Spássían - 2010, Blaðsíða 36
36
Bækurnar Aþena – hvað er málið með Haítí? og Þór – leyndarmál
guðanna eru afskaplega ólíkar. Önnur er kyrfilega staðsett í
íslenskum samtíma og fjallar um tólf ára íslenska hnátu en hin
gerist í ímyndaðri og fjarlægri fortíð og fjallar um unglinginn og
hálfguðinn Þór Óðinsson. Engu að síður eiga þessar bráðfyndnu
bækur margt sameiginlegt, ekki hvað síst að tilfinningar og
sambönd á milli fólks (og guða) eru alveg jafn flókin þá og nú, í
fantasíuheimi og raunheimi.
Í báðum tilvikum er um framhaldssögur að ræða en Margrét
Örnólfsdóttir kynnti Aþenu Ósk Gunnarsdóttur til sögunnar á
síðasti ári í bókinni Aþena – ekki höfuðborgin í Grikklandi og
fyrri bókin um Þór eftir Friðrik Erlingsson kom einnig út þá og
heitir Þór í heljargreipum. Báðar nutu mikilla vinsælda lesenda
og framhaldsbækurnar gefa þeim fyrri ekkert eftir. Margrét
Örnólfsdóttir fjallar af einlægni og virðingu um vandamál
nútímabarna og gerir úr þeim hæfilegt, og oft sprenghlægilegt,
hversdagsævintýri og Friðrik Erlingsson býr til spennandi
ævintýri úr gömlum sagnaarfi og heiðinni trú.
Aþena Ósk Gunnarsdóttir og Þór Óðinsson koma úr fremur
óhefðbundnum fjölskyldum. Aþena er barn fráskilinnar móður,
á stjúppabba og fjarlægan „alvöru“ pabba, lítinn hálfbróður,
ömmu sem stakk af til Ameríku fyrir löngu síðan en dúkkaði svo
skyndilega upp og móðursystur með glerauga. Ofan á þetta er von
á lítilli systur í heiminn – sem er alveg dásamlegt en tekur líka
svolítið á. Alveg eins og Aþena ólst Þór upp hjá einstæðri móður
en hann kynntist ekki föður sínum fyrr en hann var orðinn vel
stálpaður. Nú er móðirin látin og hann býr hjá pabba, sjálfum
Óðni, í Ásgarði ásamt hinum guðunum sem flestir eru skyldir
honum á einn eða annan hátt. Þrátt fyrir að Þór sé nokkur
hundruð árum eldri en Aþena eru þau á svipuðu þroskastigi,
enda eldast hálfguðir ekki eins og aðrir menn. Bæði taka þau út
mikinn þroska í bókunum, lenda í átökum við vini og óvini og
kynnast fyrstu ástinni.
Þór á sér þá ósk heitasta að vera að fullu vígður inn í goðheima
og hamast dag og nótt við að sinna skyldum sínum við guði
og menn svo faðir hans gefi honum hinn gullna armbaug. Þór
nýtur aðdáunar mannanna en gömlu guðirnir eru afbrýðisamir
vegna vinsælda þessa hálfguðs og reyna þess vegna að losa sig
við hann. Loki Laufeyjarson kemur við sögu og fyrr en varir er
allt í uppnámi. Þór þarf að taka á öllu sínu til að kljást við óvini
sína – og bjarga bæði goðheimum og mannheimum - en erfiðast
reynist honum að takast á við sjálfan sig, læra að hafa hemil á
sér og viðurkenna að það er ekki allt fengið með því að beita
vöðvaafli. Í grunninn er mikilvægasta lexían í bókinni sú að gera
sér grein fyrir tengslum orsakar og afleiðingar og er það eins
konar leiðarstef sögunnar.
Aþena þarf að ekki að kljást við öskureiða guði eða ill öfl og
hvað þá að hún þurfi að afstýra heimsendi. Það tekur nú samt á
að vera tólf ára stelpa á Íslandi því ofan á það að þurfa endilega
að eldast og hætta að verða krakki bætist ofurólétta móðurinnar,
samband Aþenu við stjúpföður sinn og móður hans að ógleymdri
ömmu Rósí í Ameríku. Ekki skánar ástandið þegar nýi strákurinn
í bekknum laumst til að kyssa bestu vinkonu Aþenu og stelur að
auki besta vini hennar – sem hún er í laumi dauðskotin í. Þetta
orsakar vinslit og vesen en það er bót í máli að Aþena gerist
vinkona annarrar stúlku, Sveinbjargar, sem hefur verið utangarðs
í bekknum og þegar allt er fallið í ljúfa löð er Sveinbjörg orðin
hluti af vinahópnum. Alveg eins og Þór þarf Aþena fyrst og fremst
að takast á við sjálfa sig og læra að virða tilfinningar annarra og
hugsa áður en hún framkvæmir.
Það er oft talað um að krakkar í dag lesi sífellt minna, enda
næga aðra afþreyingu að hafa. Sérstaklega hefur verið rætt um
þetta „hættulega“ skeið þegar krakkar eru ekki lengur börn en
ekki heldur unglingar. Þá höfða barnabækurnar ekki til þeirra
(þau viðurkenna það að minnsta kosti ekki) og unglingabækurnar
oft ekki heldur og þá hætta þau mörg, einkum strákar, að lesa
og byrja kannski aldrei á því aftur. Aþena – hvað er málið með
Haítí? og Þór – leyndarmál guðanna eru tilvaldar bækur fyrir
yngri börn sem eru byrjuð að lesa, unglinga og þá krakka sem
telja sig vaxna upp úr barnabókunum en eru ekki tilbúnir fyrir
unglingabækurnar.
Helga Birgisdóttir
Hvað er málið
Margrét Örnólfsdóttir.
Aþena – hvað er málið með Haítí? Bjartur. 2010.
Friðrik Erlingsson.
Þór – leyndarmál guðanna. Veröld. 2010.
menn og guði?með
samruni