Íslenskt mál og almenn málfræði - 2015, Page 52
Þetta eru býsna háar tölur þegar miðað er við að hér er ekki verið að tjá að
ákveðinn atburður sé í framvindu heldur er um að ræða endurtekna at -
burði og jafnvel vana. Það sem skiptir hér mestu máli er að rétt eins og
þegar við höfum ástandssagnir með vera að fáum við það vísbendi að um
tímabundið ástand sé að ræða. Aðrir atburðareiginleikar, þ.e. þróun og
stjórn, eru hins vegar þegar innifaldir í því að borga tryggingar og fara til
útlanda og áhersla á endurtekninguna felur því ekki í sér breytingar þar
að lútandi.
Það kemur í raun ekki á óvart að setningar sem lýsa endurteknum
atburðum eða vana skuli hegða sér eins og ástandssagnir að þessu leyti
enda hafa ýmsir haldið því fram að setningar sem lýsa vana séu nokkurs
konar ástand þegar kemur að horfi (e. aspectually stative) eða deili að
minnsti kosti fjölmörgum eiginleikum með ástandssetningum (sjá m.a.
Leech 1971, Newton 1979, Mufwene 1984, Partee 1984, Chung og Timber -
lake 1985, Krifka o.fl. 1995 og Carlson 2005).36
Það er því ljóst að ef um er að ræða endurtekna atburði eða vana sem
að einhverju leyti er tímabundið er notkun vera að + nh. tæk að margra
dómi. Theódóra Torfadóttir (2006) talar um slíkar setningar sem vana-
merkingu framvinduhorfs og gefur eftirfarandi dæmi:37
(79)a. ??Simbi er að keyra steypubíl (að staðaldri).
b. Simbi er að keyra steypubíl á meðan báturinn hans er í slipp.
Í (79a) er um varanlegan vana að ræða og setningin er í það minnsta vafa-
söm, en í (79b) er keyrslan tímabundin og setningin er tæk.
Þótt enn hafi ekki verið gerð skipuleg leit í málheildum til þess að
staðfesta að íþróttamálið og vanamerking framvinduhorfs sé eldra en
notkun vera að með ástandssögnum hlýtur það að segja okkur töluvert að
málfræðingar fóru að fjalla um vera að í íþróttamáli áður en farið var að
ræða ástandssagnir með vera að og eins þykja fyrrnefndu dæmin almennt
Kristín M. Jóhannsdóttir52
36 Sjá nánari umfjöllun um þetta hjá Kristínu M. Jóhannsdóttur (2011:137–139).
37 Theódóra notar vanamerkingu framvinduhorfs hér sem þýðingu á enska hugtak-
inu progressive habitual og vísar meðal annars til Quirk o.fl.1985:199. Ég hef þó skilið pro-
gressive habitual sem lýsingu á setningum eins og þeim í (i) og (ii):
(i) Í hvert sinn sem ég fer fram hjá húsinu þeirra er maðurinn að grilla.
(ii) Ekki hringja klukkan 7:30 — þá eru þau vanalega að borða.
Í staðinn er dæmið í (79b) það sem ég kallaði í doktorsritgerð minni (Kristín M. Jóhanns -
dóttir 2011) habitual progressive. Þýðingin hjá Theódóru, vanamerking framvinduhorfs,
passar því í raun betur við habitual progressive en progressive habitual sem í staðinn mætti
kannski kalla framvindumerkingu vanahorfs.