Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2022, Blaðsíða 91
Fyrst og fremst þakka ég viðmælendum mínum sem
voru tilbúnir að veita ítarleg viðtöl með upplýsingum úr
reynsluheimi sínum í starfi. Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga
þakka ég fyrir fjárstyrk og ritstjórn greinar.
ÞAKKIR
leiðandi er lífsnauðsynleg þörf á úrbótum. Þessi staða er
óásættanleg og það er dapurleg tilhugsun að þetta skuli vera
staðreynd.
Aðstandendur eru oft á tíðum ráðþrota, þeir upplifa
umönnunarbyrði, telja sig vera í pattstöðu og í sumum
tilfellum koma þeir í veg fyrir útskrift til að stuðla að því
að þeirra nánasti komist á hjúkrunarheimili sem fyrst.
Þetta ástand leiðir til erfiðra samskipta starfsfólks við
aðstandendur. Þessar niðurstöður samræmast rannsókn
Koren og félaga (2018), en þar kom fram að þótt starfsfólk teldi
suma aðstandendur krefjandi væri orsökin ónóg þjónusta
heilbrigðisyfirvalda við aldraða. Svipaða niðurstöðu má finna
í hérlendum rannsóknum, þar sem fram kemur að ekki er
ólíklegt að álag á aðstandendur hafi aukist vegna úrræðaleysis
(Sigurdardottir o.fl., 2016). Pattstaða aðstandenda er því
líklegast lýsandi fyrir stöðu þeirra, en vegna úrræðaleysis
í þjónustu við aldraða eru margir að bugast og treysta sér
ekki til að stuðla að heimferð aðstandenda sinna. Þeir telja
spítalann öruggan stað en eins og fram hefur komið er
spítalinn ekki ákjósanlegur staður fyrir aldraða einstaklinga til
lengri tíma og því er um falskt öryggi að ræða.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að viðmælendur telja
mikla vöntun á úrbótum í heilbrigðiskerfinu þegar kemur
að málefnum aldraðra. Að mati viðmælenda er þörf á nýrri
sýn í málefnum aldraðra, heildrænni stefnu sem fylgt er eftir
ásamt aukinni aðkomu fagaðila og aldraðra. Ávinningur ætti
að vera í einföldun og samvinnu milli kerfa og þjónustuaðila.
Auðvelda þarf boðleiðir, efla þverfaglega samvinnu og klára
samþættingu heimaþjónustu. Auka þarf fræðslu, þjálfun
og menntun starfsfólks í heilbrigðisþjónustu sem sinnir
öldruðum til að mæta betur þörfum þeirra. Létta þarf álagi á
Landspítalanum svo að hægt sé að veita sjúklingum þjónustu
á viðeigandi þjónustustigi. Starfsfólk Landspítalans ætti að
hefja útskriftarferlið fyrr, samvinnu milli deilda má bæta og
vanda betur til við skráningu og uppvinnslu ásamt því að
passa upp á að sjúklingum sé ekki mismunað vegna aldurs.
Þörf er á róttækum breytingum, en án þeirra er hætta á að
vegna fyrirsjáanlegra breytinga í mannfjöldaþróun muni álag
á spítalann eingöngu aukast. Spítalar þurfa að geta veitt
sjúklingum sínum þjónustu á viðeigandi þjónustustigi, en það
er markmið heilbrigðisstefnu eigi síðar en árið 2030 ásamt því
að hægt verði að útskrifa sjúklinga án tafa eftir að meðferð
þeirra er lokið (Heilbrigðisráðuneytið, 2019). Það verður að
teljast óásættanlegt að þessu markmiði verði jafnvel ekki náð
fyrr en eftir tæpan áratug, ef það næst á annað borð, og því er
augljós þörf á úrbótum hið fyrsta.
Mikil áhersla var lögð á úrbætur utan Landspítalans að
sögn viðmælenda, nýta mætti betur þau úrræði sem væru
til staðar, efla þau en jafnframt fjölga. Með enn frekari
stuðningi til heimahjúkrunar og heimaþjónustu almennt
væri sjálfsagt hægt að koma betur til móts við aldraða og
veita einstaklingsmiðaða þjónustu ásamt því að styðja
við sjálfstæða búsetu, sem væri réttur þeirra. Þá væri
löngu tímabært að endurskoða hlutskiptingu á kostnaði í
langtímaþjónustu hérlendis og horfa til annarra Norðurlanda
sem verðu mun hærra hlutfalli í heimaþjónustu. Það mætti
þó ekki vera á kostnað gæða og þjónustu hjúkrunarheimila,
sem nú þegar stæðu mörg höllum fæti og þörfnuðust einnig
sárlega úrbóta.
Rannsóknin byggir á viðtölum við sex starfsmenn sem hafa
mikla reynslu af útskriftarmálum Landspítalans. Takmarkanir
rannsóknarinnar eru þær að viðmælendur eru fáir og
því er ekki hægt að alhæfa út frá niðurstöðum. Styrkleiki
rannsóknarinnar er að viðmælendur koma úr mismunandi
starfsstéttum sem koma að umönnun og útskriftum aldraðra
sjúklinga á ólíkan hátt. Álykta má út frá niðurstöðum að
þörf sé á átaki innan spítalans um breytt verklag og að utan
spítalans þurfi að stórefla þjónustu við aldraða ásamt því
að skerpa hlutverk og ábyrgð þjónustuaðila. Bjóða þarf upp
á fjölbreyttari úrræði og fjölga þeim og efla samvinnu allra
kerfa, en gott og traust skipulag öldrunarþjónustu eykur ekki
einungis öryggi þeirra öldruðu sem þurfa á þjónustu að halda
heldur einnig aðstandenda þeirra og starfsfólks bæði innan og
utan Landspítala. Mikilvægt er að horft sé á heildarmyndina
og unnið áfram að úrbótum í heilbrigðiskerfinu til að ná fram
hagkvæmum ávinningi fyrir alla í samfélaginu.