Goðasteinn - 01.09.2007, Page 71
Goðasteinn 2007
Af þessari vegargerð njóta haustleitamenn hagræðis svo og allir þeir sem ganga
á fjöll sér til ánægju og heilsubótar. Kindagöturnar liggja eins og fíngert net um
afréttina og spilla á engan hátt umhverfi eða útsýni eins og sumsstaðar hefur gerst
með vegaframkvæmdum og línulögnum okkar mannanna.
Hinu skal þó líka til haga haldið að haustsnjóar niður í miðjar hlíðar létta leitar-
mönnum margt sporið með því að smala fénu niður fyrir snjólínu.
í öllum þeim leitum á Grænafjalli, sem að framan er lýst, man ég ekki eftir
sérstökum óhöppum eða slysum á mönnum - þótt oft hafi verið tæpt teflt í
erfiðum aðstæðum sökum torleiðis og hrakviðra. Finnst mér það mikið þakkarefni
og skynja það svo sem okkur hafi fylgt hulinn verndarmáttur, hjálp og hlíf. Þá
tilfinningu fékk ég m.a. eitt sinn er ég var að eltast við lamb er sloppið hafði á
Hellisvöllum og upp undir hamra fremst í Gilsárgljúfri. Komst það í sjálfheldu í
hallandi klettaskoru og hugðist ég grípa það þar. Neðan undir var há og snarbrött
grasbrekka með stökum jarðföstum steinum hér og hvar. Ekki tókst nú betur til en
svo, þegar ég ætlaði að handsama lambið að það spyrnti sér skyndilega beint í
fangið á mér svo að ég missti jafnvægið og kútveltist með lambið í fanginu niður
alla brekkuna og steinar og nibbur þutu hjá á báðar hendur en urðu hvergi í vegi
fyrir þessum sérkennilega samsetta bolta sem skoppaði þarna í loftköstum niður
brekkuna. Einhverjir félaga minna urðu vitni að þessum aðförum og undruðust að
hvorki sá á karli né kind þegar upp var staðið.
Aftur á móti ef eitthvað bilaði í búnaði okkar, tækjum eða tólum, þá var það
einn af okkar traustu félögum, Ólafur Þorri í Bollakoti, sem kom til hjálpar og
færði hlutina í lag. Hann var okkar „þúsundþjalasmiður“ og gat unnið tæknileg
kraftaverk næstum því með berum höndunum.
Sem dæmi þess tilfæri ég lítið atvik sem gerðist í einni fjallferð okkar. Við
höfðum lokið leitum fyrri smaladags og vorum í skálanum í Bólstað. Hestum
hafði verið sleppt í girðingarhólfið vestan við skálann. Áður en aldimmt var orðið
skyldi þeim venju samkvæmt smalað saman og þeir reknir inn í hesthúsið á neðri
hæðinni. Nú tókst ekki betur til en svo að þrír hestanna sluppu út úr hópnum og
tóku þegar á rás til byggða.
Ég hljóp þegar upp í bílinn og Þorri í Bollakoti og Guðmundur í Hellishólum
með mér. Aðrir höskuðu sér að beisla hesta til að hefja eftirför. Við brunuðum af
stað í bílnum og hugðumst komast fram fyrir strokuhestana sem komu okkur á
óvart með því að fara ekki fram göturnar, heldur allnokkru austar, með stefnu
fram á Klappir. Þetta gerði mér óhægt um vik með aksturinn, því krækja þurfti
fyrir rásir og hraunnibbur. Kappið var heldur um of í þessum eltingarleik og
næstum orðið aldimmt, svo aka varð með ljósum. Lendir bíllinn skyndilega í
krappri rás og stöðvast með miklum hnykk. Sem betur fór varð okkur ekki meint
69