Spássían - 2010, Blaðsíða 24
24
og háskólinn væru náskyldar stofnanir
þar sem hefðir hafi mótast um meðferð
á sannleikanum. Kirkjan þykist hafa
fundið hann og háskólinn þykist alltaf
vera að leita. Í báðum tilfellum sé hætta
á þekkingarhroka. Gagnrýnin hugsun
sem efast ekki um eigin forsendur er
sjálfvirk og innihaldslaus gagnrýni, sagði
Viðar, hún verður að klisju sem haldið
er á lofti við hátíðleg tækifæri; að iðnaði
og söluvöru. Sett er fram hugmynd um
óskeikulleika sem fær á sig trúarlegan blæ
og uppskrúfaðar seremóníur háskólanna
minna um margt á helgisiði kirkjunnar.
Háskólanum hættir til að taka sjálfan sig
hátíðlega í stað þess að taka sig alvarlega,
sagði Viðar, hann snýst um form frekar en
innihald. En það sé holur hljómur í tali um
akademískt frelsi því háskólar séu háðir
hendinni sem fóðrar þá og akademíska
frelsið því dæmt til að vera í stöðugri vörn.
Háskólinn muni aldrei ganga í berhögg við
samfélagið sem ól hann af sér.
Er háskólafólk kerfisþrælar?
Boðunarfræðin einskorðast nefnilega
ekki við viðskiptafræðina eða hagfræðina.
Markaðsrökvísin hefur verið allsráðandi
síðustu 40 árin, sagði Páll Skúlason, og
efnahagur er talinn liggja stjórnmálum
og fræðum til grundvallar. Sú trú að við
höfum komist að hinum efnahagslega
sannleika í eitt skipti fyrir öll gerir það
að verkum að tæknilegir mælikvarðar
hafa ýtt öðrum kvörðum til hliðar á
öllum sviðum. Í stað þess að glíma við
gátur vísinda hugsa menn um tæknileg
vandamál. Þetta hefur það í för með sér að
spurningin „hvað er hægt?“ skiptir mestu
innan háskólasamfélagsins undanfarið,
ekki spurningar á borð við „hvað er rétt,
satt eða gott?“
Er háskólafólk orðið að kerfisþrælum?
spurði Páll. Þeir þurfa sífellt að bregðast
við opinberu eftirliti í formi úttekta,
jafningjamats, hvata- og gæðakerfis. Er
verið að breyta háskólanum í skrifræðis-
og stjórnsýslufyrirbæri, beina honum í átt
frá vísindum og fræðum?
Það virðist að einhverju leyti skoðun
Irmu Erlingsdóttur, lektors í frönskum
fræðum og forstöðumanns EDDU-
öndvegisseturs. Hún gerði valdakerfi,
skrifræði og gæðakerfi einnig að umtals-
efni og sagði það há háskólanum hversu
rígbundinn hann væri tæknigildum. Á
sýndarárum uppsveiflunnar í íslensku
efnahagslífi 2003 til 2008 hefðu íslenskir
háskólar lítið átt sameiginlegt með
hugmyndum um óháða háskóla. Það hefði
ekki aðeins verið vegna beinna afskipta
stjórnmálaflokka af þeim, heldur þjónuðu
sumir þeirra markmiðum viðskiptavaldsins
í formi fyrirtækjamenningar og neytenda-
þjónustu og þeim gildum sem grófu
undan gagnrýninni hugsun. Í öðrum
tilvikum hefði háskólasamfélagið dregið
sig inn í eigin skel, látið undan ofurvaldi
hugmyndafræði sem tók yfir flest
samfélagssvið. Þótt háskólinn hefði ekki
gefið frá sér sjálfræði eða sjálfstæði á öllum
sviðum hefði hann gefið frá sér tækifæri til
að setja fram önnur gildi.
Að dómi Irmu samrýmdist slík hegðun
eftirlitsþörfum markaðarins og því að líta
á hugmyndir sem afurðir og vöru. Ein
birtingarmynd þessa kerfis hefði verið
sú að háskólar hefðu boðið upp á stutt
„hagnýt námskeið“ sem hefðu ekkert með
raunverulegt háskólanám að gera. Þannig
hefði háskólasamfélagið gengist inn á
tæknilegar forsendur sem grófu undan
honum sjálfum. Annað dæmi væri áhersla
á árangursmælingar sem væru byggðar á
markaðshugmyndafræði og væru orðnar
ráðandi í matskerfum opinberra stofnana
og fyrirtækja. Á yfirborðinu mætti ætla
að þær tryggðu aðhald, skilvirkni og
hagkvæmni. En færa mætti rök fyrir
því að þær gætu spillt fyrir markmiðum
háskólastarfs; þær yrðu kostnaðarsamari,
hömluðu nýsköpun og drægju úr gæðum
rannsókna vegna þess að þær þjónuðu
tæknikratískum markmiðum. Þeim mun
meira sem andlegri vinnu væri stjórnað
af utanaðkomandi öflum, þeim mun
meira sem hún væri látin lúta reglum,
viðmiðunum og agavaldi annarra,
því veikari yrðu gildi, sjálfsmyndir og
áhrifamáttur háskólasamfélagsins.
Stjórnunarfræði stikkfrí
Njörður Sigurjónsson kennir menningar-
stjórnun við Háskólann á Bifröst.
Stjórnunarfræði fjalla um stjórnun
fyrirtækja, markaðsmál, auðlindir og
rekstur í víðu samhengi og á málþinginu
lagði Njörður upp með spurninguna hvort
slík fræði geti verið gagnrýnin. Nú þegar
íslenskt viðskiptalíf væri rústir einar
virtist blasa við að endurskoðunar og
gagnrýninnar umræðu væri þörf innan
stjórnunar- og viðskiptafræðanna. Hann
hefði hins vegar ekki orðið var við neinar
slíkar yfirlýsingar, málstofur, ráðstefnur
eða útgáfu þar sem spurt væri að því hvað
viðskiptafræðideildir geti gert betur. Þegar
hann sjálfur bryddaði upp á slíkri umræðu
vildu fáir innan fagsins taka þátt. Og ef
hann tjáði sig um það sem betur mætti
fara, fengi hann yfirleitt skömm í hattinn
hjá kollegum sínum sem virtust furðu
lítið viljugir til að spyrja hvort það væri í
grundvallaratriðum eitthvað að fræðunum.
Í hvert sinn sem hann léti í ljós þá skoðun
að einhvers konar endurskoðunar
væri þörf fengi hann yfir sig holskeflu
tölvupósta þar sem kvartað væri undan
þessari neikvæðni. Njörður sagðist því
hálffeginn því að engir viðskiptafræðingar
eða hagfræðingar væru í salnum á þessu
málþingi, en fjarvera þeirra varð fleirum
tilefni vangaveltna. Hvers vegna mætir
að mestu leyti hugvísindafólk á þetta
málþing, spurðu fyrirlesarar og fólk úr
salnum, en viðskiptafræðin og hagfræðin
telja sig stikkfrí?
Stjórnunarfræðin er almennt í alvarlegri
afneitun og ófær um að takast á við
vandann sjálf, ályktaði Njörður. Harðasta
gagnrýnin kemur utan frá, frá öðrum
greinum og almenningi, en vandinn er að
það er oft yfirborðskennd gagnrýni og í
formi sleggjudóma.
Njörður benti á að eitt lykilatriði í
krísustjórnun sé að leggjast ekki í vörn
og loka ekki augum fyrir staðreyndum.
„Er háskólafólk orðið að
kerfisþrælum? Er verið
að breyta háskólanum
í skrifræðis- og
stjórnsýslufyrirbæri,
beina honum í átt frá
vísindum og fræðum?“