Bændablaðið - 24.08.2023, Side 54

Bændablaðið - 24.08.2023, Side 54
54 Bændablaðið | Fimmtudagur 24. ágúst 2023 GARÐYRKJA Það halda eflaust margir að það þurfi lítið eða ekkert að viðhalda hellulögnum. Nú á dögum eru nánast allir með einhvers konar hellulögn í garðinum hjá sér. Ef það er ekki göngustígur á bak við hús þá er hellulagt bílastæði fyrir framan. Með tímanum þá verða hellulagnir svolítið sjúskaðar. Það byrjar að vaxa illgresi og mosi inn á milli hellnanna sem fljótt kemur niður á útliti svæðisins. Hreinsa vel öðru hvoru á milli hellnanna Þegar verið er að ganga frá hellulögn er endað á því að setja fínan pússningasand á milli hellnanna. Hann rennur niður á milli og gerir hellulögnina stöðuga og bindur hana saman. Eftir nokkurra ára notkun fer efsta lagið af þessum fína sandi að safna í sig ýmiss konar lífrænum óhreinindum og illgresisfræi sem getur fest þar rætur. Ef illgresi byrjar að vaxa í raufunum er best að fá sér járnsköfu, sem fæst í flestum garðyrkjutengdum verslunum, og skafa upp úr raufunum. Þá skefur maður upp illgresið með rótum og skrapar burt mosa og öðrum gróðri. Þetta er mikil handavinna og getur tekið nokkurn tíma á stórum hellulögðum svæðum. Háþrýstidæla getur skilað góðu verki Ef þolinmæðin er ekki fyrir hendi til að skafa illgresið í burtu þá er oft hægt að notast við nokkrar aðrar aðferðir líka. Þar ber fyrst að nefna háþrýstidæluna sem hægt er að nota til að spúla upp úr raufunum og ná jarðveginum og gróðrinum úr yfirborðinu. Þetta virkar í flestum tilfellum ef illgresið er ekki orðið mjög rótfast eða háþrýstidælan þeim mun öflugri. Gæta þarf þess að háþrýstiþvotturinn sé ekki svo öflugur að allt efni hreinsist upp úr fúgunum svo ekki verði skaði á undirlaginu undir hellulögninni. Háþrýstiþvottur getur líka skilið eftir sig rákir á hellulögninni sé gengið mjög hart fram. Ef hellurnar eru með gróft yfirborð og hellulögnin er í miklum skugga og ef til vill raka líka, er hætta á að skófir og mosi nái fótfestu í hellunum. Ef þær ná sér á strik getur reynst mjög erfitt að ná þeim af. Það er best að grípa inn í um leið og þetta fer að sjást og skrúbba hellulögnina vel með grófum kústi og spúla svo á eftir. Garðaundri er vistvænt efni sem hefur reynst ágætlega í baráttunni við mosann. Honum er úðað yfir hellulögnina áður en hreinsun fer fram til þess að ná öllum óhreinindum auðveldar af. Þetta gæti þurft að gera reglulega til að halda skófunum í burtu. Enn þá öflugri græjur Fyrir þá græjuóðu eru einnig til sérstakar vélar með vírburstum sem eru ætlaðar til þess að hreinsa hellulagnir. Það er kannski ekki tæki sem hinn týpíski garðeigandi á í bílskúrnum en þessi tæki er hægt að leigja hjá tækjaleigum í verkefni af þessu tagi. Hellusóparnir eru búnir vírburstum sem sópa upp úr fúgunum en þó án þess að mikið efni fari upp úr þeim. Á mjög illa förnum svæðum er hætt við að rótin af illgresinu verði eftir í fúgunum og því nauðsynlegt að nota hellusópinn til þess að halda hellulögninni hreinni. Sumum hefur komið í hug að brenna burt illgresi sem hefur safnast í hellulögnina með gasbrennara. Sú aðferð virkar aðeins í stuttan tíma og nær ekki alltaf að drepa rótarkerfi plantnanna, auk þess sem lífræna efnið situr í fúgunni eftir sem áður. Fúgusandur Hver þessara aðferða sem verður fyrir valinu þá er eitt mikilvægasta verkið sem þarf að framkvæma að sópa yfir nýhreinsuðu hellulagnirnar með pússningasandi um leið og hreinsun er lokið. Fúgurnar (raufarnar milli hellnanna) eiga alltaf að vera fullar af sandi til þess að tryggja endingu hellulagnarinnar og til þess að helluhreinsunin sé ekki erfiðari næst þegar að henni kemur. Ágætt er að eiga í handraðanum pakka af fínum pússningasandi. Ef baráttan verður of hörð. Ágústa Erlingsdóttir, Ingólfur Guðnason, Garðyrkjuskólanum Reykjum/FSu Viðhald á hellulögnum Fyrir þá græjuóðu eru einnig til sérstakar vélar með vírburstum sem eru ætlaðar til þess að hreinsa hellulagnir. Ingólfur Guðnason. Ágústa Erlingsdóttir. Hætta er á að skófir og mosi yfir- taki raufar á milli hellnanna ef þær hafa gróft yfirbragð eða eru í miklum skugga/raka. RÁÐGJAFARMIÐSTÖÐ LANDBÚNAÐARINS Hey- og jarðvegssýni: Mikilvægar forsendur í búskapnum Vel er liðið á sumarið sem hefur verið einstaklega fjölbreytt veðurfarslega bæði milli og innan landshluta. Kuldi, væta og þurrkar hafa gert bændum erfitt fyrir á mismunandi árstíðum. Í þurrkatíð fara grösin að leggja megináherslu á að koma upp punti og því verður blaðvöxtur minni. Grösin „trénast“ fyrr og verður oftar en ekki hærra hlutfall af tréninu ómeltanlegt. Veðráttan hefur því mjög mikil áhrif á heygæðin og þegar veðráttan er frábrugðin því sem við eigum að venjast er enn mikilvægara að huga að heyefnagreiningum. Öll okkar framleiðsla, hvort sem það er mjólk eða kjöt, byggir að megninu til á heyinu sem aflað er og því mikilvægt að vita hvaða fóðurgildi og steinefni við höfum í höndunum. Heyefnagreiningar geta nýst bæði í fóður- og áburðaráætlanagerð. Mikilvægt er að taka sýni sem endurspegla heyforðann sem nota á yfir veturinn. Hægt er að taka safnsýni af mismunandi spildum sem voru slegnar á sama tíma og eru svipaðar í ræktun. Gott er að taka sýni úr hánni og grænfóðri ef slíkt er til. Ef tekið er verkað sýni þá þarf gróffóðrið að vera búið að verkast í 4–6 vikur áður en sýnið er tekið. Eigi að senda hirðingasýni til greiningar er gott að miða við að stærð þeirra sé um það bil einn handbolti á stærð. Vert er að nefna að ekki er hægt að nota niðurstöður heysýna við áburðaráætlanagerð ef ekki er hægt að tengja þau við einstaka spildur og þar með ræktunarsögu þeirra. Jarðvegssýni Mjög mikilvægt er að taka reglulega jarðvegssýni til að fá upplýsingar um sýrustig (pH) og næringarefni í jarðveg. Þær upplýsingar eru mjög gagnlegar þegar kemur að áburðaráætlun auk þess sem pH í jarðvegi er lykilþáttur þegar kemur að allri ræktun. Ein nýjung í jarðefnagreiningum í ár er svokallað glæðitap en með því má meta lífrænan hluta jarðvegsins sem er bæði góður mælikvarði fyrir frjósemi jarðvegsins og má með þessum upplýsingum áætla magn köfnunarefnis í jarðveginum sem hefur hingað til ekki verið mælt vegna mikils kostnaðar við slíkar greiningar eins og farið var yfir í grein í síðasta tölublaði Bændablaðsins. Mikilvægt er að vera ekki búinn að bera skít á spildur sem stefnt er á að taka jarðvegssýni úr. Best er að huga að jarðvegs- sýnatöku úr spildum fram í tímann þannig að einhver heildarmynd náist af spildum í ræktun. Ef spildur haga sér eitthvað afbrigðilega er kjörið að taka sýni úr þeim til að leita skýringa og eins ef endurvinna á spildu er kjörið að vita stöðuna á þeim spildum til að auka líkurnar á vel heppnaðri endurræktun. RML býður upp á jarðvegs- og heysýnatöku að vanda og hægt er panta sýnatöku og ráðgjöf á heimasíðu RML (hnappur á forsíðu). Við hvetjum bændur til að panta tímanlega til að hægt sé að skipuleggja sýnatökudagana. Ef vakna einhverjar spurningar er um að gera að hafa samband við RML fyrir nánari upplýsingar. Undirritaður að taka sýni inn í kjarna rúllu. Jarðvegssýnabor og jarðvegstappar. Baldur Örn Samúelsson ráðunautur í fóðrun baldur@rml.is

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.