Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2022, Blaðsíða 48
Mig hafði lengi langað að vinna á gjörgæslunni en lét
ekki verða af því fyrr en sjö árum eftir útskrift þá með
nokkurra ára reynslu frá hjartadeild og af störfum
erlendis í farteskinu. Síðan þá eru liðin 21 ár og mikil
breyting hefur orðið á starfsemi deildarinnar á þeim
tíma svo ekki sé minnst á aukið álag. Þrátt fyrir það er
alltaf viss eftirvænting að mæta til vinnu enda tel ég að
vandfundið sé eins frábært samstarfsfólk og þar.
Vaktin byrjar klukkan 15 en ég er mætt snemma. Mér
finnst gott að taka inn stemninguna á deildinni áður en
ég byrja og fá mér einn kaffibolla með þeim sem eru
að koma á kvöldvaktina með mér. Fá að heyra aðeins
hvernig gengur með ákveðna sjúklinga, skoða planið fyrir
vaktina og undirbúa mig fyrir verkefnin sem fyrir liggja.
Á þessari vakt er deildin full, þar af eru tveir sjúklingar
með virka COVID-19 sýkingu og þegar ég geng inn á
deildina sé ég samstarfsfólk klæða sig í hlífðarfatnað sem
þarf að vera í til að sinna þeim sjúklingum af öryggi.
Þessa vakt er ég vaktstjóri, ég byrja á því að spjalla
við vaktstjóra morgunvaktar. Þá fæ ég yfirsýn yfir
þá sjúklinga sem liggja á deildinni og við förum yfir
mönnun.
Við erum sammála um að mönnun næturvaktar sé
tæp og ekki megi mikið út af bregða því hlutirnir
geti breyst hratt á gjörgæsludeild.
Við förum yfir möguleika í stöðunni og ákveðum að ég
skuli reyna að finna einhvern sem getur verið á aukavakt
næstu nótt. Ég sendi nokkur SMS til starfsmanna
sem eru í fríi og set inn færslu á Facebook-síðu
hjúkrunarfræðinga deildarinnar og spyr hvort einhver
geti komið á aukavakt.
Yfirfærsla klínískrar ábyrgðar á milli vakta er misjafnlega
útfærð eftir deildum en á gjörgæslunni fer hún oft
fram við rúm sjúklings. Það er að mörgu að hyggja
og vaktaskiptin eru oft notuð til skoðanaskipta um
hjúkrunarmeðferð sjúklings þar sem ýmsar hugmyndir
eru ræddar. Að því loknu gera hjúkrunarfræðingar
öryggistékk þar sem farið er yfir tækjabúnað, lyf og annað
í umhverfi sjúklings sem gæti þurft að nota á vaktinni
sem fram undan er.
Venjulega er einn hjúkrunarfræðingur með hvern
sjúkling, stundum tveir ef sjúklingur er mjög krítískt
veikur eða í einangrun. Sjúklingar á gjörgæslu eru í
langflestum tilvikum undir ströngu eftirliti sem þýðir
meðal annars að þeir eru aldrei skildir eftir einir, það
eru alltaf hjúkrunarfræðingar og/eða sjúkraliðar á
sjúkrastofunni.
Ég fer á allar stofur til að sjá hvort ég get aðstoðað. Það
er yfirvofandi andlát á deildinni og þann sjúkling þarf
að flytja á einbýli og til þess þarf margar hendur. Að því
loknu slökkvum við ljós á ganginum á deildinni. Það
er gert af virðingu við þann sem er að skilja við en ekki
síst til að minna starfsfólk og gesti deildarinnar á að
ganga hljóðlega um. Ég er svo hjá sjúklingnum á meðan
sá hjúkrunarfræðingur sem hugsar um hann fer inn í
aðstandendaherbergi og ræðir við fjölskyldu sjúklingsins.
Va
kt
in
m
ín
Kvöldvakt á gjörgæsludeild
á Hringbraut
Gjörgæsludeildin á Hringbraut sinnir fjölbreyttum sjúklingahópi, bæði
börnum og fullorðnum. Deildin er sjö rúma deild og er ein þriggja
gjörgæsludeilda á landinu.
Áslaug Arnoldsdóttir
gjörgæsluhjúkrunarfræðingur
Orri Jökulsson og Sólveig Kristjánsdóttir hjúkrunarfræðingar á
vaktinni.