Goðasteinn - 01.09.2007, Síða 50
Goðasteinn 2007
Það kom iðulega fyrir í eftirleitum, áður en fært var með bíla og kerrur inn eftir
afréttinum, að reiða þurfti kindur fyrir framan sig langar leiðir. Óþægðarskjátur
sem sloppið höfðu í fyrstu leit reyndu gjarna sama leikinn aftur og varð einatt að
elta þær um fjöll og firnindi þar til þær loks þraut að þreki og lögðust niður í
fullkominni uppgjöf.
Var þá ekki annað til ráða en að taka þær á bak fyrir framan sig og rorra þannig
áfram, jafnvel klukkustundum saman áður en þeim varð komið í áfangastað.
Man ég að eitt sinn náðust tvær rígvænar veturgamlar ær inn við Hellra eftir
mikinn eltingarleik um skriður og kletta. Báru þær ekki fyrir sig fætur eftir að þær
loksins náðust. Kom það á okkur Arna á Barkarstöðum að reiða þær alla leið fram
á Einhyrningsflatir og var það heldur þreytandi þolinmæðisverk bæði fyrir mann
og hest. Við reyndum tvisvar eða þrisvar að setja þær niður og fá þær til að ganga
en kom fyrir ekki. Það var sjálfsagt þreytandi líka fyrir blessaða sauðskepnuna að
hossast á hnakknefinu og lærum knapans svo tímunum skipti.
Þessari þolraun mætti að minni ágiskun helst líkja við það að vera í spenni-
treyju með bundnar hendur og þurfa þó að hafa taumhald á reiðskjótanum og
jafnframt hvor okkar að teyma tvo eða þrjá lausa hesta sem við höfðum meðferðis.
Ég var þegar þetta gerðist á besta aldri og ýmsu vafstri vanur. Hefði þó margfalt
heldur kosið að vera laus á hlaupum um gil og klungur allan daginn. Arni var hins
vegar kominn á áttræðisaldur og aðeins með aðra hendi heila. Var seigla hans og
lagni aðdáunarverð og þá ekki síður hið létta skap og frásagnargleði sem ekki
brást honum í þessum aðstæðum fremur en endranær.
Hann var auðvitað margreyndur á þessum vettvangi, hafði árlega farið á fjall
frá unglingsaldri og það tvisvar og þrisvar á hverju hausti. Hestarnir hans, brún-
toppóttir gæðingar, liprir og þægir, þjónuðu þörfum eigandans svo ekki varð á
betra kosið. Þar ríkti fullkomið traust á báðar hliðar. Þegar Arni var kominn á bak
skynjaði maður eins og ósjálfrátt hvað vakti fyrir skáldinu sem orti: „Maður og
hestur þeir eru eitt, fyrir utan hinn skammsýna, markaða baug ...“
Vissulega styttu frásagnir hans stundirnar þennan langa dag og veg, vagandi og
kjagandi með kindina í fanginu, farandi fetið um fjárgötur, skriður og skorninga,
með hendur bundnar en samt í a.m.k. þreföldu hlutverki eins og áður var lýst.
Skútinn í Tröllagjárhömrum
Ekki man ég nú sérstök frásagnarefni Arna þennan dag, utan eitt sem festist í
minni. Við riðum fram eftir Þverárgilinu þar sem hamrar eru á báðar hendur, mó-
bergshamrar mjög veðraðir og sprungnir, með ótal skorum og skútum þar sem
skjól er gott fyrir vindum og veðrum. Arni hafði orð á þessum kostum lands-
48