Goðasteinn - 01.09.2007, Page 57
Goðasteinn 2007
efni. Allir höfðum við morgunverkum að gegna og einhverjar tafir urðu til þess að
komið var fast að hádegi þegar lagt var af stað. Fórum við á Scoutjeppa Hallgríms
og skyldi ekið svo langt sem komist yrði en síðan var ætlunin að við Geiri legðum
land undir fót meðan Hallgrímur biði í bílnum enda var hann þá kominn hátt á
sjötugsaldur og hnjámein tekin að þjaka hann.
Var nú ekið um vegi og vegleysur allt inn á Kanastaði og nokkuð inn- og upp-
fyrir hvamminn neðst í Mið-Kanastaðagili. Lengra varð ekki komist á bílnum sök-
um snjóa. Lögðum við Geiri svo á brattann, vel búnir til gangs, með fjallstangir og
brodda við belti til taks ef á þyrfti að halda.
Fyrst í stað köfuðum við skafla í hverri laut en grynnra var á og sums staðar
svellað á brúnum og börðunr. Færið var þyngra þar sem skari var á snjónum, þunn
skel sem lét undan fæti svo að sökk í við hvert fótmál. Snjódýptin jókst eftir því
sem ofar dró og loks varð allt hjarni hulið nema þverhnýptir klettar og stöku
stórgrýtisbjörg. En um leið þykknaði og harðnaði skelin á snjónum smám saman
uns hún hélt manni og léttist þá gangan til muna. Bundum við þá brodda undir
iljar og sóttist ferðin allvel um sinn, þótt víða væru brekkur í fang.
Þótti okkur sem nú mundi allt léttara veitast og leiðin greið að markinu þótt enn
væri langt undan. Það gekk þó ekki eftir. Þegar við vorum komnir upp á móts við
Hest, fórum við að stíga niður úr hjarninu á ný og brátt vorum við farnir að kafa
lausanjó í hverju spori. Þarna efra hafði frostið ekki myndað skel á snjóinn vegna
þess hve þurr hann var og hafði ekki náð að síga saman eins og neðar þar senr
þýðu hafði gætt áður en aftur frysti. Við máttum því keifa í þungu færi upp á
Botnöxl en svo brá við að þegar kom þar inn af tók við harðfenni eins og
hjarnjökull yfir allt.
Leist okkur ekki meira en svo á útlitið þegar við sáum að Fremra-Botnsgilið
var víða meira en fullt af snjó alveg fram undir Beygju. Snjódyngjurnar voru
misháar og höfðu myndast af gífurlegum snjóflóðum niður hlíðarnar vestan og
sunnan í Ými, hæsta hluta Tindfjalla. Þótti okkur í fyrstu sem Stóristeinn myndi
kominn á kaf í þessum snjódyngjum en þegar við hækkuðum okkur inn eftir
Botnöxlinni sáum við að svo myndi ekki vera.
Við héldum því áfram inn hlíðarhjallann vestanmegin í Krikanum og urðum
sums staðar að höggva okkur spor upp úr þvergiljum sem þar verða í vegi. Þó
nokkuð tafsamt væri síðasta spölinn, náðum við þó loks inn að Stórasteini. Eins
og við höfðum búist við hafði rifið af umhverfis steininn og aðeins upp eftir
brekkunni ofan hans. En þar var ekkert kvikt að finna og engin nýleg merki um
veru kinda þar. Innan við Stórastein var allt á kafi í snjó, samfelldur breði upp á
jökul.
Augljóst var að hefðu kindur orðið þarna eftir, væru þær löngu fenntar undir
djúpum fönnum eða snjóflóðum. Var því sjálfboðið að snúa við en okkur þótti
55