Goðasteinn - 01.09.1993, Síða 41
þess fé hætt við skaða. Bleyturnar voru löstur á landi og fældu
menn frekar en hitt frá búsetu.
Margir kannast við íhlaup fyrir hesta í blautlendi, en þar þótti
eðlilega óvegur. Tóku ferðamenn oft á sig langa króka til að sneiða
hjá bleytunum. Þeirra í stað röktu þeir sig eftir þurrlendinu, þar
sem þess var kostur. Því lágu vegir í Landeyjum víða meðfram
ám og kvíslum, en þurrast var oft á bökkunum, vegna sandáfoks
og framræslu farveganna. Svipað réði því, að þrætt var fram og
aftur yfir Rauðalæk í Holtum og fleiri vatnsföll í þeirri sveit. Eins
og rakið hefur verið hér að framan, þá réðu jarðfræðilegar að-
stæður miklu um það víða, hvort land var þurrt eða ófært fyrir
bleytu. Verstar voru bleyturnar í flatlendum lágsveitunum og á
þéttum berggrunninum í neðanverðum Holtum.
Hér hefur verið drepið á nokkra jarðfræðilega þætti, sem áhrif
hafa haft á landkosti til búsetu. Þessir þættir eru allir tengdir jarð-
vegi eða jarðvatni. Margt fleira mætti telja, svo sem landmótun
eftir berggrunni og jökulsvarfi, áhrif hrauna og öskufalls, önnur
en lektaráhrif, o.s.frv. Áhrifa jarðfræðinnar gætir stundum á
óvæntum sviðum. Gott hellutak þótti mikill landkostur. Hellur
myndast einkum í þeirri algengustu gerð basalts, sem þóleyít kall-
ast (kennt við Tholey í Þýskalandi). Því er oft gott hellutak, þar
sem þóleyít er í eldra berggrunni og frost og veðrun hafa náð að
kljúfa það upp. Á gróðurlausum öræfum landsins ber vitaskuld
meira á þessum hellum, en í gróðurþöktum byggðunum. Á afrétt-
um þekja þær sums staðar stóra fláka, hættulega hjólbörðum en
afbragðsland til vörðuhleðslu.
Eyðingaröflin
Hin jarðfræðilegu öfl, sem valda spjöllum landkosta, eru af
tvennum toga: Utræn, frá veðrum, vindum og vötnum; innræn,
frá innri öflum jarðar. Meðal hinna útrænu þátta má einkum telja
landbrot af vatnavöldum, uppblástur af völdunt vinds, vatnsrof á
jarðvegi og skriðuföll. Ýmis veðurfarsáhrif á jarðveg og jarðvatn
má hér einnig telja. Meðal innrænu aflanna ber hæst eldgos og
jarðskjálfta. Áhrif þeirra eru oft svo geigvænleg, að þau má með
Goðasteinn
39