Bændablaðið - 06.07.2023, Page 26

Bændablaðið - 06.07.2023, Page 26
26 Bændablaðið | Fimmtudagur 6. júlí 2023 LÍF&STARF Hannaði vagna í frístundum – Jóhann Björnsson sá að vantaði endurnýjun á þungaflutningavögnum Jóhann Björnsson vélaverk- fræðingur, hefur endurvakið íslenska hönnun á vélavögnum, undir merkjum Mecho ehf. Vélsmiðja Sigurðar framleiddi vélaflutningavagna um árabil, sem verktakar voru ánægðir með. Eftir að sú framleiðsla lagðist af, sá Jóhann ákveðið tómarúm, sem hann hefur fyllt með endurbættri útgáfu – byggðri á eldri vögnunum. „Ég er búinn að vinna í mörg ár sem vélahönnuður. Svo kemur þetta sem hobbí. Í staðinn fyrir að sitja heima fyrir framan sjónvarpið, þá fer ég að gera þetta,“ segir Jóhann. Hans aðalstarf er að hanna vélar fyrir norska olíuiðnaðinn og hefur hann búið erlendis frá árinu 2000. Jóhann segist hafa nokkur tengsl við verktakabransann. Hann skynjaði að þar væri áhugi fyrir endurkomu vagna af þessu tagi. Aðspurður hver helsti munurinn sé á þessum vögnum, samanborið við það sem framleitt er fyrir erlenda markaði, segir Jóhann það meðal annars felast í stærri hjólbörðum og aukinni veghæð. „Íslendingarnir vilja hafa þetta á háum hjólum,“ segir hann. Smíðað í Tyrklandi Jóhann vill ekki eigna sér allan heiðurinn af hönnun þessara vagna, heldur eru þeir byggðir á hugmynd Vélsmiðju Sigurðar. Hann var ekki með aðgang að upphaflegu teikningunum, en skoðaði vagn frá þeim til að fá helstu málin. Þá teiknaði hann vagnana í fullkomnu tölvuforriti, sem gaf honum færi á að burðarþolsmæla hönnunina og betrumbæta þar sem þurfti. Jóhann veit ekki hversu mörg eintök voru framleidd af vögnum í Vélsmiðju Sigurðar. „Það var dálítill fjöldi. Nú eru þeir orðnir það gamlir að það er farið að koma að endurnýjun á suma þeirra.“ Tyrkneskur vagnaframleiðandi smíðar vagnana eftir teikningum Jóhanns. Fyrstu þrír vagnarnir komu til landsins haustið 2021 og hefur Jóhann fengið jákvæð viðbrögð. Í lok sumars verða samtals sex vagnar komnir til landsins. Laushálsavagnar nýjung Fljótlega sá hann möguleika á að endurbæta hönnunina enn frekar og hannaði svokallaða laushálsavagna, sem er hægt að keyra upp á bæði að framan og aftan. Þegar framparturinn er tekinn af, þá er mun minni halli sem vélarnar þurfa að keyra upp. Það hentar sérstaklega vel til að flytja hörpur, brjóta og aðrar vélar sem ráða illa við að aka upp brattar sliskjurnar að aftan. Þetta segir Jóhann að sé ný nálgun, sem hann hefur hvergi séð annars staðar. Jóhann segir burðargetu vagnanna yfirleitt takmarkast af öxulþunga á hverjum stað. Laushálsavagnarnir eru 17 tonn og er Jóhann búinn að reikna út að þeir þoli að flytja 67 tonna farm. Þungaflutningar sem þessir eru alltaf háðir undanþágu hjá Samgöngustofu, þar sem almenn hámarksþyngd vöruflutningabíla er 40 tonn. Enn fremur eru vagnarnir þrír metrar á breidd, sem er breiðara en hefðbundnir vöruflutningavagnar. „Þetta eru vagnar sem eru bara til þess að flytja þungar vélar og eru alltaf á undanþágu. Ég er að sigta inn á markaðinn með þessa þungaflutninga.“ Fimm öxlar eru undir vögnunum og eru fjögur hjól á hverjum. Öftustu öxlarnir eru svokallaðir eltiöxlar, sem fylgja með í beygjum. Vagnarnir eru með loftpúðafjöðrun og er hægt að lyfta upp öxlum þegar hann er ekinn án farms. Erfitt að gefa nákvæmt verð Jóhann vill fara mjög varlega í að gefa upp nákvæmt verð á svona vagni í blaðaviðtali, en kaupendur þurfa að fá tilboð hjá honum fyrir hverja sölu. Það skýrist að miklu leyti af því að stjórnvöld í Tyrklandi hafa misst stjórn á verðbólgunni og framleiðandinn gefur Jóhanni einungis tilboð sem gildir í nokkrar vikur. Hann býst við að vagnarnir kosti á bilinu 14–17 milljónir án vsk í dag. „Þetta er nú bara aukavinnan mín, þannig að ég hef mjög hóflega álagningu. Mér finnst gaman að gera eitthvað sem tengist Íslandi og held þá smá tengslum við landið og legg mitt af mörkum til að skapa eitthvað sem kemur sér vel fyrir landann,“ segir Jóhann. /ÁL Vagnarnir frá Mecho ehf. eru sambærilegir vögnum sem framleiddir voru af Vélsmiðju Sigurðar á árum áður. Myndir / Aðsendar Jóhann Björnsson vélaverkfræðingur er uppalinn á Skriðufelli í Þjórsárdal. Hann sá að komið væri að endur- nýjun á vögnum sem smíðaðir eru eftir íslensku lagi. Laushálsavagninn er nýjung. Hægt er að taka frampartinn af og keyra vinnuvélar upp að framan og aftan. YLEININGAR Léttar stálklæddar samlokueiningar sem fást með þéttifrauðs- eða steinullarkjarna. Auðveld og fljót uppsetning, auðveld þrif, mikil burðargeta, mikið einangrunargildi og er ódýr kostur ef miðað er við hefðbundnar lausnir. Henta vel fyrir eldri gripahús þar sem skipta þarf út þak- og eða veggjaklæðningum. Hafðu samband: bondi@byko.is

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.