Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2022, Blaðsíða 65
1. tbl. 98. árg. 2022 | Tímarit hjúkrunarfræðinga 65
COVID-19 faraldurinn hefur haft umtalsverðar breytingar á námstilhögun í för með sér fyrir
nemendur á öllum skólastigum hérlendis sem og erlendis, en kennsla féll víða niður og
skólabyggingum var lokað í fyrstu bylgju faraldursins. Nokkurrar óvissu gætti um framvindu
faraldursins og áhrif hans á nám í hjúkrunarfræði á Íslandi. Alþekkt er að óvissa eykur streitu og
jafnframt að mikil streita hefur neikvæð áhrif á vellíðan og getu til að tileinka sér nýja þekkingu.
Stór hluti nemenda í hjúkrunarfræði var enn fremur starfsmenn heilbrigðisstofnana og þurfti
því að auki að takast á við þá ógn og óvissu sem fylgdi faraldrinum t.d. vegna ótta þeirra við að
smitast eða smita skjólstæðinga sína eða fjölskyldumeðlimi. Erlendar rannsóknir sýna neikvæð
áhrif faraldursins meðal annars á andlega heilsu nemenda (Kim o.fl., 2021; Reverté-Villarroya
o.fl., 2021), einbeitingu og nám (Lovrić o.fl., 2020).
Nám í hjúkrunarfræði er streituvaldandi og vísbendingar eru um að streita meðal nemenda
í hjúkrunarfræði sé algeng (Labrague o.fl., 2014; Simonelli-Munnoz o.fl., 2018). Í rannsókn
meðal fyrsta og annars árs nemenda í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri (HA) (Eva
Mjöll Júlíusdóttir og Helga Berglind Hreinsdóttir, 2010) mældist meirihluti þátttakenda yfir
meðal streitustigi fyrir nemendur almennt samkvæmt viðmiðum Cohen og Williamson (1988).
Sambærilegar niðurstöður komu fram í rannsókn meðal nemenda í grunnnámi við Háskóla
Íslands (HÍ) árið 2016 (Sigríður Lilja Magnúsdóttir og Valdís Ingunn Óskarsdóttir, 2016).
Of mikil streita er skaðleg líðan og andlegri heilsu (Labraque o.fl., 2014, 2018) og hefur áhrif
á námsgetu og námsárangur (Galvin o.fl., 2015). Vitað er að streita nemenda eykst alla jafna
eftir því sem lengra líður á nám þeirra (Alzayyat og Al-Gamal, 2014) og nemendur geta jafnvel
sýnt byrjandi einkenni kulnunar við útskrift úr námi (Sheroun o.fl., 2020). Þættir sem valda
streitu má bæði rekja til fræðilega hluta námsins en ekki hvað síst klíníska hluta þess. Helstu
streituvaldar í fræðilega hluta námsins eru próf og hræðslan við að standast ekki námskröfur og
verkefnaálag (Galvin o.fl., 2015).
Nemendur lýsa klíníska náminu gjarnan sem mikilvægum og ánægjulegum hluta námsins
(Hrund Sch. Thorsteinsson, 2006), en jafnframt sem streituvaldandi (da Silva o.fl., 2014).
Dæmi um streituvalda í klínísku námi eru að hafa umsjón með og annast sjúklinga, of mikil og
margvísleg ábyrgð, hræðsla við mistök, samskipti við starfsmenn hjúkrunar og kennara (Al-
Gamal o.fl., 2018), skortur á faglegri þekkingu og færni (Bahadir-Yilmaz, 2016; Labraque, 2014),
vinnuálag vegna verkefna (Chen og Hung, 2014) auk klíníska umhverfisins sjálfs (Blomberg
o.fl., 2014) og stöðugrar tilfærslu milli klínískra vettvanga (Al-Gamal o.fl., 2018; Rudman og
Gustavsson, 2012).
Í þverskurðarrannsókn meðal liðlega 600 nemenda í hjúkrunarfræði í upphafi COVID-19
faraldursins (Aslan og Pekince, 2020) kom fram að aldur, kyn, fréttaáhorf, hræðsla við smit
og útgöngubann spáðu saman fyrir um streitustig. Í erlendri viðtalsrannsókn (Luberto o.fl.,
2020) hafa nemendur í heilbrigðisvísindum, þar með talið nemendur í hjúkrunarfræði, lýst
áhyggjum af heilsufari annarra, svo sem fjölskyldu, skjólstæðinga og samstarfsfólks og
óttuðust nemendur að vera smitberar COVID-19. Enn fremur höfðu nemendur áhyggjur af
andlegri líðan fólks almennt, félagslegri einangrun sjúklinga og óvissu (Casafont o.fl., 2021).
Þá sýndi rannsókn frá Filippseyjum að rúmlega þriðjungur hjúkrunarnemenda upplifði mikla
einmanakennd á tímum COVID-19 (Labrague o.fl., 2021). Nemendur höfðu einnig áhyggjur af
námi og miklum röskunum tengdum náminu (Luberto o.fl., 2020; Casafont o.fl., 2021).
INNGANGUR
HRUND SCH. THORSTEINSSON
Landspítala og Hjúkrunarfræðideild
Háskóla Íslands
JÓHANNA BERNHARÐSDÓTTIR
Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands
og Landspítala
MARGRÉT HRÖNN SVAVARSDÓTTIR
Hjúkrunarfræðideild Háskólans á
Akureyri
ERLA KOLBRÚN SVAVARSDÓTTIR
Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands
og Landspítala
GÍSLI KORT KRISTÓFERSSON
Hjúkrunarfræðideild Háskólans
á Akureyri og Háskóla Íslands, og
Sjúkrahúsinu á Akureyri
HERDÍS SVEINSDÓTTIR
Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands
og Landspítala
BIRNA G. FLYGENRING
Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands
Streita nemenda
í hjúkrunarfræði í
fyrstu bylgju COVID-19:
Þversniðsrannsókn
Ritrýnd grein | Peer review
Höfundar