Spássían - 2010, Blaðsíða 43

Spássían - 2010, Blaðsíða 43
43 samtímaljóðlist, gefur m.a. út Perec – og þýdd af Leandoer, sem er mikill sendiherra franskra bókmennta í sænskum bókmenntaheimi. Ég reikna því með að Tarkos sé ekki bara gott skáld heldur líka frægur. Á baksíðu bókarinnar segir að hann sé unga séníið í nýjustu bylgju franskrar ljóðlistar. Nýjustu dillu franskrar ljóðlistar. Þýðandinn er kallaður Tarkosfræðingur. Svona einsog Peter Hallberg er Laxnessfræðingur. Og Helga Kress. Og Halldór Guðmundsson. Og Hannes Hólmsteinn (ha ha ha!). Ég hallast helst að því að hann sé heimsfrægur, þessi Tarkos. Hann býr kannski á Rívíerunni, umkringdur fáklæddum meyjum og Nóbelsverðlaunastyttum, með skítnóg af peningum – fjaðurpenna á hverjum fingri og dularfulla fortíð sem enginn kann almennilega skil á (nema kannski allra hörðustu Tarkosfræðingar). En svo sló ég hann inn í Gegni – leitarvél bókasafnanna – og sá að hann er alls ekki neitt frægur. ‘Tarkos’ gefur engar niðurstöður. Ég hlýt að hafa verið að meina eitthvað annað. V Ekki segja að þú skiljir tilfinningar mínar. Ekki segja að þú skiljir hvernig mér líður. Svaraðu mér bara. Hvar er prívatið? Hvar finnur maður prívatið á þessum stað? (Anton, 55) Ef ég á að leitast við að setja blett á hið forngríska samband okkar Antons Helga mun ég segja að mér finnist titillinn – Ljóð á ættarmóti – ekki lokkandi heldur lokandi. Á bakkápu stendur síðan, til þess að undirstrika þessa tilteknu, afmörkuðu túlkun enn fremur: „Í ljóðabók Antons Helga Jónssonar heyrum við raddir fólks á ættarmóti“. Ég sé enga sérstaka ástæðu til þess að útskýra raddakraðakið með leiksviði ættarmótsins. Þessi fjölradda bók hefði verið stjarnfræðilegri – meira þeytivindandi – ef manni væri ekki skipað að ímynda sér að öll orðin í henni væru mælt af vörum fólks með hátíðarveigar í munnholinu, eða að þau væru mælt upphátt yfir höfuð. Í heimi þar sem fyrstu persónu textum er steypt saman í kraðak á hverju horni – á Facebook og Twitter, blogginu og aðsendum greinum, kaffihúsum og vergangi, einræðum og muldri – er engin þörf fyrir þennan ramma. Það hefði verið ágætt að vera án hans. Ágætt að fá að leika lausum hala í bókinni. Ég er að hugsa um að rífa bara kápuna af eintakinu mínu. Þið getið svo fengið það lánað ef ykkur langar að leika. VI rödd 1: æ mér er illt rödd tvö: hún þjáist resitatíf: sársaukinn kom yfir hana og fer ekki neitt (Tarkos, 45) Ég greiði mér inniheldur brot úr sex útgefnum ljóðabókum, auk fáeinna nýrri ljóða. Í ljóðinu „Hið illa“ úr bókinni Búrið (Buren/La Cage) er sett á svið leikrit án sviðsmyndar. Þar skiptast á rödd 1, rödd 2 og resitatíf („sönglestur“). Raddirnar tala um sársaukann, hið illa, en ræðast ekki beinlínis við. Tala í kross, skiptast á, í sama þema – en ná aldrei kontakt, þreifingu, höggi hver á aðra – einsog fimir nútímadansarar sem fara í heljarstökkum hver yfir annan án þess að snertast. Þetta speglandi tengslaleysi einkennir líka bók Antons Helga. Bækurnar bergmála og þýðast sjálfar sig – skyldar einræður hrannast upp – við stöndum hvert með nefið ofan í annars koppi og lýsum yfir einmanaleika okkar og tilgangsleysi í þeirri von að einhver skilji okkur. En okkur mætir ekkert nema sjálfsvorkunn annarra. Það hefur enginn tíma til þess að faðma okkur. Veit þetta fólk ekki að okkur líður illa og við megum ekki vera að því að sinna vælinu í þeim? Ekki núna. Kannski seinna. Þegar okkur líður betur. Þegar við höfum náð okkur af angistinni. Dauðaþránni. VII Ég lifi vegna þess að mér finnst þægilegt að lifa. Ég veit hvers vegna ég lifi. Ég lifi vegna þess að ég hef gaman af því. Ég hef nú uppgötvað að það er þægilegt að lifa, að því fylgir ákveðin nautn. Ef ég er á lífi er það vegna þess að mér finnst þægilegt að lifa, vegna þess að ég hef ákveðið að lifa. (Tarkos, 30) Í eftirmála Ég greiði mér stendur: „Fyrir Tarkos er ljóðlistin allt. Hann lifir fyrir ljóðlistina og af ljóðlistinni.“ Vinur minn gúgglaði honum (þrátt fyrir að ég hefði stranglega bannað honum að gera það) og sagði mér síðan að hann væri dáinn. Hann hefði dáið árið 2004. Fjórum árum eftir að bókin Ég greiði mér kom út í Svíþjóð. Fyrir sex árum. Unga séníið. Fyrsta bók Tarkos kom út árið 1995, fjórum árum eftir að Ljóðaþýðingar úr belgísku Antons Helga kom út. Tarkos gaf út tólf bækur; þá síðustu árið 2003. Þremur árum áður en limrusafn Antons Hálfgerðir englar og allur fjandinn kom út. Áður en Tarkos var til, var Anton til. Á meðan Tarkos var til, var Anton ekki til. Nú er Tarkos ekki lengur til, en Anton er aftur til. Textar Christophes Tarkos eru þýddir úr sænskri þýðingu Kristoffers Leandoers af greinarhöfundi. Eiríkur Örn Norðdahl 1 „Og margsinnis skalf hjartað af hamingju ...“ Jón Kalman Stefánsson um ljóðabók Hannesar Péturssonar, Fyrir kvölddyrum, í Lesbók Morgunblaðsins 9. desember, 2006. Sú bók fjallar reyndar líka um að bíða dauðans. „Hannes er kominn á áttræðisaldurinn og yrkir um haustið í blóði sínu, að kvölddyrnar muni senn ljúkast upp; bregða fer birtu og turnklukka hringir inn síðdegið“, segir Jón ennfremur.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Spássían

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.