Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2022, Side 60
60 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 1. tbl. 98. árg. 2022
að tekið sé tillit til mismunandi skoðana og viðhorfa. Traust
skiptir máli þegar kemur að því að virkja starfsmenn til
aukinnar ábyrgðar. Einnig er talið að innleiðing breytinga
gangi auðveldar fyrir sig þar sem traust ríkir til stjórnanda
(Ghimire, 2019).
Traust skiptir miklu máli þegar kemur að aðstæðum sem
krefjast samvinnu milli yfirmanns og undirmanna en það
er talið bæta samvinnu og koma í veg fyrir vandamál á
vinnustað. Þar þarf að gæta að góðum samskiptum til að
auka gagnsæi í starfi og koma í veg fyrir misskilning. Traust til
yfirmanns ræðst að miklu leyti af því að yfirmaður sýni hegðun
á borð við heiðarleika, virðingu, nákvæmni og sanngirni
(Hartmann og Slapničar, 2009).
Að veita en ekki beita stjórnun
Þjónandi forysta er tiltölulega nýtt hugtak innan stjórnunar,
í það minnsta að farið sé að ræða um hana sem sérstaka
hugmyndafræði í stjórnun. Horfa má til hugmyndafræðinnar
sem leiðtogastíls þar sem stjórnun er í raun veitt en ekki
beitt. Þjónandi forysta hefur stundum verið borin saman
við leiðtogaeiginleika Jesú Krists og þess sambands sem
hann átti við lærisveina sína og samfélag sitt (Sendjaya og
Sarros, 2002). Hið sama megi segja um leiðtogastíl Mahatma
Gandhi og Martins Luthers King, sem þjónuðu fyrst og fremst
málstaðnum og lögðu til hliðar sínar eigin þarfir (Gandolfi og
Stone, 2018).
Þjónandi forysta er byggð á hugmyndafræði Roberts
K. Greenleaf (1904-1990) og leggur áherslu á þann þátt
stjórnandans að þjóna öðrum. Þannig hvílir áhersla
stjórnandans á að mynda samband við starfsfólk sitt, treysta
þeim til verkefna, leiðbeina eftir þörfum og deila með þeim
ábyrgð (Greenleaf, 2008). Markmið hins þjónandi leiðtoga
er þannig fólgið í þroska og framförum starfsfólksins í stað
rekstrarafkomu eða afkasta fyrirtækja eða stofnana. Sú
áhersla hefur svo aftur jákvæð áhrif á framleiðni og leiðir
að endingu til vegsemdar atvinnurekandans (Gandolfi og
Stone, 2018). Þjónandi forysta leggur þannig megináherslu á
leiðtogaþátt fremur en stjórnandaþátt og hefur mælst vel fyrir
í starfi innan heilbrigðisstofnana (Augustine, 2021).
Þjónandi forysta byggir að miklu leyti á siðferðilegum grunni.
Vilji leiðtogans til að þjóna öðrum krefst þess að hann
hafi sterkt siðferði sem felst m.a. í því að hann sýni af sér
góða hegðun, bæði í einkalífi og starfi sínu. Í góðu siðferði
felst ekki síður hæfni leiðtogans til virkrar hlustunar og
uppbyggilegra samtala við starfsfólk. Með því megi stuðla að
góðum samskiptum, trausti og góðu siðferði á vinnustaðnum.
Þjónandi leiðtogi er ákveðin fyrirmynd starfsfólksins og til að
öðlast traust þeirra er nauðsynlegt að hann fylgi alltaf sömu
gildum (Sigrún Gunnarsdóttir og Birna Gerður Jónsdóttir,
2013). Ein af siðferðilegum skyldum þjónandi leiðtoga er
framsýni (e. foresight). Í því felst að horfa til framtíðar og móta
framtíðarsýn og framtíðarstefnu stofnunar eða vinnustaðar.
Það felur einnig í sér að læra af þeim mistökum sem orðið
hafa og koma í veg fyrir að þau endurtaki sig. Þannig notar
hann innsæi sitt til að sjá fyrir hvaða afleiðingar atburður á
líðandi stundu gæti haft í framtíðinni (Greenleaf, 2008/2018).
Því mætti á margan hátt líkja þeim grunngildum sem felast í
þjónandi forystu við boðorð.
Boðorð þjónandi forystu
Þjónandi forysta sem hugmyndafræði hefur gefið góða raun
þegar kemur að samskiptum milli starfsmanna og stjórnenda
og til stjórnunar fyrirtækja. Stjórnunaraðferðin er talin
uppbyggileg leið sem eflir traust, siðferði og fagmennsku.
Hugmyndafræðin felur í sér að stjórnendur þurfa að leggja
rækt við ákveðna persónueiginleika og vinna að því að tileinka
sér þá (Gandolfi og Stone, 2018). Þannig hefur stjórnandi
sem vinnur eftir þjónandi forystu einlægan áhuga á högum
starfsfólks og vilja til að þjóna. Hann býr yfir sjálfsþekkingu,
sjálfsvitund og sýnir auðmýkt, hefur skýra framtíðarsýn,
hugsjón og tekur ábyrgð og vinnan er á jafningjagrundvelli
(Sigrún Gunnarsdóttir og Birna Gerður Jónsdóttir, 2013).
Nokkrar skilgreiningar eru til um grunngildi þjónandi
forystu. Hér verður horft til átta áhrifamestu meginþátta
hugmyndafræðinnar og þeir settir fram sem lýsandi boðorð
hennar. Tafla 1 sýnir yfirlit yfir helstu skilgreiningar á þeim.
Eftir þessum meginþáttum vinnur hinn þjónandi leiðtogi
og tileinkar sér sem gildi og aðferðir til stjórnunar (van
Dierendonck og Nuijten, 2011). Samtenging er milli þessara
boðorða og reynslu höfunda. Það vekur áhuga þeirra hvernig
stjórnendur og leiðtogar geta nýtt sér þjónandi forystu
og boðorð hennar til að bæta starfsheilbrigði innan síns
vinnustaðar.
Birtingarmynd þjónandi forystu í starfi
Í þjónandi forystu er horft til hvatningar og stuðnings
yfirmanna til starfsmanna auk þess sem leitast er við að efla
þá til sjálfstæðis. Niðurstöður rannsóknar á Íslandi frá árinu
2015 sýna fram á sterk tengsl milli þjónandi forystu sem
stjórnunarháttar og aukinnar starfsánægju starfsmanna.
Einnig skipta viðbrögð og framkoma stjórnenda miklu máli
fyrir líðan starfsfólksins í vinnu (Kristín Þórarinsdóttir o.fl.,
2020). Reynsla höfunda úr starfi hjúkrunarfræðinga er sú að öll
samvinna gengur mun betur þegar samskipti við yfirmann eru
góð. Góð samvinna og samskipti eru mjög mikilvægir þættir í
starfi hjúkrunarfræðinga. Miklu skiptir í meðferð og umönnun
allra skjólstæðinga að tryggja boðleiðir og að samskipti séu
örugg og rétt. Upplýsingar þurfa að vera skýrar og rétt gefnar
og yfirmaður að halda vel utan um og tryggja upplýsingaflæði
innan deildarinnar. Þá skapast síður tækifæri til misskilnings
og/eða rangra samskipta.
Grunnatriði árangursríkrar breytingarstjórnunar sem
þjónandi leiðtogar veita er að gefa starfsmönnum tækifæri
til að vera virkir þátttakendur í innleiðingu breytinga sem
hefur gefið mjög góða raun (Kristín Þórarinsdóttir o.fl., 2020).
Það sammælist meginþáttum þjónandi forystu að veita
hugmyndum starfsmanna sinna brautargengi og hvetja þá
með í þá vinnu sem liggur fyrir.
Meginþættir þjónandi forystu eru samtalið, samvinnan og
samskiptin sem stjórnendur eiga við starfsfólk sitt (Sigrún
Gunnarsdóttir og Birna Gerður Jónsdóttir, 2013). Samskipti
þurfa að byggjast á virðingu bæði fyrir starfsmanninum
sjálfum sem persónu og einnig sem fagmanni. Þá skiptir
máli að stjórnandinn nýti boðorð hugmyndafræðinnar um
eflingu, ábyrgðarskyldu og forgangsröðun í þágu annarra.
Einnig stuðlar það að viðurkenningu og ánægju í starfi að
finna fyrir því að stjórnanda sé umhugað um starfsmenn sína
og sjálfseflingu þeirra. Þar skiptir einnig miklu að finna fyrir
Að verja starfsheilbrigði í krefjandi starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga