Tímarit lögfræðinga - 01.06.2005, Qupperneq 59
að minnsta kosti meirihluta Alþingis til þess að geta setið í ráðherrastóli. Eina
raunhæfa „refsitegundin“ sem fylgir hinni pólitísku ábyrgð er að ráðherra láti af
störfum. Hin tegund ráðherraábyrgðar, og sú sem rætt er um hér, er hin lagalega
ábyrgð, þ.e. refsi- og eftir atvikum bótaábyrgð ráðherra, sem mælt er fyrir um í
lögum nr. 4/1963 um ráðherraábyrgð.118
4.3 Almennt um lög nr. 4/1963 um ráðherraábyrgð
Lög nr. 4/1963 um ráðherraábyrgð geyma efnisreglur um skilyrði fyrir refsi-
ábyrgð ráðherra vegna tiltekinna brota í embætti. Einnig er í 13. gr. rbl. mælt
fyrir um réttarfarshagræði varðandi greiðslu skaðabóta í tilefni af refsiverðri
háttsemi ráðherra en þar segir að skaðabótaskylda ráðherra fari eftir almennum
reglum. Hafa verður í huga að efnisreglur rbl. beinast að ráðherra sem einstak-
lingi en ekki sem stofnun og verður því að gæta allra þeirra stjórnarskrárbundnu
mannréttindareglna við túlkun og beitingu almennra laga sem tryggja réttar-
stöðu manna sem sakaðir eru um refsiverða háttsemi. Ráðherra tapar ekki
mannréttindum sínum þegar hann tekur við ráðherrastóli.
Orðalag 2. málsl. 14. gr. stjórnarskrárinnar er með þeim hætti að löggjaf-
anum er skylt að setja reglur um ráðherraábyrgð. Stjórnarskrárgjafinn hefur
með ákvæðinu tekið af skarið með það að ráðherra skuli sæta lagalegri ábyrgð
enda þótt athafnir hans kunni einnig að hafa í för með sér hina þinglegu ábyrgð
sem að framan var nefnd.119
Samkvæmt 2. málsl. 14. gr. stjórnarskrárinnar er ráðherraábyrgð ákveðin
með lögum og verður að skýra þetta ákvæði m.a. með hliðsjón af öðrum
ákvæðum stjórnarskrárinnar sem hafa þýðingu þegar löggjafinn setur refsi-
ákvæði. Fyrir utan það að hugtakið lög í 14. gr. stjórnarskrárinnar kunni að
girða fyrir þann möguleika að löggjafinn framselji framkvæmdavaldinu, þ.e.
ráðherra, vald til þess að ákvarða efni og inntak ráðherraábyrgðar,120 leiðir það
af samræmisskýringu þessa ákvæðis og 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar að
meginafmörkun efnisreglna um ráðherrábyrgð verður að vera í settum lögum
118 Sjá nánar Ólafur Jóhannesson: Stjórnskipun Íslands, bls. 162.
119 Um rökin að baki þessari stefnu, sjá eftirfarandi athugasemdir úr greinargerð með frumvarpi
því er varð að lögum nr. 4/1963, sbr. Alþt. 1962, A-deild, bls. 167: „Þinglega ábyrgðin veitir ráð-
herra vissulega mikið aðhald, og samkvæmt þingræðisreglunni getur Alþingi eða meiri hluti þess
hvenær sem er, losað sig við misvitran ráðherra. Lagalegu ábyrgðinni má þó aldrei sleppa. Að sjálf-
sögðu er ekki ástæða til, að aðrar reglur gildi um embættisbrot ráðherra heldur en um samkynja brot
annarra embættis- og sýslunarmanna. Meginstefna hlýtur að vera sú, að um sambærileg brot gildi
sömu reglur, hver sem í hlut á. En staða ráðherra er svo sérstæð, að þeir geta orðið sekir um það
misferli í starfi, sem vart eða ekki er hugsanlegt hjá öðrum opinberum starfsmönnum. Hinar sér-
stöku embættisskyldur ráðherra hafa naumast verið hafðar í huga við samningu almennra hegning-
arlaga“.
120 Um takmörk framsals lagasetningarvalds á sviði refsiréttar sjá Jónatan Þórmundsson: Afbrot
og refsiábyrgð I, bls. 187-191 og Róbert R. Spanó: „Stjórnarskráin og refsiábyrgð“ (fyrri hluti),
kafli 7.
59