Tímarit lögfræðinga - 01.12.2006, Síða 105
448
anda á hendur stefnda er ekki um efndir kaupskyldu samkvæmt samkomulaginu
heldur um bætur vegna vanefnda. Þar sem ekki er í samkomulaginu með skýrum
hætti gert ráð fyrir slíku vanefndaúrræði verður að fallast á með héraðsdómara
að ekki sé unnt að skilja samkomulagið á þá leið, að hæstbjóðandi yrði bóta-
skyldur ef hann af einhverjum ástæðum stæði ekki við boð sitt. Að þessu athug-
uðu og með vísan til héraðsdóms að öðru leyti verður hann staðfestur um annað
en málskostnað.
Í hinum tilvitnuðu orðum felst, að rétturinn lítur ekki svo á, að með gerð
samkomulagsins 13. júní 2005, sem sannarlega felur í sér tilboð um kaup á
hluta í fasteign fyrir tiltekið verð og er samþykkt með skuldbindingu um
afhendingu, allt með þeim formlega hætti, sem tilskilið er í 7. gr. fkpl., hafi
aðiljarnir óhjákvæmilega undirgengizt þær skyldur og öðlast þau réttindi,
sem fkpl. mæla fyrir um. Rétturinn nálgast viðfangsefnið þannig, að aðilj-
arnir hafi þurft að semja um tilgreind vanefndaúrræði. Hér er talið að þessi
nálgun fái ekki staðizt og fari í bága við þær grundvallarreglur í samninga-
rétti um túlkun, sem lýst er að framan. Þá skal áréttað, að vandséð er, hvaða
þýðingu orðin: ,,Krafa áfrýjanda á hendur stefnda er ekki um efndir kaup-
skyldu samkvæmt samkomulaginu heldur um bætur vegna vanefnda.“ hafa
miðað við rökstuðning Hæstaréttar að öðru leyti.
Hér er fallizt á meginatriðin í rökstuðningi í sératkvæði eins dómenda,
þar sem segir um samkomulagið:
Orðalagið er skýrt og ekkert er fram komið varðandi atvik við samningsgerðina
eða orðalag samkomulagsins að öðru leyti, sem leitt getur til þess að stefndi sé
ekki skuldbundinn í samræmi við tilboð sitt. Samkvæmt því tel ég að taka beri
kröfu áfrýjanda til greina og dæma stefnda til að greiða honum málskostnað á
báðum dómstigum.
6.3 Batt málatilbúnaður J hendur dómstóla?
Það er vandasamt að gagnrýna niðurstöður dómstóla í einstökum mál-
um og rökstuðning fyrir þeim, þar sem dómari er bundinn af málatilbúnaði
aðilja. Í 2. mgr. 111. gr. eml. segir svo:
Dómari má ekki byggja niðurstöðu sína á málsástæðu eða mótmælum sem hefðu
átt að koma fram en gerðu það ekki við meðferð máls.
Málsástæða er staðhæfing málsaðilja um atvik eða staðreyndir, sem hann
telur að eigi eftir réttarreglum að leiða til þess, að kröfur hans verði teknar
til greina.18 Málsástæða hefur einnig verið skilgreind með nokkuð þrengri
hætti, þ.e., að það séu málsatvik, sem kröfur séu reistar á.19 Aðalatriðið er, að
málsaðilinn þarf að hafa tilgreint málsatvikin og hann þarf að reisa mála-
18 Markús Sigurbjörnsson: Einkamálaréttarfar, bls. 22.
19 Þór Vilhjálmsson: Réttarfar I, bls. 25.