Bændablaðið - 06.07.2023, Blaðsíða 20
20 Bændablaðið | Fimmtudagur 6. júlí 2023
Skógrækt á Íslandi stendur að
sumu leyti á krossgötum vegna
breytinga á loftslagi. Landið er
samkvæmt veðurfarslíkönum
mögulega að færast úr barrtrjáabelti
í laufskógabelti á svo sem eins og
hundrað árum og það gefur ýmsa
möguleika á nýjum trjátegundum með
fjölbreyttari nýtingarmöguleikum.
Þó gæti þetta orðið þveröfugt og
landið kólnað, um það er torvelt að
segja og byggist á hvort hringrás
Atlantshafsins, Golfstraumurinn
og suðurkvísl hans AMOC, hægi
verulega á sér og jafnvel stöðvist
á komandi tímum. Þá yrðu fjórar
megintegundir Íslands: greni, fura,
lerki og ösp, áfram framverðir okkar
á sviði skógræktar, í það minnsta um
hríð. Mikil óvissa er um þetta allt
saman og þarf því skógræktarfólk,
sem ævinlega horfir til langs tíma,
að undirbúa að brugðið geti hér til
beggja vona.
Skógar þurfa að vera fjölbreyttir
til að þola loftslagsbreytingarnar
„Það sem mestu máli skiptir í dag
er að auka skógrækt mikið í þágu
kolefnisbindingar,“ segir Þröstur
Eysteinsson skógræktarstjóri. „Þeir
skógar þurfa auk þess að þola þær
loftslagsbreytingar sem fram undan
eru. Þeir þurfa að vera fjölbreyttir.
Okkar „náttúrulega einrækt“, birki-
skógarnir, hafa ekki meira þanþol
en einhæfir skógar annarra tegunda.
Þess vegna þurfum við að nota
þær tegundir í skógrækt sem hvað
besta aðlögun sýna hverju sinni.
Til að vita hvaða tegundir það eru
er nauðsynlegt að stunda öflugar
rannsóknir, en ekki t.d. byggja
á kreddum um innlendar versus
innfluttar tegundir eða hugmyndum
um að endurheimta það sem var
fyrir landnám. Við þurfum að horfa
til framtíðar en ekki fortíðar,“
segir Þröstur. Að koma upp skógum
segir Hlynur Gauti Sigurðsson,
sérfræðingur Búgreinadeildar
skógarbænda hjá Bændasamtökum
Íslands, vera efst á baugi en einnig
fræðslu og skipulagsmál.
„Við þurfum að efla skilning á
hvað skógrækt er og hvernig skógar
haga sér, af hverju þeir eru mikilvægir
hér en ekki þar,“ segir hann. Stórefla
þurfi fræðslu um skógrækt, meðal
annars í skólum. „Til að búa til
auðlind verðum við að byrja strax.
Nytjar af skógrækt eru margvíslegar,
en augljósast er þó líklega skjólið;
skjólbelti og skjólskógar ættu því
að vera forgangsatriði. Skógrækt
byggir alltaf upp jarðveginn,
hún er fyrsta aðgerð í loftslags-
málum og í sjálfbærni þjóðar.
Grunnurinn að sjálfbærni er skóg-
rækt og þetta vita skógarmenn og
áreiðanlega bændur líka.“
Mikilvægustu markmið skógræktar
á Íslandi eru landgræðsla, endur-
heimt skógarþekju og sjálfbær nytja
skógrækt sem minnkar innflutning
á timburafurðum segir Sigríður
Hrefna Pálsdóttir, skógræktarráðgjafi
hjá Skógræktinni og formaður
Skógræktarfélags Eyjafjarðar. Brýnt
sé einnig að koma upp skjóli fyrir
gróður, menn og dýr og lengja þannig
tíma og möguleika fólks til að stunda
útivist og hreyfingu. „Mikil tækifæri
eru í að rækta skjólbelti við akra og tún.
Það eykur uppskeru og ver bústofn
fyrir vondum veðrum. Þetta er löngu
vitað en lítið notað og mikil tækifæri
þar, sérstaklega þar sem stjórnvöld
vilja efla kornrækt í landinu,“
segir Sigríður.
Vitaskuld eru ekki allir sammála
þessum áherslum skógræktarfólks.
Birgir Arason, bóndi í Gullbrekku
og formaður Búnaðarsambands
Eyjafjarðar, telur til dæmis að samspil
landbúnaðar og skógræktar eigi að
vera þannig að landbúnaður hafi
alltaf forgang að landi til ræktunar
og beitar vegna matvælaframleiðslu.
„Skógrækt á að vera skipulags-
skyld, helst að fara í grenndar-
kynningu og að sjálfsögðu að vera
afgirt,“ segir hann.
Skipulagsmál hamli skógrækt
Brynjólfur Jónsson, framkvæmda-
stjóri Skógræktarfélags Íslands, segist
ekki líta á skipulagsmál sveitarfélaga
sem hindrun eins og málum sé nú
fyrir komið.
„Skógrækt er skipulagsskyld og
töluverð vinna og kostnaður er fólginn
í því að afla framkvæmdaleyfa auk
þess sem það tekur oft töluverðan
tíma.“ Hann leggur áherslu á að ekki
megi leggja frekari eða ríkari kröfur
á landeigendur en orðið er. „Slíkt
dregur úr vilja og getu landeigenda
til að efla og auka skógrækt.
Skógrækt er lífsnauðsynleg fyrir
land og þjóð,“ segir hann.
Samkvæmt Hlyni er þó einn
helsti ásteytingarsteinn í skógrækt
skipulagsmál. Ganga megi svo
langt að segja að þau haldi íslenskri
skógrækt í gíslingu og góðu
uppbyggingarstarfi fyrir sjálfbærni
niðri. Ótrúlega flókið geti verið
að koma skógræktarverkefnum í
gegnum skipulagsferli og hreinlega
letjandi fyrir margan.
„Mín tilfinning er að allir
vilji vel, sveitarfélög; starfsmenn
þeirra og kosnir fulltrúar,“ segir
hann. „En skipulagsmálin eru
skógrækt óþægur ljár í þúfu. Oftar
en ekki er allt tilbúið til að hefja
skógræktarverkefni og svo stoppar
það á skipulagsmálunum. Þetta
ferli er svo tímafrekt og trén bíða
á meðan.
FRÉTTASKÝRING
Skógrækt:
Miklar breytingar í vændum
– Líffræðilegur fjölbreytileiki virðist vera lykillinn að því að íslenskir skógar standi loftslagsbreytingar af sér
Er miklu meiri skógrækt á Íslandi mál málanna? Eða er of hratt farið?
Skógrækt til kolefnisbindingar er sögð brýnust, einnig til landbóta og
skjóls og sömuleiðis talið áríðandi að létta á skipulagsferlum innan
sveitarfélaganna svo ný skógræktarverkefni komist hraðar á legg. Þá
þurfi að herða mjög á plöntuframleiðslu og efla fræðslu.
Steinunn Ásmundsdóttir
steinunn@bondi.is
Flokkar skógræktar
Skógrækt er skipt í sjö meginflokka
auk fjölnytjaskógræktar þar sem
markmiðin skarast:
• Borgarskógrækt
• Endurheimt náttúruskóga
• Landgræðsluskógrækt
• Nytjaskógrækt: timburskógrækt /
jólatrjáaskógrækt
• Skjólbeltarækt
• Útivistarskógrækt
• Kolefnisskógrækt
• Fjölnytjaskógrækt
Trjáfelling með nútímaaðferðum. Hér ræður skilvirknin
ríkjum og slysahætta er minni.
Skógar eru unaðsreitir og sálinni hollir. Þór Þorfinnsson, skógarvörður á
Hallormsstað, fræðir almenning um sögu skógarins. Mynd / SÁ
Suzuki á Íslandi
Skeifunni 17
Sími 568 5100
www. suzuki.isNánari upplýsingar á suzuki.is
ÖFLUGIR
UTANBORÐSMÓTORAR
FRÁ SUZUKI
Það liggur þrotlaus ransóknar- og prófunarvinna
á bakvið utanborðsmótora Suzuki sem skilar sér
í krafti, sparneytni, áreiðanleika og endingu.
Komdu við og kynntu þer úrvalið og möguleikana.
Við tökum vel á móti þér
Birgir Arason.Sigríður Hrefna
Pálsdóttir.
Hlynur Gauti
Sigurðsson.
Þröstur Eysteinsson.Brynjólfur Jónsson.
Trjáfelling með hefðbundnari og eldri aðferðum. Veldur
hver á (söginni) heldur. Myndir / Skógræktin