Bændablaðið - 12.01.2023, Blaðsíða 8
8 Bændablaðið | Fimmtudagur 12. janúar 2023
FRÉTTIR
| S t r ú k t ú r e h f | w w w . s t r u k t u r . i s | s t r u k t u r @ s t r u k t u r . i s |
| B æ j a r f l ö t 9 | 1 1 2 R e y k j a v í k | S í m i : 5 8 8 6 6 4 0 |
Límtré-Timbureiningar
Stálgrind
Yleiningar
PIR
Steinull
Hrossaútflutningur:
Fjöldinn yfir meðallagi
og verðið hækkar
Þótt útflutningur hrossa hafi verið lakari árið 2022 en í fyrra var hann vel yfir meðallagi ef horft er til síðasta áratugar.
Uppgefið verð er mun hærra en í fyrra. Mynd / Íslandsstofa
Alls voru 2.085 hross flutt úr landi
árið 2022. Er það töluvert minni
útflutningur en metárið 2021.
Hrossin fóru til átján landa
Evrópu auk Bandaríkjanna. Hrossin
samanstóðu af 312 stóðhestum,
823 geldingum og 950 hryssum
samkvæmt tölum Worldfengs,
upprunaættbók íslenska hestsins.
Eins og venja er fóru langflest
hross til Þýskalands, 970 talsins.
Alls fóru 269 til Danmerkur, 243 til
Svíþjóðar, 119 til Austurríkis, 110
til Sviss og 93 til Bandaríkjanna.
Eitt hross fór til Írlands, annað til
Póllands og enn annað til Rúmeníu
og tvö til Ítalíu.
Þá höfðu 125 af útfluttu hrossunum
hlotið fyrstu verðlaun í kynbótadómi.
Hæst dæmda útflutta hrossið var ein
stjarna ársins, stóðhesturinn Viðar frá
Skör, sem hlaut meteinkunn, 9,04, í
aðaleinkunn. Hann fór til Danmerkur.
Af öðrum hátt dæmdum útfluttum
hrossum má nefna Sólon frá Þúfum
(ae. 8,90), Brimni frá Efri-Fitjum (ae.
8,75), Spaða frá Stuðlum (ae. 8,73),
Valdísi frá Auðsholtshjáleigu (ae.
8,60), heiðursverðlaunastóðhestinn
Eld frá Torfunesi (ae. 8,60) og Magna
frá Stuðlum (ae. 8,56).
Árið 2021 var metútflutningsár
síðan mælingar hófust, en þá fóru
3.341 hross utan. Árið 2020 voru þau
2.320 og var útflutningurinn 2022 því
lakari en síðastliðin tvö ár. Ef horft
er til útflutnings síðasta áratugar var
hann hins vegar vel yfir meðallag.
Bestu útflutningsárin fyrir utan
árið 2021 var á fyrri hluta tuttugustu
aldar, en á árunum 1993–1997 fóru
að meðaltali rúm 2.600 hross út
ár hvert.
Uppgefið meðalverð
916.000 krónur
Hagstofa Íslands heldur einnig utan
um tölur tengdum útflutningi á
hrossum gegnum tollskrárnúmer og
hafa birt þær fyrir fyrstu tíu mánuði
ársins 2022. Þar hefur útflutningur
1.465 hrossa verið gefinn upp og
rúmir 1,3 milljarðar króna heildar
FOB verð.
Deilt niður á fjölda blasir við að
meðaltalið á uppgefnu verði er tæpar
916.000 krónur sem er mun hærra
verð en árið áður þegar það var um
690.000 krónur.
Tollskrárnúmerin eru tvö,
annars vegar „hreinræktaðir
hestar til undaneldis“ og hins
vegar „reiðhestar“. Meðalverðið
í fyrrnefnda flokknum er um 1,2
milljónir króna en um 655 þúsund
krónur í þeim síðari.
Ef litið er til einstakra landa er
hæsta uppgefna meðalverðið fyrir
hross sem fóru til Svíþjóðar rúmar
þrjár milljónir króna. Lægst er verðið
fyrir hross sem fóru til Belgíu, en
þar virðist 148.960 krónur vera
algeng tala. /ghp
Bændasamtök Íslands hafa fært Listasafni
Reykjavíkur vefnaðarverk Hildar Hákonardóttur,
Árshringinn, að gjöf.
Verkið er eitt af stærstu verkum listakonunnar og
verður á meðal þeirra fjölmörgu listaverka sem sýnd
verða á umfangsmikilli yfirlitssýningu á verkum Hildar
sem opnuð verður á Kjarvalsstöðum 14. janúar.
Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka
Íslands, segir að Konráð Guðmundsson, hótelstjóri á
Sögu, hafi keypt verkið af Hildi á sínum tíma. „Verkið
samanstóð upphaflega af tólf ofnum teppum og stóðu
fyrir gróður jarðar árið um kring og var hugsað sem
heild.“
Vigdís segir að verkið hafi lengi verið í geymslu en
hafi verið nokkrum sinnum sýnt opinberlega, meðal
annars í Kaupmannahöfn árið 2018. „Þegar eigendaskipti
urðu á Hótel Sögu nýverið fundust aðeins tíu hlutar
verksins og verða þeir færðir Listasafni Reykjavíkur
til varanlegrar varðveislu og er verkið fært safninu að
gjöf án skilyrða.“
Hver hluti verksins er 202 x 94 sentímetrar og eru
tíu hlutar þess færðir listasafninu að gjöf en tveir hlutar
hafa glatast.
Sýningin í verkum Hildar ber yfirskriftina Rauður
þráður og er afrakstur rannsóknarstöðu við Listasafn
Reykjavíkur sem ætlað er að endurskoða hlut kvenna í
íslenskri listasögu. /VH
Menning:
Vefnaðarverk að gjöf
Árhringurinn formlega afhentur. Ólöf Kristín Sigurðardóttir
safnstjóri, Hildur Hákonardóttir myndlistarmaður, Vigdís
Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna og Sigrún
Inga Hrólfsdóttir sýningarstjóri. Mynd / Listasafn Reykjavíkur
Fasteignakaup:
Úrræði sem eigi að
nýtast ungum bændum
Ungir bændur hafa verið að
kalla eftir því að þeir geti nýtt öll
fasteignakaupsúrræði sem almennt
miða að þéttbýlinu eins og að greiða
inn á lán með séreignarsparnaði eða
hlutdeildarlánin svo dæmi sé tekið.
Ný reglugerð, nr. 555/2017, um
samræmt verklag við ráðstöfun
iðngjalda til séreignarsparnaðar til
stuðnings kaupa á fyrstu íbúð hefur
tekið gildi. Reglugerðin tekur mið
af breytingum á lögum til stuðnings
til kaupa á fyrstu íbúð samkvæmt
breytingalögum, 55/2022, sem tóku
gildi 1. janúar 2023.
Málið var opið til umsagnar á
samráðsgátt stjórnvalda 2. til 22.
desember síðastliðinn.
Leggja til viðbætur
Ungir bændur hafa kallað eftir því
að þeir geti nýtt öll úrræðin sem
almennt miða að þéttbýlinu, meðal
annars til að geta greitt upp lán til
kaupa á fyrstu íbúð.
Á þeim forsendum sendu
Bændasamtök Íslands inn umsögn
um drög að reglugerð um stuðning
til kaupa á fyrstu íbúð, mál nr.
244/2022. Og lögðu til breytingu á
annarri grein reglugerðarinnar og að
orðalag hennar yrði:
,,Með íbúð samkvæmt lögum
nr. 111/2016 er átt við fasteign
sem er skráð sem íbúðarhúsnæði
í fasteignaskrá Húsnæðis- og
mannvirkjastofnunar sem og
lögbýlisjörð sem þegar er í búrekstri
eða ætluð er til búrekstrar. Eigandi
íbúðar í skilningi laganna telst
einungis sá sem skráður er eigandi
í fasteignaskrá.“
Breyting Bændasamtakanna fólst
í að bæta inn orðalaginu „sem og
lögbýlisjörð sem þegar er í búrekstri
eða ætluð er til búrekstrar.“
Staða ungra bænda erfið
Þrjá umsagnir bárust og þar af ein frá
Bændasamtökum Íslands. Í umsögn
samtakanna segir meðal annars:
„Staða þess unga fólks sem vill
hefja búskap er í mörgu sambærileg
við stöðu ungs fólks vegna kaupa á
fyrstu íbúð þar sem í báðum tilvikum
er um að ræða aðgerðir einstaklinga
til að eignast húsaskjól fyrir sig og
fjölskyldu sína. Staða þessa hóps
hefur verið erfið þar sem kröfur eru
gerðar um hátt eiginfjárframlag við
kaup á fyrstu bújörð. Þannig er full
þörf á því að stjórnvöld gæti þess að
ívilnandi aðgerðir sem finna má stoð
í lögum nýtist öllum sambærilegum
hópum á grundvelli sjónarmiða
um jafnræði sem og að slíkar
aðgerðir tali beint inn í byggða- og
atvinnustefnu út um allt land. Með
slíku úrræði er einnig byggt undir
að búskap sé viðhaldið á bújörðum
með tilheyrandi jákvæðum áhrifum
á fæðuöryggi þjóðarinnar.“
Hilmar Vilberg Gylfason,
yfirlögfræðingur Bændasamtaka
Íslands, segir að samtökin hafi
átt gott samtal við fjármála- og
efnahagsráðuneytið í framhaldinu.
„Þó ekki hafi verið fallist á
breytingartillögu Bændasamtakanna
þá hafi ráðuneytið tekið undir
röksemdirnar og fengist staðfesting
á því að ráðuneytið líti svo á að
úrræðin eigi að nýtast ungum
bændum eins og öðrum þegar
íbúðarhúsnæði er hluti af kaupum
á bújörðum. Einnig gaf ráðuneytið
vilyrði fyrir því að ef einhverjir
vankantar eru á regluverkinu sem
koma í veg fyrir að ungir bændur
geti nýtt sér úrræðið þá sé það vilji
ráðuneytisins að bregðast við því.“
/VH
Trékyllisvík á Ströndum. Mynd / Svanlaug Sigurðardóttir
Hilmar Vilberg Gylfason.