Bændablaðið - 11.05.2023, Page 25

Bændablaðið - 11.05.2023, Page 25
25Bændablaðið | Fimmtudagur 11.maí 2023 MENNINGHvað er ... Bokashi? Bokashi er loftfirrt verkun á lífrænu sorpi, laus við lyktarmengun. Með þar til gerðum tunnum, örverum og réttu vinnulagi tekur nokkrar vikur fyrir sorpið að verða að nothæfum lífrænum áburði. Í stuttu máli snýst bokashi um að súrsa matarafganga og annað heimilissorp. Gerjunin sem á sér stað á margt sameiginlegt með verkun á votheyi. Til að nýta þessa aðferð þarf þar til gerðar bokashi tunnur. Þær eru eins og lítill súrheysturn; loftþéttar, með fölskum botni og rými fyrir vökvann sem lekur frá sorpinu. Á botninum er ventill til að tappa af vökvanum eftir þörfum. Uppruni verkunaraðferðarinnar er talinn koma frá Austurlöndum fjær og er orðið dregið úr japönsku. Á því tungumáli þýðir bokashi „gerjað lífrænt efni“. Samanborið við margar aðrar aðferðir við að jarðgera lífrænt sorp, er bokashi nánast lyktarlaus. Einungis kemur óþefur rétt á meðan tunnan er opnuð og þá sérstaklega ef gerjunin hefur misheppnast. Matarafgöngunum er sturtað í tunnuna einu sinni á dag. Jafna þarf hvert lag og þjappa til að minnka aðgengi súrefnis. Gott er að vera með ílát til að safna matarafgöngum yfir daginn og bæta á tunnuna einu sinni á sólarhring. Bokashi mjöli er sáldrað yfir hvert lag, en það er klíð smitað með gerlunum sem koma réttri verkun af stað. Hægt er að nota svo gott sem alla matarafganga sem hráefni í bokashi. Til þess að massinn verði sem þéttastur er rétt að búta niður stórar einingar. Ekki er mælt með að setja mikinn vökva, olíu og maíspoka. Matvæli sem eru mjög mygluð geta jafnframt spillt verkuninni. Með tímanum lekur vökvi í gegnum sigtið í botninum. Safinn inniheldur mikið köfnunarefni og er hægt að nýta hann til þriggja hluta, eða skola í niðurfall. Í fyrsta lagi er hægt að þynna hann út og nota sem áburð. Hlutföllin eru einn hluti safa á móti eitt til tvö hundruð hlutum af vatni. Í öðru lagi er hægt að taka vökvann óþynntan og drepa með honum illgresi. Í þriðja lagi er hægt að setja vökvann óþynntan í niðurfall og losa stíflur. Þegar tunnan er full er hún tekin til hliðar og matarafgöngunum gefinn tími til að súrsast í tvær vikur við stofuhita. Á meðan þarf að hafa aðra tunnu til taks og fylla á meðan sú fyrri fær að bíða. Að gerjunartímanum liðnum er hægt að taka sorpið og setja í moltutunnu eða grafa í beð og þekja með mold. Þar brotnar hráefnið niður á skömmum tíma og nýtist sem lífrænn áburður í garðrækt. Tilraunir hafa verið gerðar hér á landi við að verka lífrænan úrgang sem fellur til í búskap sem áburð á tún. Þá er honum safnað í stæður utandyra, sem lokað er fyrir með plastdúk – svipað og við verkun heys í útistæður. /ÁL Dæmi um lífræna matarafganga í bokashi-tunnu. Alþjóðlegi safnadagurinn er vel þekktur, en tæplega 40 þúsund söfn víðs vegar um heiminn halda hann hátíðlegan ár hvert. Þennan dag fylgja söfnin þema er Alþjóðlega Safnaráðið (ICOM - International Council of Museums) boðar ár hvert. Nú í ár er þemað „Museums, Sustainability and Well-being“ – eða Söfn, sjálfbærni og vellíðan, og endurspeglar hversu mikilvægt hlutverk safna er, þegar kemur að málefnum sem varða sjálfbæra þróun og vellíðan fólks. Eru forsvarsmenn safna í einstakri stöðu til þess að koma jákvæðum breytingum til leiðar, auka almenna þekkingu og vinna gegn fordómum – t.a.m. með miðlun, rannsóknum og fræðslu, sem allt eru mikilvægir þættir í starfi safna. Sjálfbærni og umhverfismál hafa gjarnan verið Íslendingum ofarlega í huga og hafa fjölmörg söfn hérlendis fjallað um slík málefni gegnum tíðina, staðið fyrir sýningum, rannsóknum og fræðslu, sem tengjast sjálfbærni og hvernig má taka umhverfisvæn skref í nærsamfélaginu. Eins og gestir vita er aragrúi af sýningum og fræðslu á söfnum sem eru ætluð til uppljómunar jafnt sem skemmtunar. Í mörgum tilfellum er fjallað um fortíðina þar sem viðfangsefni samtímans og jafnvel framtíðar eru oft sett í samhengi – þá ekki síst er kemur að sjálfbærni fyrri ára sem við í dag gætum tekið upp og tileinkað okkur. Þá hafa mörg söfn staðið fyrir viðburðum fyrir fjölbreytta hópa fólks, sem er mikilvægt til að vinna gegn félagslegri einangrun og bæta andlega heilsu. Safnadagurinn á Íslandi er haldinn af Íslandsdeild ICOM og FÍSOS (Félagi íslenskra safna og safnmanna). Við hvetjum ykkur eindregið til að halda upp á daginn með því að heimsækja safn! Alþjóðlegi safnadagurinn Farskóla safnmanna 2022. Mynd / Hörður Geirsson.

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.