Bændablaðið - 06.07.2023, Síða 54
54 Bændablaðið | Fimmtudagur 6. júlí 2023
Bændablaðið fékk til prufu nýja
útfærslu af Volkswagen ID.3.
Þessir bílar voru fyrst kynntir
til sögunnar í lok árs 2019, en á
síðustu vikum kom endurbætt
útgáfa á markaðinn.
Helstu keppinautar ID.3 eru til
að mynda Tesla 3, Kia Niro EV
og Nissan Leaf. Bíllinn í þessum
prufuakstri var í Life útfærslu, sem
er ódýrari týpan af þeim tveimur sem
Hekla flytur inn.
Fljótt á litið virðist þessi nýi
bíll vera nákvæmlega eins og
fyrirrennarinn, enda eru breytingarnar
smávægilegar. Skýrasta einkennið að
utan felst í húddinu – áður var það
með svartan kraga beint í kjölfarið af
framrúðunni, en nú er það ein samlit
plata. Enn fremur eru smávægilegar
breytingar á framljósum og
loftinntökum í framstuðara. Ef þú
ert ekki bílanörd, þá fer þetta líklegast
framhjá þér.
Að innan eru breytingarnar meiri,
en upprunalegi ID.3 varð fyrir
mikilli gagnrýni, þar sem notast
var við ódýr efni og stýrikerfið í
margmiðlunarkerfinu vakti litla
lukku. Nú má hins vegar segja
að allt sem umlykur ökumann og
farþega sé einhvern veginn mátulegt.
Mælaborðið er með mjúkum efnum,
klæðningin á sætunum er þykk og
stýrishjólið er þægilegt viðkomu.
Takkalaus
Raunverulegir hnappar eru varla
til staðar, heldur er öllu stjórnað
í gegnum margmiðlunarskjáinn,
eða með snertitökkum, eins og á
keramíkhellum. Volkswagen hefur
fengið verðskuldaða gagnrýni fyrir
að fjarlægja alla hnappa, enda
þarf oft að beina óþarflega mikilli
athygli frá akstrinum, til þess eins að
stilla hitann.
Skamman tíma tekur þó að venjast
öllum grunnaðgerðum, enda er
stýrikerfið vel úthugsað og einfalt.
Volkswagen virðist hafa náð flestum
vanköntum úr tölvukerfinu, en þó
virtist einhver smávægilegur draugur
gera vart við sig í örfá skipti í þessum
prufuakstri.
Notaleg sæti
Sætin eru með vönduðum svampi og
vel formuð. Tauáklæðið ber með sér
að vera úr þykku og vönduðu efni,
sem er þægilegt viðkomu.
Þar sem Life útgáfan er ódýrari
týpan, þá er ekkert rafmagn í
sætunum. Sætin eru ekki með
stillanlegum mjóbaksstuðningi, sem
er kannski stórvægilegasta atriðið
sem vantar í þessari útfærslu. Í
dýrari týpunni, sem heitir Style, er
mjóbaksstuðningur staðalbúnaður.
Bæði framsætin fá sinn arm-
púðann hvort, sem er fljótlegt að
stilla. Jafnframt er mikið rými á alla
vegu og geta hávaxnir teygt úr fótum
og höfði. Miklir stillimöguleikar eru í
stýrinu og því líklegt að nær allir nái
að koma sér vel fyrir.
Fyrir aftursætisfarþega er ríkulegt
fótapláss, en hárgreiðslan á þeim allra
hæstu er líkleg til að spillast við að
strjúkast við þakið. Því hefur verið
fleygt fram að innrarýmið í þessum
bíl sé á pari við Passat, á meðan ytri
málin séu svipuð og hjá Golf.
Pláss fyrir dót
ID.3 er uppfullur af geymsluplássi.
Á milli sætanna er stór geymsla
og í öllum hurðunum eru stórir
hurðavasar. Sjálft hanskahólfið er
ekki nema meðalstórt. Skottið er
álíka stórt og í flestum fólksbílum
í þessum stærðarflokki. Það er
með stillanlegu gólfi, en þegar
það er í hærri stöðunni flúttir það
næstum við skotthlerann og undir
því leynist mátulegt pláss fyrir
hleðslusnúrur.
Þegar aftursætin eru lögð niður
flútta þau við skottgólfið, en eru í
nokkrum halla. Á milli þeirra er
lúga sem hægt er að stinga skíðum
og öðrum löngum farmi í gegn.
Akstur mínímalískur
Það að hefja bílferð á ID.3 er eins
einfalt og hægt er. Ef ökumaðurinn
er með lykilinn í vasanum, þá gerist
flest sjálfkrafa. Með lyklalausu
aðgengi er hægt að taka úr lás með
því einu að taka í hurðarhúninn. Svo
þarf ekki að ýta á neinn takka til
að ræsa bifreiðina, heldur fer hún í
gang þegar stigið er á hemlafetilinn.
Í lok ferðar slekkur bíllinn á
öllu um leið og hann skynjar að
ökumaðurinn er stiginn úr sætinu.
Þegar allt er komið í gang, þá
þarf rétt að snúa gírskiptinum, sem
er bakvið stýrið – rétt ofan við
arminn sem stýrir rúðuþurrkunni.
Það er ótrúlegt hversu fornir aðrir
bílar virðast í samanburði við
þennan einfaldleika.
Lipur og snarpur
Í innanbæjarakstri heyrist ekkert
veg- og vindhljóð, en á þjóðvega-
hraða berst inn nokkuð veghljóð,
sem bergmálar inni í bílnum.
Bíllinn er með snöggt viðbragð
og fljótur að ná hraða – þó ekki
það kraftmikill að hnakkinn skelli
í höfuðpúðann.
Hann er afar léttur í stýri og er
hægt að leggja það mikið á hann
að mögulegt er að snúa við í einni
bunu á betri þjóðvegum. Fjöðrunin
er nokkuð mjúk, miðað við það sem
oft er í rafmagnsbílum. Rúðurnar
eru stórar og eru gluggapóstarnir á
milli þeirra sérlega mjóir. Blindir
punktar eru því í lágmarki.
Skynvæddi hraðastillirinn er
eins og hugur manns. Ólíkt mörgum
öðrum bílum, þá er akstursaðstoðin
í þessum bíl ekki stressuð. Hann
hemlar ekki óþægilega snöggt,
heldur gerist allt yfirvegað. ID.3
virðist vita af yfirvofandi kröppum
beygjum, og hægir hraðastillirinn
sjálfkrafa á sér, án innkomu
ökumannsins. Akreinavarinn tekur
ljúflega í stýrið þegar ökumaðurinn
sveigir af beinni braut.
Að lokum
ID.3 kemur með 58 kílóvattsstunda
rafhlöðu. Uppgefin drægni er allt að
425 kílómetrar, en raundrægni er á
bilinu 350 til 400 kílómetrar. Hleðslan
í þessum bíl er vel nothæf, en í þessum
prufuakstri var keyrt um borgina þvera
og endilanga yfir helgi og skutlast á
Keflavíkurflugvöll og batteríið var
rétt hálfnað.
Eins og áður segir, býður Hekla
ID.3 í tveimur útfærslum. Life, ódýrari
týpan, er með allt sem þig raunverulega
vantar – fyrir utan mjóbaksstuðning.
ID.3 Life er á 6.090.000 krónur án
vsk., sem má teljast gott verð, enda um
vandaða bifreið að ræða og fáir gallar
sem hægt er að benda á. Kaupendur
þurfa þó að glíma við þá úlfakreppu
að ódýrasta útgáfan af Tesla Model
3, sem er betur búin og með lengri
drægni, er á næstum sama verði.
VÉLABÁSINN
Ástvaldur Lárusson
astvaldur@bondi.is
– Prufuakstur á nýjum Volkswagen ID.3
Sérð þú muninn á þessum og eldri týpunni? Að utan er helst hægt að benda á brotthvarf svarta kragans efst á húddinu og breytt loftinntök á stuðara. Myndir / ÁL
Volkswagen hefur ráðið bætur á ýmsum vanköntum innandyra. Þar er helst
að nefna fínpússað stýrikerfi í margmiðlunarskjánum.
Volkswagen ID.3 kemur vel út í ólífugrænum lit.
Skottið er á pari við flesta fólksbíla í þessum stærðarflokki. Barnabílstólar eða stórt fólk mun rúmast vel í aftursætunum.