kv-stuðlun Jónasar (eða annan stuðlavitnisburð um kv-framburð)
og þau innihalda flest orð eins og hver, hvergi, hvenær, hvort, hvað. Jónas gæti því hafa haft
kv-framburð í þessum orðum (og öðrum álíka) en hv -framburð í hv-orðum af öðru tagi (t.d.
hverfult, hvít sem Ragnar nefnir sem dæmi um hv-stuðlun Jónasar).
25 Ég þakka nafnlausum yfirlesara fyrir þessa ábendingu. — Hér má líka nefna að sé
hefð og stafsetningu gefið eins mikið vægi og Haukur vill víða gera koma upp svipuð
vandamál þegar litið er á þróun stuðlasetningar í orðum sem hefjast á sn- og sl- til dæmis,
eins og sami yfirlesari bendir á. Slík orð stuðla stundum á móti orðum sem hefjast á st- (sbr.
alþekktar línur eftir Matthías Jochumsson: Sturla kvað yfir styrjarhjarli/Snorri sjálfur á
feigðarþorra og margt fleira) en ekki á móti orðum sem hefjast bara á s-. Þetta er stundum
kallað sníkjuhljóðsstuðlun og er jafnan skýrt með því að þarna hafi [t] laumast inn á milli
/s/ og /n, l/. Það er auðskilið ef miðað er við heyrandi brageyra en torskilið ef heyrnarlaus
hefðarregla er veigamikið atriði í stuðlun. Sníkjuhljóðsstuðlun er rædd nokkuð ítarlega í
doktorsriti Ragnars Inga Aðalsteinssonar (2010:191–194 og víðar).