Ársrit Torfhildar - 01.04.1987, Síða 47
sínum hefur leitt þá til glötunar og því er meðal annars við aö
bæta að biðlarnir í Odysseifskviðu gera sig seka um ofstopa og
farast.
í fullu samræmi við þetta viðhorf er mönnum innrætt virðing
fyrir guðunum; stærsti glæpurinn felst í því að sýna guðunum
ofstopa. Persónur Hómers eru líka sérstaklega guðræknar, þær
depla varla auga án þess að færa þeim dreypifórn. Það virðist
því skjóta skökku við að þegar bregður fyrir gamansemi í kviðum
Hómers er það ekki fyrst og fremst á kostnað "minni manna"
eins og Aristóteles mælti með heldur á kostnað sjálfra guðanna.
Hera og Seifur kíta eins og úrill miðaldra hjón en uppkomin börnin
rífast eins og smákrakkar með hor og klaga svo í pabba þegar
eitthvað bjátar á. Þessi skopfærsla sem og það að ábyrgð í
mannheimum skuli hvíla á guðunum gefur visst tilefni til að túlka
kviðurnar sem ádeilu á guðina. Því má ekki gleyma að þegar
meginefni Ilíonskviðu er rakið í upphafi hennar segir skáldið:
HSvo varö fyrirætlan Seifs framgengt." (II.: 1) í Ilíonskviöu er
hlutskipti mannanna slæmt og það er guðunum að kenna.
Erkifjendur eins og Akkilles og Príamus geta sæst um stundar-
sakir því þeir búa við þetta sammannlega hlutskipti sem Akkilles
talar um: l(Því guðirnir hafa skapað vesölum mönnum það hlutfall,
að þeir skyldu lifa við harma, en sjálfir eru guðirnir sorgarlausir."
(Il.:499) Seifur segir sjálfur: Mekkert er aumara, en maðurinn, af
öllu því, sem á jörðu andar og um jörð skríður." (II.:3 52) Þarna,
rétt eins og í kristinni menningu, rekst hugmyndin um guðlegt
réttlæti á við skipan rnála í heiminum.
Þessi mótsögn milli innrætingar og ádeilu þarf ekki að koma
á óvart ef tekið er tillit til þess hvernig kviðurnar mótuðust. Að
minu viti er frekar reynt að mæla guðunum bót en að fella yfir
þeim einhvern Stóradóm. Slíkur dómur bæri vott um hybris.
Einstakir guðir eru að vissu leyti firrtir ábyrgð, þeir eiga í höggi
hver við annan og lúta þar að auki örlögunum. „Engi skyldi drepa
hendi við þeim veglegu gjöfum, er guðirnir veita manni, því þær
tekur engi af sjálfum sér," segir París við bróður sinn (Il.:55).
Menn verða einfaldlega að sætta sig við hinar.
Þessi sama mótsögn kemur frarn með öðrum hætti þegar
boðskapur kviðanna er skoðaður í tengslum við viðhorf til stríðs
45