Spássían - 2010, Blaðsíða 44
44
Loðmar er fallega hönnuð barnabók og skemmtilega skrítin að innan.
Á opnu eitt hittum við aðalsöguhetjuna Loðmar fyrir, en hann hefur
búið þar „einn síns liðs, einsamall, aleinn frá því hann var prentaður
... ... þar til þú komst til sögunnar.“ Þessi fyrsta setning bókarinnar er
nokkuð lýsandi fyrir stíl bókarinnar þar sem mikið er lagt upp úr því
að raða upp orðum með hliðstæða merkingu og segja sama hlutinn
á sem fjölbreytilegastan hátt. Ekki er hikað við að draga fram alls
konar orð og orðatiltæki sem börn nota ekki dags daglega, á borð
við „stélvisinn“ og „reka í rogastans“. Aftast er svo boðið upp á
„óhefðbundnar orðskýringar“ fyrir fróðleiksfúsa og forvitna krakka
(sem þeir óþolinmóðari geta flett yfir í hasti).
En nú erum við allt í einu komin aftast í bókina og höfum sleppt úr
atriðum sem mikilvægt er að minnast á. Ef við hraðflettum til baka á
opnu eitt þá situr Loðmar þar enn og hefur hingað til ekki þorað lengra
inn í bókina. Hann sækir nú í sig kjarkinn og manar lesandann til að
koma með sér á opnu tvö. Þetta er skemmtilegt upphaf á lestrinum því
auðvelt er að fá unga krakka til að gera það að leik að fletta síðunum.
Hefst nú ferðalag þar sem lesandinn er leiddur frá opnu til opnu og
kynnist ýmsu skringilegu sem sumt er þó einkennilega kunnuglegt,
til dæmis Lúpa á opnu fjögur, sem „reynir að sneiða hjá erfiðum og
óþægilegum hlutum og vill hvorki hafa áhrif á framvindu eigin lífs né
bókarinnar sjálfrar“, og Gnótt á opnu þrjú, sem er „nærsýn og víðlesin
en afar yfirlætisfull“.
Mest spennandi af öllu er þó auðvitað skrímslið hræðilega, Gímaldið,
sem losnar úr prísund sinni á opnu fimm, æðir stjórnlaust frá opnu
til opnu og gleypir í sig stafi, orð og setningar. Hasarinn er mikill og
myndirnar af Gímaldinu ómótstæðilega hræðilegar, en ekki verður
upplýst hér meira um söguþráðinn til að skemma ekki endinn fyrir
lesendum.
Loðmar fjallar ekki hvað síst um listina að lesa og skrifa sögur og
textinn nær vel að miðla því hvað það er skemmtileg iðja. Bókin virðist
höfða til nokkuð breiðs aldurshóps; myndirnar leika stórt hlutverk í að
draga krakka inn í söguna en textinn er engu síðra listaverk og nær að
vera bæði skrautlegur og skilmerkilegur. Listarnir aftast eru skemmtileg
viðbót en höfða kannski fyrst og fremst til krakka sem hafa gaman af
orða- og alfræðibókum, að grúska og fletta fram og til baka.
Dásamlega skelfilegt skrímsli
og hugprúðar söguhetjur
Auður Ösp Guðmundsdóttir og Embla Vigfúsdóttir.
Loðmar. Salka. 2010.
Geislaþræðir er bréfasaga. Eða réttara sagt safn bréfasmásagna. Þó ætti líklega frekar að kalla
þetta tölvupóstasögur því bréfaskiptin fara fram rafrænt. En í stað þess að fara að kalla þetta
tölvupóstasmásagnasafn ætla ég að láta alla merkimiða lönd og leið og snúa mér að efninu.
Undirtitill bókarinnar er Sögur um samskipti, sem gefur kannski auga leið þegar um
bréfaskrif er að ræða. Samskiptin hérna eiga það flest sammerkt að hefjast með tölvupóstum,
ekki augliti til auglitis, og þróast í fremur náið samband. Án þess þó að rómantík spili þar inn
í. Nær allar sögurnar fjalla um það hvernig fólk, sem virðist ólíkt á yfirborðinu eða er aðskilið
með mikilli fjarlægð, nær saman í þessu frjálslega tjáskiptaformi. Um leið er rakin einhvers
konar saga úr lífi þeirra og þar skortir ekki dramatík.
Fyrirferðarmesta sagan skiptist í þrjá hluta og fjallar um tvær konur sem finna eins konar
annað sjálf hvor í annarri. Önnur giftist manninum sem þær báðar féllu fyrir og því getur hvor
um sig speglað líf sitt í skrifum hinnar og spáð í það hvað hefði gerst hefði hún tekið annars
konar ákvörðun á örlagastundu. Þessi samsömun er undirstrikuð með því hversu líkar þær eru
og hversu margt þær eiga sameiginlegt, þótt þær búi í sitt hvoru landinu og hafi aldrei hist.
Um tíma fannst mér fullmikið teygt á þessum þræði, sem nær yfir um þriðjung bókarinnar.
Ég áttaði mig þó líka á því að ekki er hægt að sýna hversu örlagarík ein ákvörðun getur verið
í lífi manneskju nema með því að fylgja henni eftir um hríð.
Á móti má svo stilla síðustu sögu bókarinnar sem er stutt en áhrifamikil. Þar fær lesandinn
mesta rýmið til að lesa sjálfur milli línanna. Að auki eru örlög persónanna þar svo einkennandi
fyrir íslenskan samtíma að flestir ættu að geta þekkt sjálfan sig eða einhvern nákominn í þeim
aðstæðum.
Flestar persónurnar sækja sér stuðning í bréfaskiptin, finna þar vináttu og samsömun við
aðra manneskju. Einstaka sinnum virðist einhver bregðast illa við eða móðgast um stund
en fólk jafnar sig fljótt. Undir lokin var mig farið að þyrsta í meiri átök og það var eins og
við manninn mælt; þá kom að sögunni Blúndur og búsáhöld þar sem mæður tilvonandi
brúðhjóna takast á um boðskort og pólitík, oft með skemmtilega lúmskum skotum og
óbeinum aðdróttunum. Togstreitan skilaði sér vel gegnum tölvupóstaskrifin og slík átök hefðu
gjarnan mátt skjóta upp kollinum víðar.
Einhverjar tengingar eru milli sagna og fyrir mitt leyti hefðu þær mátt vera enn meiri
og mikilvægari. Það hefði gefið sögunum aukið gildi í mínum huga, att mér af stað í
rannsóknarleiðangra fram og til baka um bókina. Hér lét ég mér nægja að skrifa bak við
eyrað að hér og þar mætti sjá tengingar en engin þeirra virtist nógu spennandi til að bjóða
upp á slíkan leik.
Tölvupóstar eru ekki alltaf auðvelt samskiptaform, hraðinn gerir að verkum að margt
sleppur frá fólki sem hefði þurft að íhuga betur – fyrir utan þau skipti sem ýtt er á vitlausan
takka og einkamál dreifast stjórnlaust um allar trissur. Það mætti líka ætla að tölvupóstar
séu vandmeðfarnir sem bókmenntaform. Slíkar sögur fóru þó að skjóta upp kollinum strax
og tölvupósturinn varð að vinsælu samskiptaformi. Og Sigríður Pétursdóttir virðist ekki eiga
í nokkrum vandræðum með formið. Sögurnar renna hnökralaust áfram og toga lesandann
með sér með traustum þráðum sínum.
Auður Aðalsteinsdóttir
Traustir þræðir
um allar trissur
Sigríður Pétursdóttir.
Geislaþræðir. Uppheimar. 2010.
Auður Aðalsteinsdóttir