Spássían - 2010, Blaðsíða 11
11
Ískaldur hrollur
Yrsa Sigurðardóttir. Ég man þig. Veröld. 2010.
Draugalegt vetrarskammdegi virðist skapa kjöraðstæður
fyrir sögur Yrsu Sigurðardóttur, sem leitar sífellt lengra á vit
hrollvekjunnar, hins dularfulla og draugalega. Í fyrstu bók
sinni, Þriðja tákninu, daðraði hún aðeins við mystíkina sem
loðir oft við gömul handrit og galdrasögur en lesandinn fékk
þó rökréttar skýringar á öllu sem átti sér stað, í anda raunsærra
glæpasagna. Í fjórðu glæpasögu Yrsu, Auðninni, kynti einangrun
í grænlensku myrkri og snjó og dularfullt rjátl á glugga undir
draugalegri stemningu. Lítið var þó unnið úr henni og þegar leið
á bókina drukknaði hún í fyrirferðarmikilli tæknilegri úrvinnslu
sakamálsins. Í fyrra leitaði Yrsa aftur á draugaleg mið myrkurs
og einangrunar, nú á Kjalarnesi í bókinni Horfðu á mig. Þótt enn
mætti gera því skóna að rökrétt lausn lægi að baki öllu því sem
fyrir bar, gerði hún lesanda þann grikk að gefa annað í skyn í
bláenda bókarinnar og sendi kaldan hroll niður eftir baki hans.
Þær lokalínur voru í raun sterkasta sena þeirrar bókar.
Í nýjustu bók Yrsu, Ég man þig, virðist hún hafa ákveðið að
ganga alla leið og leyfa dulúðinni að taka völdin þótt hefðbundnari
sakamálasaga fléttist saman við, þannig að lesandinn er sjaldan
alveg viss hvorum megin línunnar hann er. Eyðibyggðin Hesteyri
á Vestfjörðum skapar draugalega umgjörð og í þetta skipti nýtir
höfundurinn sér möguleika sögusviðsins til hins ýtrasta.
Lögfræðingurinn Þóra, aðalsöguhetjan úr fyrri glæpasögum
Yrsu, er nú víðs fjarri. Hin ofurjarðbundna Þóra passar ekki hér
og það virðist hafa verið hárrétt
ákvörðun hjá Yrsu að salta hana
aðeins og hleypa nýjum persónum
að. Það hleypir nýju blóði í textann
og gefur honum óbeislaðri kraft. Í
staðinn kemur Freyr, læknir sem
flyst út á land eftir að sonur hans
hverfur sporlaust og hjónaband
hans leysist upp, mun breyskari
og viðkvæmari persóna sem passar
fullkomlega inn í þessa sögu um
fortíðardrauga, hrylling og hefnd.
Að lokum fá væntanlegir
lesendur nokkrar viðvaranir í
veganesti (sem þeim er þó frjálst að
hunsa að vild): Það þarf að gefa sér
tíma í að lesa bækur Yrsu. Þær eru
nokkuð langar og takturinn í þeim oft hægur þótt söguþráðurinn
sé yfirleitt það þéttur að hann haldi lesandanum örugglega við
efnið. Ég man þig er ekki bók sem þú gleypir í þig á nokkrum
tímum. Hún er þó svo spennandi að erfitt er að slíta sig frá
lestrinum svo vissara er að gera ráð fyrir því að fjölskyldan og
ýmis skylduverk sitji á hakanum á meðan. Þá er hætt við að þú
verðir hugsi og jafnvel utan við þig eftir lesturinn. Þrátt fyrir allt
þetta er ekki víst að sumarbústaðahelgi í órafjarlægð frá annarri
mannabyggð sé endilega rétti vettvangurinn til að draga fram
þessa bók. Því eitt er víst: Hún læknar ekki myrkfælni.
Flestir eru sammála um það að söguþráðurinn, fléttan, sé grundvallaratriði glæpasögu, að minnsta
kosti þeirra sem flokka má sem ráðgátur. Hér eru Arthur Conan Doyle og Agatha Christie sterkar
fyrirmyndir en sögur Conans Doyles um Sherlock Holmes fóru að birtast á íslensku strax í upphafi
20. aldar. Þýðingar á sögum Agöthu Christie fóru að koma út í íslenskri þýðingu árið 1938 þegar
The Murder of Roger Ackroyd fór að birtast í Þjóðviljanum sem framhaldssaga1 en hún einkennist
einmitt af vel úthugsaðri fléttu.
Þegar fléttan er allsráðandi, allt miðar að lausn gátunnar, verða persónurnar oft að aukaatriði
og persónur Agöthu Christie hafa stundum þótt frekar óspennandi, einhliða steríótýpur sem ganga
aftur í hverri bókinni á fætur annarri. Þær mætti jafnvel flytja á milli bóka án þess að það breytti
miklu. Meira að segja hinar víðfrægu aðalsöguhetjur, Miss Marple og Hercule Poirot, gegna svo
svipuðu hlutverki í sögum Agöthu Christie að það væri lítil fyrirhöfn að víxla þeim. Þau eru bæði að
einhverju leyti karikatúrar, staðlaðar skopmyndir af því sem talið er einkenna einhvern ákveðinn
samfélagshóp eins og gamlar piparjúnkur eða franska montrassa. Hins vegar ögra þau um leið
staðalímyndunum með því að koma sífellt á óvart með andlegum yfirburðum sínum. Og þessi litla
mótsögn nægir til að gera persónurnar áhugaverðar og minnisstæðar þrátt fyrir allt. Það er líka fyrst
og fremst sérviska Sherlocks Holmes sem gerir hann mannlegan og áhugaverðan. Að öðrum kosti
yrði hann aðeins of upphafin ofurhetja, gæddur ofvaxinni athyglisgáfu og í eilífðarslag við erkióvin
sinn.
„Snjalla löggustelpan“ Nancy Drew komst hins vegar aldrei nálægt því að vera af holdi af blóði.
Fjölmargir draugapennar áttu þátt í að skapa hina átján ára gömlu Nancy Drew undir nafninu
Carolyn Keene allt frá árinu 1930 en tókst furðu lítið að gæða hana lífi. Í sögunum um Nancy Drew
er ráðgátan aðalmálið og hún sjálf verður lítið meira en manneskjan sem finnur lausnina.
Íslenskar glæpasögur eru, eins og aðrar, háðar því að fléttan sé góð og að gátan sé leyst á
trúverðugan hátt á réttu augnabliki. Margir virðast þó leggja enn meira upp úr persónusköpun
og samfélagslýsingum og nota fléttuna aðeins sem tæki til að birta okkur sýn sína á samfélagið
og manneskjuna. Íslenskir glæpasagnahöfundar reyna að gæða aðalsöguhetjur sínar lífi, hvort
sem þær eru rannsóknarlögreglumenn, lögfræðingar eða blaðamenn. Það er frekar upp og ofan
hvort þeir leggja viðlíka natni við glæpamennina, sem geta verið allt frá örgustu klisjum til flókinna
persóna. Þeir fá þó sjaldan nægt pláss til að verða eftirminnilegir þótt skýringa á glæpum sé oft
leitað í persónuleika þeirra eða aðstæðum. Slíkar útskýringar þjóna yfirleitt frekar því hlutverki að
auka á trúverðugleika fléttunnar og raunsæi sögunnar.
Auður Aðalsteinsdóttir
Manneskjan sem leysir gátuna