Goðasteinn - 01.09.2007, Síða 46
Goðasteinn 2007
við alllangur greiðfær vegarkafli þar til fer að halla norður og niður að Fljótinu þar
sem kláfferjan var og brúin kom síðar spölkorn neðar. Þarna er um háar og brattar
brekkur að fara og liggur slóðinn þar í allkröppum sneiðingum. Þarna norðan í
móti voru stundum fannir og svell og hættulegir hálkublettir, svo fullrar varúðar
var þörf. Á háhæðinni liggur braut til hægri þegar inneftir er farið og er það leiðin
austur að Fljótsgljúfrinu þar sem það er dýpst og hrikalegast. Er þaðan um 3 km
gönguleið með gljúfrinu, um Svartakrók og norður að fossinum sem er skammt
neðan brúarinnar.
Allskammt þar innar og vestar liggur leiðin ofan í gljúfur Þverár um þrengsli
og bratta og síðan ýmist uppi á brúnum eða niðri í árfarveginum, allt inn að
Hellrum. í jarðskjálfta sem yfir reið 25. maí 1987 klofnaði klettur innarlega í
farvegi Þverár og lokaði leiðinni fyrir stærri jeppum, þótt hinir minni og eldri
gætu aðeins smogið um skarðið. Bráðlega var þó fleygað úr klettunum til beggja
handa, svo fært varð flestum bílum ef með gætni er farið.
Frá Hellrum liggur leiðin austur um skarðið norðan við Bólið, nær miðja vega
austur að Fljóti en síðan þvert til vinstri upp háa, bratta og lausa malarskriðu, allt
upp á háhrygginn austan við Þverárbotna. Er þetta erfiðasti hluti leiðarinnar inn að
Skiptingarhöfða og hefur mörgum orðið á að stíga of þungt á bensíngjöfina í
þessari malarbrekku og grafa sig fasta. Scout-jeppinn minn var svo lággíraður og
aflmikill að ég komst þarna allra minna ferða án vandræða.
Inni í miðjum Þverárbotnum er sveigt til hægri, upp aflíðandi brekkur með
syðri gilbrún og upp á háhrygginn sem liggur inn undir Litla-Grænafjall. Framan
undir því er alldjúp lægð og upp úr henni mjög brött brekka með klapparhöftum,
austanhallt við fjallið og upp á flatt klapparholt, all víðlent, og er þar komið á
leiðarenda. Þverhnípi er þar austur af niður í gilin framan við Stóra-Grænafjall en
til vinstri er Skiptingarhöfði, handan við fremur grunna lægð sem verður að
Vestraskarði milli Litla-Grænafjalls og Skiptingarhöfða. Austan við höfðann, milli
hans og Stóra-Grænafjalls er Stóraskarð, allbreitt með klapparholti og sandskrið-
um í miðju. Jafnan var hafður maður í fyrirstöðu í Skörðunum til þess að varna
því að fé sem kom með Fljótinu innan fyrir Stóra-Grænafjall, rynni þar norður um
og aftur inn fyrir fjallið.
Stóra-Grænafjall gnæfir yfir umhverfi sitt, bratt á allar hliðar með fallegum
velgrónum grasbrekkum móti suðri og austri, allt neðan frá Fljóti og langleiðina
upp á koll. Suðaustantil eru þessar fallegu hlíðar þó klofnar af djúpu hamragili er
teygir sig upp undir austuröxl fjallsins sem er nokkru lægri en háfjallið. Að norðan
og vestan eru skriður og mosaþembur, sundurskornar af giljum, en lág klettabelti
efst. Norðan fjallsins meðfram Fljótinu er all víðlent og vel gróið land, mishæðótt
með grunnum giljum og því vandleitað svo vel sé allt austur að Torfahlaupi og
raunar áfram suður með að austan.
44