Spássían - 2010, Blaðsíða 45
45
Það er milt og fallegt veður þegar ég hefst handa við að koma
reiðu á þær hugsanir sem lestur Sýrópsmánans vakti hjá
mér. Ég hef lesið bókina tvisvar og blaða nú í henni í leit að
minnisstæðum setningum og ljóðrænum línum, svo sannarlega
nóg af þeim. Eftir nokkra mínútna flakk um söguna verður mér
litið út um gluggann og það fer um mig hrollur. Ég sé ekki í næstu
hús. Þétt þoka hefur lagst yfir allt og ég velti því fyrir mér hvort
skáldskapur geti breytt veðri?
Eirík Guðmundsson þekkja hlustendur Rásar eitt sem einn
af stjórnendum menningarþáttarins Víðsjá. Pistlar hans eru oft
skemmtilegir og kraftmiklir og sýn Eiríks á íslenskt samfélag
áhugaverð. Meðfram útvarpinu hefur Eiríkur sinnt ritstörfum.
Áður hefur hann sent frá sér skáldsöguna Undir himninum (2006)
og skáldsagnakennda greinarsafnið 39 þrep á leið til glötunar
(2004), og nú kemur skáldsaga númer tvö, Sýrópsmáninn. Öll
þessi verk hefur forlagið Bjartur sent frá sér, og er sómi að; þessar
bækur er kannski erfitt að selja, því miður, en þær eru í leiðinni
mun líklegri til að gleðja. Fyrri bókum Eiríks var vel tekið af
gagnrýnendum. Undir himninum hlaut sérstaklega mikið lof og
var vel að því komin. Hún ber kímni- og stílgáfu höfundar fagurt
vitni. Því má ætla að einhverjir hafi beðið næstu bókar Eiríks með
eftirvæntingu.
Í Sýrópsmánanum greinir nafnlaus, karlkyns sögumaður frá
brotum úr æsku sinni, afa sínum með fullt skott af ljóðum og
vafasama félaga sínum Alfreð. Hann rifjar upp fyrstu mánuðina
í sambandinu við sambýliskonu sína, sem er kölluð L., og segir
frá vinnu sinni fyrir Vísindavefinn. Svo leggst þoka yfir landið,
þoka sem virðist í raun alltaf hafa sveimað yfir lífi hins iðjulausa
sögumanns sem sækir frekar í bækur en fólk. Þetta reynist vera
gjörningaþoka sem gleypir í sig hótel, fjöll, hesta, kirkjugarða,
bæjarstjórann í Stykkishólmi og margt fleira. Sýrópsmáninn
er samtímasaga, þó vísanir í ytri veruleika séu ekki jafn
fyrirferðarmiklar og í Undir himninum. Vísanirnar eru lúmskar
og hnyttnar: „Byggingarkranarnir rjúka upp úr jörðinni eins og
stúdentar í skólastofu með svör á reiðum höndum,“ (56) og við
Reykjavíkurhöfn byggja Kínverjar risastóra spiladós. Myrkrið í
frásögninni kallast líka á við myrkrið í íslensku samfélagi síðustu
tvö ár, samfélagi sem virðist reika um í þoku. Í sögu Eiríks hættir
fólk að þora út úr húsi og loks flýja sögumaðurinn og kona hans í
sumarfrí til Ítalíu. Sá hluti sem gerist á Ítalíu myndar samfelldari
heild en Íslandshluti frásagnarinnar, sem er sífellt brotinn upp af
sögumanni sem játar að sjálfur sé hann vafasöm heimild.
Það sem gerir lesturinn sérstaklega áhugaverðan er stílfimi
Eiríks. Þetta er hugmyndaríkur og tilþrifamikill stíll með
óvæntum líkingum og tengingum sem geta í senn verið ljóðrænar
og fyndnar: „Kamilla vann í fatahreinsun úti á Granda [...] Alfreð
sagði að hún hreinsaði allan fjandann. Hann sagðist einu sinni
hafa farið til hennar með eitthvað sem Ríkharður þriðji sagði og
hún hreinsaði það.“ (25) Fyndni Eiríks laumar sér inn á ýmsum
stöðum í frásögninni, þó undirtónninn sé heilt yfir alvarlegri en
í Undir himninum. Sérstaklega fyndinn er t.d. kaflinn „Kvæði
10,“ en þar hugleiða sögumaðurinn og Alfreð að ræna Kristjáni
Karlssyni skáldi, loka hann inni og láta hann skrifa og þýða.
Sérstakt einkenni á fyrsta hluta bókarinnar eru örstuttir kaflar
sem má lesa eins og sjálfstæð prósaljóð. Eftirfarandi kafli,
„Baunadeildin,“ er ágætt dæmi:
Þegar L. fer til vinnu er hún með sama svip og
strætisvagnabílstjórar skömmu áður en þeir setja upp
kaskeitið. Hún vinnur við það að bjarga fyrirburum, við
hliðina á þeirri fegurð sogast úr mér allur máttur, eins
og ég sé nýbúinn að gefa of mikið blóð eða hafi staðið
heiðursvörð fyrir utan Vetrarhöllina í Pétursborg í
margar vikur samfleytt. Þetta er leiðarkerfi lífs og dauða
og hún er óttalaus vegna þess að hún þekkir leiðina.
Ekkert mun koma henni á óvart. (51)
Þetta finnst mér ganga mjög vel upp hjá Eiríki og víst að
lesandinn getur blaðað í þessum hluta bókarinnar aftur og
aftur.
Texti Eiríks er fullur af vísunum í allar áttir og aftast í
bókinni er einhvers konar heimildaskrá, sem er reyndar mjög
takmörkuð (hefði t.d. verið lítið mál að taka fram að þýðing
Jóhanns Hjálmarssonar á ljóði Jaroslavs Seifert er fengin úr
Í skolti Levíatans). Það má deila um hvort þessar fjölmörgu
tengingar við texta annarra geri sögunni alltaf greiða, en
þó er ljóst að lesandinn þarf ekki að vera sérstaklega vel að
sér í heimsbókmenntum, eða þekkja rússneska ljóðlist 20.
aldar eins og handarbakið á sér, til að njóta Sýrópsmánans.
Lesandinn þarf eingöngu að vera reiðubúinn til að takast á
við skáldskap sem krefst þátttöku í stað áhorfs, skáldskap
sem afhjúpar ekki fyrir lesanda sínum sannleik lífsins á
síðustu blaðsíðu.
Kærði ég mig um að fletta upp í klisjuhandbókinni, segði
ég þetta vera bók fyrir alla sem unna góðum skáldskap. En
Sýrópsmáninn hefur sig yfir allar klisjur, því hann er í senn
ferskur og fyndinn, sætur og sorglegur, ljóðrænn og lifandi,
og áður en maður veit af er komin þoka.
Dagur Hjartarson
Bankastræti 11, 101 Reykjavik. s: 5517151 www.gust.is
Getur skáldskapur
breytt veðri?
Eiríkur Guðmundsson. Sýrópsmáninn. Bjartur. 2010.