Spássían - 2010, Blaðsíða 20
20
Glæpir og fantasía
Í bókaseríunni um bókmenntarannsóknarkonuna Thursday Next flakkar
breski rithöfundurinn Jasper Fforde milli raunheims og bókaheims
þar sem söguhetja hans glímir við alls kyns glæpamál sem tengjast
bókmenntum, oft heimsbókmenntum, á einn eða annan hátt.
Fimm bækur um Thursday Next hafa
komið út og er sú sjötta á leiðinni:
The Eyre Affair (2001)
Lost in a good book (2002)
The Well of Lost Plots (2003)
Something Rotten (2004)
First Among Sequels (2007)
One of our Thursdays is missing (2011)
Í nýjustu bókaseríu sinni
segir Fforde skilið við
bókmenntaarfinn og
kannar heim litanna á
sinn súrrealíska hátt.
Fyrsta bókin kom út í
fyrra en von er á fleirum.
Jasper Fforde gaf út sína fyrstu skáldsögu
fyrir tíu árum, The Eyre Affair, og er nú
einn vinsælasti fantasíuhöfundur heims.
Á þeim tíma hefur hann gefið út átta
skáldsögur, en fimm þeirra segja frá
bókmenntarannsóknarkonunni Thursday
Next og ævintýrum hennar. Sögusviðið er
England níunda áratugarins og Thursday
er fyrrum stríðshetja með erfiða fortíð og
hættulega stórglæpamenn á eftir sér.
Heimurinn er ansi líkur okkar en allt er
þó aðeins á skjön. Erfðafræðitilraunir og
tímaferðalög teljast daglegt brauð og allir
eiga dódófugla sem gæludýr. Bretland heyir
enn blóðugt stríð við Rússland um yfirráð
yfir Krímskaga og hvert einasta mannsbarn
þekkir klassísku bókmenntirnar eins og
við Harry Potter bækurnar. Vampírismi er
vel þekktur og hvimleiður sjúkdómur og
áhrif kirkjunnar í senn mikil og engin þar
sem hún hefur splundrast í svo margar
einingar að nauðsyn er á að sameina þær
allar undir formerkjum CGSD (The Church
of Global Standard Deity). Rithöfundarnir
eru hins vegar að mestu leyti þeir sömu og
í okkar heimi (á það sérstaklega við um þá
klassísku) og víst er að þetta er heimur þar
sem skáldverkið ræður lögum og ríkjum.
Allir þekkja klassísku bókmenntasöguna
eins og hverja aðra dægurmenningu. Í
stað þess að fara á Rocky Horror sækir
fólk sýningar á Ríkarði þriðja þar sem
áhorfendur taka að sér hlutverk og snúa
út úr textanum. Og í stað skóútsala koma
bókaútsölur af stað kaupæði.
Þessi mikli bókmenntaáhugi nær inn í
öll skúmaskot samfélagsins, ekki síst þau
myrkustu þar sem glæpatíðni í kringum
útgáfustarfsemi grasserar. Það þykir
því nauðsynlegt að halda uppi deild
sérstakrar bókmenntalögreglu. Fyrir
utan bókmenntafalsanir þarf Thursday
Next að kljást við svartamarkaðsbrask
með farsæl sögulok, óeirðir súrrealista og
einstaka týnda sögupersónu. Og það er
ekkert miðað við vandræðin sem skapast
innan bókaheimsins sjálfs sem hún fær
að kynnast af eigin raun. Bókmenntaverk
eiga sér nefnilega sjálfstætt líf handan
hugarheims höfundar og lesenda. Þetta
líf er þó ekki sjálfsprottið og flókið kerfi
er til staðar til að halda kjarna sögunnar
gangandi. Aðeins örfáir einstaklingar búa
yfir þeim hæfileika að komast inn í heim
skáldsagnanna en sá hæfileiki er afar
hentugur þegar sögupersónur taka upp á
því að valda vandræðum í raunheiminum.
Bókaheimurinn er nokkurs konar
hliðstæður heimur og lýtur sínum eigin
lögmálum. Okkar heimur kemur íbúum
hans jafn spánskt fyrir sjónir og þeirra
heimur gestum bókaheims. Þar eru til að
mynda ekki til tungubrjótar, klósettferðir
eru næstum óþekktar og safaríkar sagnir
og óvænt endalok ganga kaupum og sölum
á svarta markaðnum.