Gátt - 2013, Side 53
53
F U L L O R Ð I N S F R Æ Ð S L A
G Á T T – Á R S R I T – 2 0 1 3
uppfylltu skilyrði átaksins, tryggð skólavist haustið 2011. Í
upphafi þurfti að skilgreina hvaða nemendur væru þátttak-
endur í átakinu og hverjum ætti að fylgja eftir með auknum
stuðningi innan skólanna, þar sem átakið kvað á um að
skólarnir veittu þessum nemendum viðbótarstuðning til að
sporna gegn brotthvarfi. Umfjöllun hér á eftir takmarkast við
þátttakendur sem stunduðu nám á framhaldsskólastigi, en
auk þess innrituðust nemendur átaksins í nám í framhalds-
fræðslu, frumgreinadeildum og háskólum. Nemendahópur-
inn sem innritaðist í nám á vegum átaksins var fjölbreyttur
og margir deildu þeirri reynslu að eiga að baki námsferla sem
báru með sér að nemendur höfðu glímt við hindranir í námi.
Áhersla var lögð á að nemendahópnum yrði mætt með það
í huga og að leitað yrði leiða til að sporna gegn brotthvarfi.
En brotthvarf er viðurkenndur vandi sem steðjar að íslensku
menntakerfi.
Margar ástæður geta legið að baki brotthvarfi nemenda
úr námi og um er að ræða flókið samspil þátta hverju sinni
sem tengjast nemandanum, fjölskyldu hans, skóla og sam-
félaginu í kring. Almennt er fjallað um brotthvarf sem ferli
og eftir því sem fleiri áhættuþættir eru til staðar hverju sinni
aukast líkur á brotthvarfi nemenda. Samkvæmt Jóni Torfa
Jónassyni og Kristjönu Stellu Blöndal (2002) er brotthvarfs-
hópur skilgreindur sem þeir einstaklingar sem ekki hafa farið
í nám að loknum grunnskóla eða hafa hætt námi í fram-
haldsskóla. Í niðurstöðum rannsóknar þeirra á námsgengi
og afstöðu ’75 árgangsins til náms koma fram mismunandi
ástæður þess að meðlimir árgangsins fóru ekki í framhalds-
skóla eða hættu þar námi. Fjórar algengustu ástæðurnar sem
fólk nefndi voru að þeim leiddist námið, þeim hafi boðist
gott starf, fjárhagsvandræði og heimilisaðstæður. Þetta er
í samræmi við umfjöllun sem birtist í grein Jóns Torfa, Krist-
jönu Stellu og Anna-Christin Tannhauser (2011) en þar er
fjallað um ástæður brotthvarfs á Íslandi út frá þremur sjónar-
hornum, það er skipulagi, skólanum og einstaklingnum. Í
sömu grein er einnig tekinn fyrir samanburður á brotthvarfi
hér á landi við nágrannalönd, með sérstaka áherslu á fram-
haldsskólastigið. Þar sker íslenskt menntakerfi sig úr þar sem
brotthvarf er talsvert meira hérlendis. Hlutfall brotthvarfs
er talsvert hátt meðal beggja kynja og hjá ólíkum aldurs-
hópum. Þegar dregnir eru fram félagslegir þættir brotthvarfs,
þá kemur fram að hlutfall þess er hærra meðal karlmanna
og meðal hópa sem búa við lága fjárhagslega og félagslega
stöðu. Í skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar (2010) Brott-
hvarf úr námi meðal 16–20 ára á Norðurlöndum er fjallað
um að meginástæða brotthvarfs sé lélegur árangur í upphafi
skólagöngu, ásamt skorti á félagsfærni og dræmri þátttöku
í skólalífinu sem getur gert það að verkum að það dragi úr
skuldbindingu nemenda við nám sitt. Því er lagt til að gripið
verði til aðgerða snemma í skólagöngunni, í grunnskólum og
jafnvel leikskólum. Þar er áhersla lögð á mikilvægi þess að
nám verði miðað við forsendur hvers og eins til að sporna
gegn líkum á brotthvarfi. Fjallað er um að á milli 60 og 80%
norrænna nemenda í hverjum árgangi ljúki framhaldsskóla-
námi. Þó svo að þetta sé góður árangur þar sem best lætur,
þá er lögð áhersla á mikilvægi þess að draga úr brotthvarfi
þeirra sem eftir standa. Þegar Norðurlöndin eru borin saman
kemur í ljós að 67% nemenda í Svíþjóð hafa lokið fram-
haldsskólaprófi þegar þeir standa á tvítugu. Í Noregi ljúka að
meðaltali 68% nemenda framhaldsskólanámi. Á Íslandi ljúka
að meðaltali 62% nemenda framhaldsskólanámi 24 ára eða
yngri. Í Danmörku ljúka 85% nemenda framhaldsskólaprófi
innan 25 ára aldurs. Erfitt getur reynst að bera löndin saman,
þar sem skipulag náms er ólíkt og ekki er staðið eins að
útreikningum á brotthvarfi þeirra á milli. Ísland kemur mun
verr út en nágrannaþjóðirnar í þessum samanburði og gildir
þar einu hvaða matsþættir eru bornir saman.
Í skýrslu OECD um Ísland frá árinu 2006, kemur fram að
brotthvarf nemenda í framhaldsskólum sé mikið og mennt-
unarstig landsmanna á aldrinum 25–64 ára sé töluvert
undir meðaltali OECD ríkja. Þar kemur einnig fram að um
þriðjungur árganga hérlendis lýkur ekki námi á framhalds-
skólastigi, og er hlutfallið hærra en í flestum OECD löndum
(OECD, 2006). Vinnuhópur sérfræðinga á vegum OECD tók
að sér að skilgreina styrkleika og veikleika íslenska mennta-
kerfisins þegar kemur að því að sporna gegn brotthvarfi.
Helstu styrkleikarnir voru taldir vera frammistaða íslenskra
grunnskólanema því samkvæmt niðurstöðum PISA könnunar
frá árinu 2009 var frammistaða íslenskra nemenda í lestri
og stærðfræði yfir OECD meðaltali. Þessi niðurstaða gefur
vonir um að nemendur á grunnskólastigi séu vel undirbúnir
þegar þeir fara yfir á framhaldsskólastigið. Næsti styrkleiki
sem nefndur var er að íslensk stjórnvöld fjárfesta í menntun
en Ísland er meðal þeirra OECD landa sem leggja hvað mest
fjármagn í sitt menntakerfi miðað við þjóðarframleiðslu.
Einnig er litið á það sem mikinn styrkleika að menntakerfið
leggur markvissa áherslu á að mæta þörfum nemenda með
jafnrétti til náms að leiðarljósi. Hindranir sem dregnar voru
fram af sérfræðingum OECD eru að hátt hlutfall brotthvarfs-
nema á framhaldsskólastiginu leiðir líkur að því að uppbygg-