Goðasteinn - 01.06.1975, Side 84
högga mill.i, því að þegar á næsta ári var með konungsbréfi lagður
niður biskupsstóll og skóli á Hólum í Hjaltadal og ákveðið að
framvegis skyldi aðeins vera einn biskupsstóli og einn latínuskóli
í Reykjavík fyrir allt landið.
Er Alþingi var lagt niður, hafði það staðið í 870 ár, Skálholts-
stóll í 729 ár og Hólastóll í 695 ár. Það segir sig sjálft að afnám
þessara fornu stofnana, sem höfðu verið um aldir svo snar þáttur
í öllu þjóðl/fi íslendinga, hlaut að vera gífurlegt áfall. Má raunar
segja að með slíkum aðgerðum væri verið að þurrka út sérstakt
þjóðlíf og menningu í landinu, svo að þar stæði vart eftir steinn
yfir steini.
En tilveru íslenskrar þjóðar var samt ekki lokið, þótt fornar
stofnanir féllu og hvers kyns náttúruhamfarir og harðrétti dyndu
yfir landsmenn. Mitt í rústum eymdar, ánauðar og umkomuleysis
leyndust frækorn, er síðar báru blóm. Svo vildi til að árið, sem
Norðlendingar voru sviptir biskupsstóli sínum og skóla á Hólum,
fæddist sveinbarn norður í Fljótum, er átti eftir að koma við
sögu og vísa þjóð sinni veg til manndóms, þroska og framfara.
Þessi sveinn var Baldvin Einarsson, lögfræðingur, sem í fyllingu
tímans gerðist forystumaður íslenskrar endurreisnar á 19. öld og
fékk furðumiklu áorkað, þótt hann lifði aðeins skamma ævi.
Baldvin Einarsson var fæddur í Fljótum í Skagafjarðarsýslu
hinn 2. ágúst 1801. Foreldrar hans voru Einar Guðmundsson á
Hraunum og Guðrún Pétursdóttir, ættuð úr Svarfaðardal. Var
Einar ágætur búhöldur og gegndi einnig ýmsum opinberum störf-
um. Meðal annars var hann hreppstjóri og umboðsmaður jarða
Reynistaðarklausturs. Dannebrogsmaður varð hann 1841. Baldvin
var elstur sona hjónanna á Hraunum. Þótti hann þegar í æsku
efnilegur og framar jafnöldrum sínum um marga hluti. Snemma
var hann hneigður fyrir bóklestur og las mikið um fermingaraldur,
hvenær sem tómstundir gáfust til. Sagt var að jafnan hefði hann
haft bók um hönd, er hann neytti matar síns. Af eigin ramleik
komst hann snemma niður í reikningi og skrifaði ágætlega. Einnig
lærði hann að lesa dönsku tilsagnarlaust. Snemma var hann mann-
blendinn og framgjarn nokkuð og setti sig ekki úr færi með að
ræða landsins gagn og nauðsynjar. Hann var fjörmaður hinn mesti,
82
Goðasteinn