Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2022, Blaðsíða 58
58 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 1. tbl. 98. árg. 2022
lúta að heilsuvernd, forvörnum og aðgerðum sem grípa þarf
til í því skyni að draga úr atvinnutengdum sjúkdómum og
slysum, sbr. 1. mgr. 66. gr. Samkvæmt vinnuverndarlögum
ber að stuðla að heilsuvernd starfsmanna gegn hvers konar
heilsuvá eða heilsutjóni sem kann að stafa af vinnu þeirra
eða vinnuskilyrðum. Þá ber atvinnurekanda að stuðla að
verkefnum við hæfi og andlegri og líkamlegri aðlögun þeirra
að starfsumhverfi. Draga skal úr fjarvistum frá vinnu vegna
veikinda og slysa með því að auka öryggi og viðhalda heilsu
starfsmanna á vinnustað. Loks ber að stuðla að andlegri og
líkamlegri vellíðan starfsmanna.
Vinnustaðir setja sér ákveðnar reglur og hafa ákveðin gildi til
að vinna eftir. Þar sem Landspítalinn er stærsti vinnustaður
heilbrigðisstarfmanna hér á landi verður hér aðeins vikið að
stefnu hans í þessum málum. Landspítalinn hefur ákveðin
gildi og hefur sett sér skýra stefnu og markmið sem unnið er
að. Gildi Landspítalans eru umhyggja, öryggi, fagmennska og
framþróun (Landspítali, e.d.). Landspítalinn kynnti enn fremur
samskiptasáttmálann árið 2018. Samskiptasáttmálinn var
unninn út frá yfir 900 ábendingum frá um 700 starfsmönnum,
um hvað gera mætti betur til að bæta samskipti á spítalanum.
Markmið samskiptasáttmálans fólust einkum í að bæta
samskipti milli ólíkra starfsstétta spítalans og við sjúklinga
og aðstandendur þeirra. Enn fremur átti sáttmálinn að stuðla
að betri líðan og öryggi skjólstæðinga og starfsfólks og auka
starfsánægju (Landspítali, e.d.).
Undirmönnun og mikil starfsmannavelta getur komið niður
á umönnun sjúklinga og haft áhrif á öryggi þeirra. Aðkoma
stjórnenda og stuðningur þeirra við samstarfsmenn, rétt
eins og samvinna og jákvæð samskipti, eru lykilatriði til
aukinnar þátttöku og meiri starfsánægju. Í skrifum um líðan
heilbrigðisstarfsmanna er oft vísað til sjálfsumönnunar og er
þar átt við þær aðferðir sem hægt sé að nýta sér til að huga
að eigin heilsu og líðan. Sjálfsumönnun er þannig hugsuð
sem bjargráð við streitu, kulnun og þreytu. Samheiti við
hugtakið sjálfsumönnun er sjálfsrækt og vísar til þess þegar
einstaklingar taka upp heilbrigðari lífsstíl. Sjálfsrækt hjá
hjúkrunarfræðingum er talin auka starfsánægju og jákvæðni
til starfsins.
Slökunar- og núvitundaræfingar eru meðal þess sem
getur haft jákvæð áhrif á vellíðan og streitustjórnun
hjá hjúkrunarfræðingum (Oates, 2018). Í hjúkrun reynir
óumdeilanlega á ýmsa streituvaldandi þætti, en markviss
sjálfsrækt getur dregið úr þeim, aukið seiglu og bætt líðan.
Rannsóknir benda til þess að hjúkrunarfræðingar geti bætt
líðan sína með persónulegum þroska og sjálfsumönnun.
Andleg líðan hjúkrunarfræðinga, jákvætt viðhorf, von, virkni,
seigla og bjartsýni eru lykilatriði í að viðhalda starfsheilbrigði.
Andlegt jafnvægi hjúkrunarfræðinga hjálpar þeim að takast
á við streitu og eru sjálfsþekking, sjálfstraust og seigla þar
veigamiklir þættir. Þessir þættir styðja einnig við það að ná
árangri, læra og verða sterkari andspænis áskorunum (Elliott
og Fry, 2021).
Sjúkleg streita og kulnun
Mikið hefur verið fjallað um kulnun (e. burnout) undanfarin
ár og mikilvægi fyrirbyggjandi aðgerða gegn henni. Kulnun
er lýst sem sálrænu ástandi tilfinningalegrar örmögnunar,
sem kemur í kjölfar langvarandi streitu og er oft tengd starfi.
Tilfinningaleg örmögnun vísar til þess að einstaklingnum
finnst kröfurnar til hans vera of miklar og hann hefur ekki kraft
til að standa undir þeim væntingum. Ástandið getur komið í
kjölfar langvarandi sálrænnar og líkamlegrar vanlíðunar (Guo
o.fl., 2017). Heilbrigðisstarfsmenn eru taldir í aukinni áhættu
á að þróa með sér kulnun vegna eðlis starfs þeirra. Þeir verða
fyrir miklum og oft tilfinningalega lýjandi streituvöldum
við að veita flókna hjúkrun og meðferð. Verkefnaálag og of
mikil vinna, óreglulegur vinnutími, yfirvinna, vaktaskipti
og undirmönnun eru allt áhættuþættir kulnunar. Einkenni
kulnunar geta verið líkamleg einkenni eins og t.d. þreyta,
kvíði, svefntruflanir, höfuðverkur, veikindi, minnkuð einbeiting
og minnistap (Woo o.fl., 2020).
Takmarkaður stuðningur frá yfirmönnum er einnig veigamikill
áhrifaþáttur sem ýtir undir kulnun. Stuðningur, góð stjórnun
og hvatning frá yfirmönnum geta hins vegar dregið úr streitu
og hjálpað hjúkrunarfræðingum að takast á við vinnuálag
og kulnun (Chen og Chen, 2018). Kulnun er ástand sem getur
leitt til alvarlegs heilsubrests, t.d. svefnleysis, vímuefnaneyslu,
sálrænnar vanlíðunar, minni starfsánægju og meiri starfs-
mannaveltu. Kulnun getur orsakað skerðingu á gæðum
hjúkrunar og umönnunar skjólstæðinga og haft neikvæð áhrif
á upplifun skjólstæðinga, umönnun og öryggi þeirra (Geuens
o.fl., 2017; Guo o.fl., 2017).
Áskoranir heimsfaraldurs
Um fátt hefur verið meira fjallað en kórónuveirufaraldurinn
COVID-19 frá því að smit fóru að dreifast um heimsbyggðina
í ársbyrjun 2020. Sú umfjöllun hefur m.a. beinst að því
gríðarlega álagi sem hefur myndast í heilbrigðiskerfum
víða um heim og ógnar bæði öryggi og velferð einstaklinga.
Ekki síst þegar horft er til viðkvæmra hópa og fjölmennra
samfélaga. Samhliða þessu hafa heilbrigðisstarfsmenn
víða þurft að starfa við bæði óöruggar og oft á tíðum
ómanneskjulegar aðstæður. Í sumum löndum hefur ekki verið
unnt að sinna öllum sem hafa þurft á bráðri læknisþjónustu að
halda og fjöldi fólks hefur dáið vegna skorts á sjúkrarúmum og
nauðsynlegum læknabúnaði. Greind tilfelli á heimsvísu í apríl
2021 nálgast 148 milljónir manna, þar af eru meira en þrjár
milljónir látnar (Ueda o.fl., 2020; World Health Organization,
e.d.).
Allt frá því COVID-19 uppgötvaðist hafa farið fram viðamiklar
rannsóknir á veirunni SARS-CoV-2, bæði í tengslum
við faraldsfræði og erfðafræði ásamt efnahagslegum,
samfélagslegum og sálfélagslegum áhrifum. Þá hafa áhrif
COVID-19 einnig verið skoðuð í tengslum við heilsufar
og starfsheilbrigði framlínustarfsfólks, þar með talið
hjúkrunarfræðinga. Í skýrslu Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga
(e. International Council of Nurses) kemur fram, að við
árslok 2020 voru skráð dauðsföll hjúkrunarfræðinga í 59
löndum orðin 2.262. Sú tala hefur síðan farið hækkandi
og kann raunverulega að vera mun hærri þar sem
skortur er á haldbærum gögnum um smit og áhrif meðal
heilbrigðisstarfsmanna (International Council of Nurses,
2021). Enn fremur bendir ýmislegt til þess að COVID-19 hafi
með beinum eða óbeinum hætti haft verulega íþyngjandi og
skaðleg áhrif á geðheilsu þeirra. Margt kemur þar til sem eykur
á streitu meðal hjúkrunarfræðinga, svo sem fyrirvaralausar
og endurteknar breytingar og endurskipulagning á bæði
starfsemi og starfsháttum ásamt ótta við að smitast af
Að verja starfsheilbrigði í krefjandi starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga