Bændablaðið - 12.01.2023, Blaðsíða 22
22 Bændablaðið | Fimmtudagur 12. janúar 2023
UTAN ÚR HEIMI
Sjálfbær þróun:
Matvælakerfi og markaðssetning hluti af virðisauka
– Um innleiðingu nýrrar landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins
Stefán Gíslason, stofnandi og
eigandi umhverfisráðgjafar Íslands,
Environice, fagnar þessum skrefum
og bendir á að stjórnvöld hér á landi
mættu vinna markvissara að því að
beina bændum í sjálfbærari áttir.
Í samræmi við skuldbindinguna
er evrópski græni samningurinn
(European Green Deal) settur á
stefnuskrá. Samningurinn miðar að
því að breyta Evrópusambandinu
í sanngjarnt velmegunarsamfélag
með nútímalegu, auðlindanýttu og
samkeppnishæfu hagkerfi. Í því
felst meðal annars skuldbinding
um loftslagshlutleysi fyrir árið 2050,
þar með talið lækkun losunar um að
minnsta kosti 55% fyrir árið 2030.
Til að ná þessum markmiðum
þurfa meðal annars aðilar í
landbúnaði að hafa sjálfbærni og
samfélagsábyrgð að leiðarljósi.
Sjálfbærnisamningar í
matvælavirðiskeðjunni
Framkvæmdastjórn Evrópusam-
bandsins tilkynnti á dögunum
aðgerðir á öllum stefnusviðum,
þar á meðal landbúnaðar og
byggðaþróunar. Í svonefndri
Farm to Fork-stefnu eru meðal
annars markmið um að stuðla
að umskiptum yfir í sjálfbær
matvælakerfi en í henni eru lagðar
fram grundvallaraðgerðir til að
minnka notkun á skordýraeitri ásamt
sýklalyfjanotkun, bæta dýravelferð
og auka líffræðilegan fjölbreytileika,
ásamt því að auka lífræna ræktun.
Hin nýja sameiginlega land-
búnaðarstefna (CAP) fyrir tímabilið
2023-2027 styður viðleitni til að
auka sjálfbærni í framleiðslu og
framboði landbúnaðarafurða með
breyttu stuðningsfyrirkomulagi
og markaðsreglum. Í land-
búnaðarstefnunni er einnig
að finna undanþágur gegn
samkeppnishamlandi samningum.
Undanþágan heimilar, með vissum
skilyrðum, sjálfbærnisamninga
sem gerðir eru á milli
frumframleiðenda og annarra aðila
í matvælavirðiskeðjunni .
Samningarnir miða að því að ná
meiri sjálfbærni með stöðlum sem
lúta að umhverfi, þar með talið að
draga úr loftslagsbreytingum, stuðla
að sjálfbærri notkun og verndun
landslags, vatns og jarðvegs, umskipti
yfir í hringrásarhagkerfi með minni
matarsóun, mengunarvörnum, ásamt
verndun og endurheimt líffræðilegrar
fjölbreytni. Einnig er hugað að
dýraheilbrigði og dýravelferð með
því að draga úr notkun varnarefna
og sýklalyfja við framleiðslu á
landbúnaðarafurðum.
Virðisauki, sýnileiki
og viðurkenning
Önnur umræða, þessu tengdu, fór
fram á viðskiptaþingi Evrópusamtaka
bænda, Copa Cogeca, síðla síðasta
hausts og haldið er annað hvert ár, sem
snýr að því hvernig samvinnufélög
leitast í átt til sjálfbærni með því
að miðla umhverfis-, félags- og
efnahagslegum þætti sinna félaga.
Slík samvinnufélög eru víða þekkt
í Evrópu sem sameign bænda og
framleiðenda um vernduð afurðaheiti
eins og fyrir parmaskinku, kampavín
og fetaost sem dæmi. Þá er
sameiginlegt fé nýtt í mörkun og
ímyndarsköpun. Auk þess vinna
samvinnufélögin að sameiginlegum
hagsmunum gegn þeim sem reyna að
blekkja neytendur með því að gera
eftirmyndir af vörum og selja sem
staðkvæmdarvörur.
Á viðskiptaþinginu, þar sem
saman komu stefnusérfræðingar og
fulltrúar landbúnaðarsamvinnufélaga
víðs vegar að úr Evrópu, var
sjónum beint að umhverfisþáttum
og samskiptum stjórna til sinna
félaga. Þar var meðal annars tekið
fyrir hvernig sjálfbær matvælakerfi
geta leitt til virðisauka fyrir
samvinnufélög í landbúnaði ásamt
mikilvægi markaðssetningar
og samskipta til að auka vitund
um framlag samvinnufélaga til
sjálfbærni um alla Evrópu.
Christian Høegh-Andersen,
umsjónarmaður viðskiptaþingsins
og varaforseti Copa Cogeca,
sagði eftirfarandi við upphaf
þingsins: „Okkur er ljóst að
landbúnaðarsamvinnufélög hafa
samkeppnisforskot á önnur með tilliti
til sjálfbærni. Þess vegna ættum við
að skoða hvaða leiðir eru bestar til
að tryggja að neytendur séu upplýstir
um þetta og að samvinnufélögin
geti öðlast virðisauka, sýnileika og
viðurkenningu.“
Því er mikilvægt að sjálfbærni-
merkingar á matvælum innihaldi
skýrar og nákvæmar upplýsingar
um umhverfis- og samfélagsleg áhrif
vöru. Þannig geta neytendur tekið
upplýsta ákvörðun um innkaup sín.
Evrópsk landbúnaðarsamvinnufélög
eru ekki aðeins vel í stakk búin til að
mæta félagslegum, efnahagslegum og
umhverfislegum sjálfbærniþörfum
matvælakerfa, heldur geta þau einnig
náð virðisauka fyrir sínar vörur
umfram aðra framleiðendur með því
að nýta sjálfbærnimerkingarkerfi á
áhrifaríkan hátt.
Stjórnvöld mættu stuðla
að meiri sjálfbærni
Stefán Gíslason, stofnandi og
eigandi umhverfisráðgjafar
Íslands, Environice, fagnar því
að framkvæmdastjórn Evrópu-
sambandsins skuldbindi sig til að
innleiða sjálfbæra stefnu samkvæmt
þróunarmarkmiðum Sameinuðu
þjóðanna. Hann bendir á að
stjórnvöld hér á landi mættu vinna
markvissara að því að beina bændum
í sjálfbærari áttir.
„Það er alltaf ávinningur af
samvinnu og samstarfi eins og gerist
hjá samvinnufélögum en ég get ekki
séð í fljótu bragði af hverju þau ættu
endilega að geta gert meira þegar
kemur að sjálfbærnimarkmiðum
en til dæmis almennir bændur.
Samvinnufélögin, sem eru vel þekkt
í nágrannalöndum okkar og víða í
Evrópu, geta þó miðlað upplýsingum
til félagsmanna og hafa afl til þess
og með þeim hætti gætu þau komið
öflug inn,“ segir Stefán og bætir við:
„Almennt er talað um lífræna
framleiðslu sem sjálfbærasta formið
en það vantar, til dæmis hér á landi,
að meira sé gert fyrir lífræna bændur
því hér er mun minni stuðningur við
lífræna bændur en annars staðar.
Íslensk stjórnvöld hafa gert lítið til
að styðja við lífræna framleiðslu og
þar af leiðandi stuðla að sjálfbærni.
Einnig hefur lítið verið gert til
að beina bændum almennt inn í
sjálfbærar áttir, eins og til dæmis
með beitarstýringu. Fyrir tæpum 40
árum stóðu menn frammi fyrir því að
draga úr stuðningi við sauðfjárrækt,
strax þá hefðu stjórnvöld getað tekið
skref í átt að sjálfbærni með því að
hafa skilyrði fyrir stuðningi þannig
að bændur myndu nýta landið á
sjálfbæran hátt. Enn er hægt að keyra
um landið og sjá sauðfé á beit hér
og þar, þar sem gróður er í hnignun,
meðal annars uppi á hálendi, sem
ríkið er að greiða fyrir og stuðlar
að eyðingu landsins. Reyndar var
tekin upp gæðastýring, en henni var
ekki nægilega fylgt eftir. Fyrir 40
árum voru tækifæri og eru enn til
þess að hætta að beita land sem er í
hnignun. Eitt skrefið gæti verið að
til þess að bændur fái stuðning úr
búvörusamningum þá verði þeir að
sýna fram á að þeir eigi landið eða
hafi þinglýstan rétt til að nýta það
til beitar með ákveðnum fjölda af
sauðfé sem dæmi.“
Sjálfbær þróun er meginregla sáttmálans um Evrópusambandið og
forgangsmarkmið fyrir stefnu sambandsins. Framkvæmdastjórnin
skuldbindur sig til að innleiða sjálfbæra stefnu samkvæmt
þróunarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Önnur og skyld umræða sem
rætt var um á viðskiptaþingi Evrópusamtaka bænda, Copa Cogeca, sem
fram fór síðla hausts, er hvernig samvinnufélög leitast í átt til sjálfbærni
með því að miðla umhverfis-, félags- og efnahagsþætti sinna félaga.
Landbúnaðarsamvinnufélög hafa samkeppnisforskot á önnur með tilliti til sjálfbærni. Slík samvinnufélög eru víða
þekkt í Evrópu sem sameign bænda og framleiðenda um vernduð afurðaheiti eins og fyrir parmaskinku, kampavín
og fetaost sem dæmi. Mynd / Tristan Gassert
Erla Hjördís
Gunnarsdóttir
ehg@bondi.is
Christian Høegh-Andersen,
varaforseti Evrópusamtaka bænda,
Copa Cogeca.
Stefán Gíslason, stofnandi og
eigandi umhverfisráðgjafar Íslands,
Environice.