Goðasteinn - 01.09.1993, Side 29
og hann vildi framfæra fyrir erkibiskupsins náð.“ Þarna er hvergi
minnzt á trúvillu. Þvert á móti er talað um, að Ögmundur hafi
verið rægður við erkibiskupinn. Eftir þetta getur aldrei neinna
deilna milli þeirra Ögmundar biskups og síra Jóns.
4) Hætt er við, að trúvilla síra Jóns Einarssonar hefði dregið úr
vináttu hans við Jón biskup Arason, sem var ekki síður fastheld-
inn við hinn gamla sið en Ögmundur biskup Pálsson.
5) Minna má á, hve mikið traust Ögmundur biskup sýnir síra
Jóni alla tíð eftir þetta. Hann hefði sennilega verið öllu varkárari,
ef síra Jón hefði gjörzt ber að trúvillu.
6) Loks má geta þess, að víða um lönd, þar sem siðbótin komst
á, er einmitt að finna frásögur af einstökum prestum, sem tóku
að prédika gegn dýrlingadýrkun og helgra manna ákalli róm-
versku kirkjunnar. Slíkar sögur hafa hæglega getað valdið því, að
þessi frásaga um síra Jón myndast eftir siðbót til þess að auka veg
íslenzkra manna í baráttunni fyrir framgangi siðbótarinnar.
Mér sýnist þetta nægja til að sýna, að frásaga síra Jóns Egils-
sonar af kyndilmessuprédikuninni fái ekki staðizt. Deilur síra
Jóns og Ögmundar biskups eru af allt annarri rót, sem söguritara
er sýnilega með öllu ókunnugt um. Því verður að mínum dómi
að telja þessa frásögu tilraun til að skýra þessar deilur, tilraun,
sem styðst við munnmælasögur á þeim tíma, sem þær eru færðar
í letur.
Hitt þarf ekki að vera ótrúlegt, að orðaskipti þau, sem tilgreind
eru um Pál postula, hafi getað átt sér stað rnilli Ögmundar biskups
og einhvers fylgjanda hins nýja siðar, því að þau eru Ögmundi lík.
Samkvæmt þessu verð ég að hafna þeirri frásögu, sem af flest-
um hefur hingað til verið talin til staðreynda, að séra Jón Einars-
son, prestur í Odda, prédiki fyrstur manna á Islandi í anda siðbót-
armanna.
Það er ekki einu sinni hægt að sanna, að síra Jón Einarsson hafi
verið fylgjandi siðbótinni.
VIII
Eins og áður er að vikið, verður ekki annað séð en full vinátta
hafi aftur tekizt með þeim síra Jóni Einarssyni og Ögmundi
Goðasteinn
27