Spássían - 2010, Blaðsíða 50
50
Jónína Leósdóttir. Allt fínt ... en þú. Forlagið. 2010.
Bókin segir frá þýðandanum og fjölskyldukonunni Nínu. Hún er að nálgast
fertugt og stendur í ströngu. Auk þess að hugsa um vinnu þarf hún að tjónka
við erfiða tvítuga dóttur, sjálfhverfa systur og eiginmann sem varð uppvís að
framhjáhaldi. Við það bætast áhyggjur yfir sjö ára dóttur með Downs-heilkenni
og fjárhagnum. Móðir hennar dó tveimur mánuðum áður og þegar faðir hennar
tilkynnir að hann sé kominn með kærustu er mælirinn fullur.
Nína er konan sem ætlar sér of mikið. Hún gerir sér grein fyrir því en gerir
það samt. Vaninn er of sterkur. Það er togað í hana úr öllum áttum og hún á
sér þá ósk heitasta að einhvern tímann muni verða tekið tillit til hennar þarfa.
Hún gerist þó aldrei svo djörf að viðra þær og því heldur vítahringurinn áfram
þar til eitthvað brestur. Fyrir ofvirkar ofurkonur, jámanneskjur og vinnufíkla er
þetta nánast eins og sjálfshjálparbók; leið til geðhreinsunar. Já og fyrir alla þá
sem vorkenna sér heil ósköp. Það er erfitt að vera ekki metinn að verðleikum
og enn erfiðara þegar eigin hæverska og hik kemur í veg fyrir að maður
hampi sér smá. Fólk hefur því miður ofur skiljanlega tilhneigingu til að vera
sjálfhverft. Eftir því sem minna tillit er tekið til Nínu magnast ósérhlífni hennar
.
Bókin er mjög raunsæ og áföllin sem dynja á aðalpersónunni ósköp
hversdagsleg og mörgum kunnugleg. Aldrei er einfalda lausn að finna á
vandamálum, enda gjarnan flókin og marghliða. Sagan spannar hálft ár í tíma
og skiptist upp í kafla eftir mánuðum, þótt ekki sé föst regla á því. Jónína
tekur sér góðan tíma í að segja frá lífi Nínu og hvernig hún aðlagast smám
saman hugmyndinni um kærustu föður síns. Fyrri hluta bókarinnar gerist
því afskaplega lítið annað en það að Nína sveiflast til og frá af skyldurækni og
hollustu milli mismunandi fjölskyldumeðlima. Þessi sjálfspíning verður frekar
þreytandi þegar á líður og þarf lesandinn á talsverðri þolinmæði að halda til að
komast í gegnum fyrstu 200 blaðsíðurnar. En í seinni hlutanum reynist Jónína
hafa lagt góðan grunn að persónusköpuninni því þegar skellurinn kemur
(og það er ljóst frá fyrstu síðu að hann er á leiðinni) reynist hann afskaplega
raunverulegur og sár. Alls kyns óuppgerðar tilfinningar varðandi andlát móður
Nínu koma upp á yfirborðið og það er harðbrjósta manneskja sem finnur ekki
sting í hjarta við lesturinn. Við lok bókar rofar til og ýmsar flækjur virðast ætla
að leysast. En fólkið sem þarf að kljást við þær er flókið og þrátt fyrir góða
viðleitni hafa hlutir tilhneigingu til að leita í kunnugleg för. Lesandi vonar að
Nína hafi lært eitthvað af reynslu sinni en veit líka að þroski tekur langan tíma
og meiri sjálfsmeðvitund en flestir einstaklingar búa yfir.
Yrsa Þöll Gylfadóttir. Tregðulögmálið. Sögur. 2010.
Í Tregðulögmálinu er beitt svipuðu formi og í Allt fínt... en þú? Sagan skiptist í
fjóra kafla og hefst á september en lýkur á desember. Hún er tiltölulega stutt,
189 blaðsíður, og gerist að mestu leyti í huga 23 ára bókmenntafræðinemans
Úlfhildar sem er að reyna að átta sig á stöðu sinni, skoðunum og umhverfi.
Söguþráðurinn er ofur einfaldur: Úlfhildur á í fræðilegri tilvistarkreppu. Hún
er að ljúka BA-námi og gengur illa að tjasla saman lokaritgerðinni. Þess í stað
kryfur hún allt og alla í kringum sig. Foreldrana sér hún í uppgjöf; þau höfðu
áður verið róttæk en eru nú orðin settleg. Kærastinn er sinnulaus níhilisti,
íslenska þjóðin að drukkna í smáborgarahætti o.s.fr.v. Enginn er hafinn yfir
gagnrýni og greiningu og textinn fær oft á sig predikunarblæ þar sem Úlfhildur
telur sig greinilega vita betur en flestir hvernig er í pottinn búið. Þorri
sögunnar á sér stað í hugarheimi hennar þar sem hún vegur og metur það fólk
og þær aðstæður sem verða á vegi hennar.
Persónur bókarinnar, og sér í lagi aðalpersónan, taka bókmenntafræði
afskaplega alvarlega, jafnvel hátíðlega. Langar umræður spinnast um
bókmenntir og menningu, óskir og væntingar til þeirra Þessar vangaveltur
eru alltar mjög vel unnar og röksemdafærslurnar sterkar. Þó örlar á því að
persónurnar séu jafn frústreraðar og lesandinn yfir einhæfum rökræðunum.
Fyrrum og núverandi bókmenntafræðinemar kannast óþægilega við slíkar
samræður og þær geta verið óskaplega þreytandi. Samband Úlfhildar við
kærastann Binna er hinn rauði þráður sögunnar. Smám saman kemur í ljós
hversu stór áhrifavaldur hann hefur verið í lífi hennar og að hann hefur
næstum því mótað skoðanir hennar og viðhorf. Þegar sagan hefst hafa þau
verið saman í mörg ár, frá því hún var í menntaskóla. Þessi skilgreiningarárátta
verður því skiljanleg í ljósi þess Úlfhildur er loksins að átta sig á að þau fræði
og sjónarmið sem hún hefur næstum verið mötuð á samræmast ekki hennar
eigin sýn og hennar eigin gildum.
Tregðulögmálið er fyrsta skáldsaga Yrsu Þallar og er ágætlega skrifuð. Hún
gengur best upp í seinni hlutanum, þegar Úlfhildur fær að vera mannleg í smá
stund og hættir að reyna að finna öllu í kringum sig skilgreinanlegan stað. Lífið
má stundum vera flókið, jafnvel óskiljanlegt. Sérstaklega í skáldskap.
Ásta Gísladóttir
N
ín
a
o
g
Ú
lfh
ild
u
r
N
ú
tím
a
st
ú
lk
u
rn
a
r