Goðasteinn - 01.09.2007, Síða 86
Goðasteinn 2007
Útieldhús var í Nýborg, hlaðið úr hraungrýti. Stóð það þar sem Sólheimar
standa nú. Var það upphaflega notað sem bakarí. Eldhúsið var óþétt og í
útsynningi fauk sandurinn inn á hlóðirnar. A hlóðunum stóð járnrist og féll askan
um hana niður í öskustóna. Járnkrókur hékk í bandi yfir þeim og var nefndur hó
og var ketillinn hengdur í hann. Potturinn var settur á hlóðirnar eins og þær voru.
Eldiviðurinn var eingöngu kol og voru ekki vandræði með að láta loga með
slíkum eldiviði.
Aðalmaturinn var soðinn fiskur og var hann alla daga. Annað var ekki eldað.
Kartöflur sáust aldrei. Kjöt var ekki soðið nema á páskunum. Þá var haft
hangikjöt.
Hver háseti hafði með sér að heiman sína skrínu, sem í var kæfa og smjör.
Áður en farið var á sjóinn fengu skipverjarnir köku með smjöri og kæfu og
drukku kaffi á eftir. Það var ekki siður að fara með neinn mat með sér á sjóinn, þó
að setið væri til kvölds. Þegar lagt var af stað var stundum farið að skíma en
stundum var líka róið í kolsvarta myrkri.
Á meðan þeir voru á sjónum annaðist bústýran heimilisstörfin, bjó um rúmin,
sópaði, þvoði nærföt og sokkaplögg, sauð fiskinn og bakaði flatkökur. Hveiti og
rúgur var til helminga. Voru kökurnar bakaðar á hellu, sem lá á hlóðunum.
Þegar að var komið, fóru skipverjarnir heim, til að borða og þurfti þá allt að
vera tilbúið.
Er skipverjarnir höfðu snætt, var farið að gera að aflanum. Var hann allur
saltaður í félagi. Þegar mest fiskaðist og tvísótt var, var oftast skilinn eftir einn
maður í landi sem átti að koma fiskinum undan sjó og byrja aðgerðina. Fékk hann
þá stundum bústýruna til liðs við sig.
Á kvöldin eins og á morgnana var kaffi og flatkökur með kæfu og smjöri.
í landlegum gerðu menn sér ýmislegt til dægrastyttingar, spiluðu á spil, lögðu
sig eða gengu út. Og það kom fyrir að yngri mennirnir tóku saman í glímu. Menn
voru kátir og fjörugir og gerðu óspart að gamni sínu.
Það var alltaf talið sjálfsagt að lesa hugvekju, þegar komið var inn á kvöldin,
áður en háttað var. Jón formaður las alltaf sjálfur. Á undan og eftir var sungið úr
Passíusálmunum og var sálminum skipt. Margir voru góðir söngmenn. Bústýran
söng með.
Laugardaginn fyrir pálmasunnudag þessa vertíð voru öll skip á sjó í Vest-
mannaeyjum. Blíðskaparveður var um morguninn og mikill afli og tvísóttu flestir.
Jón Brandsson í Hallgeirsey, formaður á Bæringi, hafði kastað á land farmi.
Eins og áður segir hafði hann sjóbúð í París sem er skammt austur af Nýborg. Var
heldur en ekki hugur í Jóni að komast sem fyrst af stað aftur. Hann hljóp við fót
fyrir dyrnar á eldhúsinu í Nýborg með bitann í hendinni, er hann var á leiðinni til
skips.
84